21.12.1977
Sameinað þing: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

137. mál, frestun á fundum Alþingis

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég veit að knappur tími er til stefnu og því ekki hægt að fara út í neinar meiri háttar umr., en ég verð þó að gera nokkrar aths. við ræðu hæstv. forsrh.

Ég vil þá fyrst víkja að því mjög svo einkennilega atriði í ræðu hans, sem ég skildi varla hvað átti að þýða, þegar hann talaði um að hann vildi ekki ætla mér það, að ég væri að hóta því að stöðva allan fiskiskipaflotann nú um áramót, hann vildi ekki ætla mér slíkt, en eigi að síður væri ég fyrsti maðurinn sem á það minntist. Þessi fullyrðing hæstv. forsrh. sýnir mér aðeins hvað hann fylgist illa með því sem hefur verið að gerast varðandi þessi mál. Það liggja nefnilega fyrir margar samþykktir frá stórum samtökum sjómanna og útgerðarmanna um það, að stefna þeirra sé að hefja ekki róðra nema fyrir liggi fiskverðsákvörðun. Ég gæti orðið hæstv. forsrh, úti um þessar samþykktir, ef hann hefur ekki þegar fengið þær. Þetta er ekkert nýtt, enda var ég ekki að hóta neinu, heldur benti bara á eina af þeim hættum sem við stöndum frammi fyrir að vissulega getur orðið alvara úr ef ekkert er að gert. En þetta var í rauninni aukaatriði.

En það voru mörg önnur atriði, sem ég get ekki annað en flokkað undir aukaatriði, sem hæstv. forsrh. sagði í tilefni af orðum mínum. Hann sagðist vísa á bug aths. um það, að hér hefðu ekki farið fram umr. á hv. Alþ. um vandamáf efnahagslífsins og vandamál atvinnuveganna. Ef eitthvað skorti á í þeim efnum, þá bæri að ásaka stjórnarandstöðuna um það, að hún hefði ekki gengið nægilega eftir slíku eða ekki flutt mál sem leiddu til þess að slíkar umr. færu fram. Í framhaldi af þessu benti hæstv. forsrh. á að hér hefðu farið fram umr. um lánsfjáráætlun ríkisstj. sem að nokkru leyti markaði stefnu varðandi sérstaklega fjárfestingarmálin. Þessi ummæli hæstv. forsrh. sýna líka harla vel, hvað hann hefur tekið litinn þátt í þeim umr. um þessi mál, sem hér hafa þó farið fram, og hvað hann og ríkisstj. hafa leitt þessi mál hjá sér. Hér hef ég og fleiri alþm. margsinnis fundið að því, að ekki væri staðið við gefið loforð um það, að lánsfjáráætlunin, sem vissulega átti að marka stefnu í nokkuð þýðingarmikinn þætti þessara mála, varðandi fjárfestinguna, yrði lögð fram í nóvembermánuði, eins og lofað hafði verið. Áætlunin gat ekki komið fyrir þingið fyrr en allt var komið í eindaga í sambandi við afgreiðslu fjári. og hart var gengið á bæði stjórnarandstöðu og aðra að spara nú tímann eins og mögulegt væri í umr., vegna þess að tíminn var hlaupinn frá. Auðvitað fór ekki fram nein eðlileg umr. um þennan stóra þátt, og ég fullyrði, af því að ég tók þátt í þessum umr., að hæstv. forsrh, sást ekki í þeim umr. og sagði ekki eitt einasta orð hér varðandi þau mál sem þarna voru rædd, og þessi þýðingarmikill þáttur var sáralítið ræddur.

En nú er það ekki sá þáttur þessara mála, þó að hann sé vissulega þýðingarmikill, sem hér er sérstaklega verið að fjalla um. Það eru ekki fjárfestingarmálin á næsta ári og sá ágreiningur sem uppi er um stefnuna í því, hvernig skuli halda á fjárfestingarmálum. Vandinn, sem hér er verið að ræða um, er rekstrarvandamál atvinnuveganna, þar sem svo er komið að tilkynningar eru uppi um það, að þýðingarmiklar greinar atvinnurekstursins séu að stöðvast. Vandinn er hvernig á að bregðast við því, i~ó að samþykkt sé hér almenn stefnuyfirlýsing um það, hvernig skuli staðið að fjárfestingarmálum á þann hátt sem gerð er grein fyrir í lánsfjáráætlun, þá svarar það engu um hvernig á að koma í veg fyrir að fiskvinnslan stöðvist vegna taprekstrar, og nokkrar greinar fiskvinnslunnar hafa þegar stöðvast. Það svarar vitanlega heldur engu um það, hvernig á að bregðast við vandamálum landbúnaðarins, sem hann hefur sett fram og óskað eftir lausn á. Og það svarar heldur engu um það, hvernig eigi að bregðast við rekstrarvandamálum iðnaðarins. Það eru þessi rekstrarvandamál, sem hafa verið að hlaðast upp og ógna íslensku atvinnulífi í dag, — það eru þau vandamál sem verið er að ræða um núna. Að umr. um hinn þáttinn var illa staðið af hálfu hæstv. ríkisstj. Það veit hæstv. forsrh. líka mætavel, að þó að einstakir alþm. flytji þáltill. eða leggi fram fsp., þar sem er mjög takmarkaður ræðutími, þá geta samkv. slíku ekki farið fram neinar eðlilegar umr. um þessi stóru mál og hafa ekki farið fram.

Það er auðvitað líka út í hött hjá hæstv. forsrh. að tala um það, að ég og við í stjórnarandstöðunni, formenn stjórnarandstöðuflokkanna, höfum einhverjar áhyggjur af því að við munum ekki hafa nóg að gera á næstunni, og vísa okkur á að við getum fengið að puða í verðbólgunefndinni, — þeirri nefnd sem búin er að vera að störfum og ekki að störfum í meira en ár og ekkert gerist í og ekkert mun gerast í. Þetta er vitanlega að svara út í hött, reyna að víkja sér undan þeim vanda sem um er að ræða. Hæstv. forsrh. veit mætavel, að þessi nefnd leysir engan vanda, hún bjargar ekki því, að ekki verði stöðvun í undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar á næstu mánuðum. Satt að segja er ótrúlegt að hæstv. forsrh. sætti sig við þessi alvarlegu mál, þó að hann geti huggað sig við að ég, Gylfi og Karvel höfum nóg að gera. Málin eru miklu stórkostlegri en svo.

Aðalatriðin í því, sem fram komu hjá hæstv. forsrh. varðandi fsp. mínar, voru þessi: Hæstv. forsrh. segir: Ríkisstj. mun nota vald sitt til þess að setja brbl. Það var ekki á honum að heyra að þar væri meiningin að draga neitt af sér. (Forsrh.: Ef brýna nauðsyn ber til.) Já, ef brýna nauðsyn ber til. Það er ekki hægt að setja brbl. öðruvísi, það vitum við allir. Það er skilyrði í stjórnarskránni, og það hefur verið túlkað nokkuð léttilega. Ég fór hins vegar fram á það, að ríkisstj. notaði ekki þetta vald nema þá til örstutts tíma, þannig að það yrði á þingræðislegan hátt fjallað um þessi vandamál af Alþ. Ég benti einmitt á að vitanlega er hægt að ráðast til lausnar á vandamálum með setningu brbl. og leggja síðan fram, bara til þess að fullnægja lagaskyldu, til staðfestingar Alþ. slík brbl. og afgreiða þau síðan ekki fyrr en eftir marga, marga mánuði. Það er að ganga fram hjá hinu rétta löggjafarvaldi. En það var greinilegt að mínum dómi á svörum hæstv. forsrh., að hann vill ekki binda sig við það að beita brbl.- valdi sínu þannig að þar verði aðeins um að ræða lagasetningu til örstutts tíma og Alþ. geti þá fjallað um málið á eðlilegan hátt.

Það er vitanlega alveg út í hött í sambandi við þessi mál að tala um það, að ég eða aðrir óttist að ríkisstj. verði búin að leysa allan vandann með brbl. Ég óttast hitt miklu frekar, að hún grípi til þeirra ólýðræðislegu vinnubragða að setja brbl., sem reka allt í hnút, og magni þannig vandann. Ég býst við því, eins og kom fram í rauninni í máli hæstv. forsrh., að alllangan tíma taki að finna fullnaðarlausn á þessum miklu vandamálum. En það hefur oft þurft að leysa mikil vandamál til bráðabirgða, og þá er spurningin, hvernig það er gert.

Annað atriði, sem ég spurði um, var það, hverjar væru hugmyndir ríkisstj, um hvernig ætti að leysa þennan aðkallandi vanda, sem ekki væri deilt um að væri til, — hverjar væru hugmyndir ríkisstj. Og svarið var ákaflega ljóst. Svarið var ekkert. Það voru engar hugmyndir til — engar. Það eina, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., var það, að ekki væri tími til þess að fara að fjalla um hugmyndir til lausnar á þessum vanda. Ég fór ekki fram á að menn færu að halda ræður um það, hvers eðlis vandinn væri og hvað hann væri mikill. mældur nákvæmlega í krónum. Mér datt ekki í hug að fara fram á neitt slíkt. En ég vildi fá að vita á þessu stigi, eftir að hæstv. ríkisstj. er búin að standa frammi fyrir ákveðnum till. og kröfum bændastéttarinnar, hvaða hugmyndir hún hefði um það, hvernig ætti að bregðast við vandanum. Mér fannst eðlilegt að þm. fengju eitthvað að vita um það áður en þeir fara heim. Og ég veit að hæstv. ríkisstj. hlýtur líka að hafa fylgst með því, hver vandi sjávarútvegsins er. Það skiptir mig ekki neinu höfuðmáli, hvort hægt er að tala um að rekstrarhalli fiskiðnaðarins í landinu eða frystihúsanna sé nú 4 eða 5 milljaðrar miðað við núverandi rekstrarstöðu Vandinn er sýnilega gífurlegur og er þegar farinn að koma fram í því, að einstök frystihús hafa hætt rekstri. Því var spurning mín: Hvernig hugsar ríkisstj. sér að reyna að bregðast við þessum vanda? Er hún með einhverjar hugmyndir? Ég get vitanlega ekki dregið aðra ályktun af því. sem fram kom í máli hæstv. forsrh, en þessa: Ríkisstj, hefur engar hugmyndir. Hún lætur reka undan í þessum efnum eins og fleiru. Hún hefur heyrt um þennan vanda, hún veit að einhverju leyti um vandann, en hún veit ekkert hvað á að gera. Líklega væri það einna helst, að henni dytti í hug í framhaldi af þessu að setja brbl. um að fresta vandanum eða eitthvað þess háttar. En það leysir ekki mikið.

Þá sagði hæstv. forsrh. að við fengjum nú, þm. allir, gott tækifæri í þinghléinu til þess að kynna okkur þessi vandamál. Jú. ekki efast ég um það, og það getur vel verið að maður fái að kynnast þeim á nokkuð kaldan og nöturlegan hátt og á þann hátt sem allir væru ekki ánægðir með. En ég býst við að allir hv. alþm. hafi kynnt sér þessi mál að einhverju leyti og viti talsvert um þennan vanda.

Ég hef ekkert við það að athuga og tel aðeins eðlilegt að hæstv. ríkisstj. haldi áfram að undirbúa sig í sambandi við það, hvernig eigi að taka á þessum vandamálum, hún undirbúi tillögur sínar í þinghléi. Það tel ég fullkomlega eðlilegt, að hún geti enga grein gert fyrir því á þessu stigi málsins, hvað hún hefur hugsað sér að gera. Það tel ég alveg óverjandi, ef hún er svo aftarlega á merinni að hún sé ekki enn farin að hugsa neitt til þess, hvernig við eigi að bregðast.

Niðurstaða mín — af því að ekki er tími til að ræða þessi mál frekar, ég tek tillit til þess, hvernig ástatt er með tímann og fyrirhugaða þingfrestun — niðurstaða mín er þessi: Ég hef ekki fengið nein vilyrði um það frá hæstv. forsrh., að ríkisstj. beiti ekki brbl.-valdi sínu, á meðan þingið er sent heim, til þess að gera þær ráðstafanir varðandi þessi mál sem raunverulega taka af Alþ. það vald sem Alþ. á að hafa til þess að glíma við vandamál sem þessi. Af þessum ástæðum mun ég ekki greiða þeirri till. atkv. sem hér liggur fyrir. Í henni felst að ríkisstj. er að sækjast eftir því, að Alþ. samþykki að veita henni þetta vald, og taka af Alþ. þann rétt sem Alþ. hefur. Varðandi hitt atriðið get ég ekki sagt annað en það, að svörin eru á þá lund, að ríkisstj. vill a.m.k, ekkert gefa upp um það, hvað fyrir henni vakir varðandi lausn þessara mála Við það get ég ekki sætt mig. Ég hlýt að mótmæla slíkum vinnubrögðum og tel að ríkisstj. standi þannig að málum að best væri að þjóðin losnaði við hana sem allra fyrst.