21.12.1977
Sameinað þing: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

137. mál, frestun á fundum Alþingis

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Út af þeirri þáltill., sem nú er til umr., og þeim umr., sem fram hafa farið, langar mig til að segja örfá orð, Það er auðvitað ekki að ástæðulausu sem því er hreyft, að full ástæða hefði verið til þess fyrr að ræða hér á Alþ. það alvarlega ástand sem við blasir í landinu að því er varðar aðalatvinnuvegi þjóðarinnar. Hér er um að ræða ástand sem sýnt hefur verið og því full ástæða fyrir Alþ. að ræða það alvarlega, og vissulega hefði verið nægur tími til þess á undanförnum vikum, þegar litið er til þess, að Alþ. var í raun og veru aðgerðalaust svo vikum skipti meðan beðið var eftir því, að hæstv. ríkisstj. gæti komið fjárlögum saman að nafninu til. Það er auðvitað ekki vansalaust, að Alþ. láti það fram hjá sér fara að hefja alvarlegar umr. um ástand eins og það sem nú blasir við. En hér ber allt að sama brunni. Það er engu líkara en hæstv. ríkisstj. hafi ekki haft á því áhuga að ræða þessi mál á Alþ., og bendir allt frekar til þess, að reynt sé að draga fjöður yfir þann raunverulega vanda sem við er að glíma.

Undanfarna daga hafa verið gagnrýnd harðlega þau vinnubrögð sem hæstv. ríkisstj, hefur viðhaft varðandi afgreiðslu fjári. Ég ætla ekki að rifja það mál upp frekar. En ástæða er til að gagnrýna harðlega vinnubrögð hæstv. ríkisstj. sem hún viðhefur einmitt varðandi þá þáltill. sem nú er til umr. Ég veit ekki betur en yfirleitt hafi það verið viðtekin venja, að forsrh. í nafni ríkisstj. gerði stjórnarandstöðu a.m.k. kunnugt, hvaða hugmyndir væru uppi um þingfrestun og hversu langt jólaleyfi væri fyrirhugað af hálfu hæstv. ríkisstj., áður en þm. stjórnarandstöðunnar a.m.k. sjá þetta á borðum sínum á Alþ. Ég fullyrði að nú var ekkert samráð hafi við stjórnarandstöðu um þessa þingfrestun. Stjórnarandstöðuþm. vissu fyrst um þessar hugmyndir eftir að þskj. um þingfrestun hafði verið útbýtt á borð þm.

Nú er ég ekki með þessu að segja, að það hefði haft breytingar í för með sér þó að rætt hefði verið um þetta atriði við stjórnarandstöðuþm. En hitt tel ég að sé í raun og veru sjálfsögð skylda hæstv. forsrh., að hafa samráð um það við stjórnarandstöðu með hvaða hætti þingfrestun á sér stað og hversu lengi er ætlað að þinghlé verði. Ég held að þessi vinnubrögð, eins og svo mörg önnur sem viðhöfð hafa verið af hálfu hæstv. ríkisstj., séu óæskileg í alla staði.

Það er auðvitað ekki nema eðlilegt, að ekki bara þm., heldur og allur almenningur í landinu spyrji þessa dagana, hvaða hugmyndir hæstv. ríkisstj, hefur um lausn á þeim vanda sem við blasir. Þar er auðvitað fyrst og fremst um að ræða vanda útflutningsatvinnuveganna, þ.e.a.s. sjávarútvegs og landbúnaðar. Ég á ekki von á því, þó að spurt sé hér um hugmyndir hæstv. ríkisstj, til lausnar þessum vanda, að nein svör fáist við því, og það er byggt á fenginni reynslu. Ég efast í raun og veru um að hæstv. ríkisstj. hafi nokkra hugmynd um það, hvernig leysa beri þennan vanda. En það verður auðvitað að leggja áherslu á það og undir það tek ég, að í þinghléi noti hæstv. ríkisstj. ekki það vald, sem hún hefur til að setja brbl., tll að gera róttækar ráðstafanir án þess að samráð sé haft við Alþ. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram, að það er auðvitað lágmarkskrafa alþm., er svo stórkostleg vandamál blasa við, að haft sé fullt samráð við Alþ. um lausn á þeim vanda.

Það er greinilegt á því, hvernig haldið er á þessum málum nú, að ekki er gert ráð fyrir að neinar umr, eigi sér stað um þetta mál. Það er áformað að fresta fundum Alþ. innan klukkutíma eða svo — kannske eilítið lengri tíma, en alla vega er svo stuttur tími til stefnu að ekki er gert ráð fyrir að umr. um þessi mál taki langan tíma. Ég skal því ekki, herra forseti, eyða lengri tíma í þetta. En ég ítreka andstöðu mína og mótmæli við þeim vinnubrögðum hæstv. forsrh, og ríkisstj. að slengja hér fram þáltill. um frestun á fundum Alþ. án þess að á nokkru stigi hafi verið haft neitt samráð við stjórnarandstöðu. Ég hygg að það muni vera í fyrsta skipti sem slíkt gerist.