21.12.1977
Sameinað þing: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

1. mál, fjárlög 1978

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Það er sannfæring mín, að sá háttur, sem Alþ. tók upp við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1972, að fela menntmn. beggja d. að gera till. um listamenn í heiðurslaunaflokk, hafi verið mikil framför í afgreiðslu á vandmeðförnu og viðkvæmu máli. Það er æskilegast að mínum dómi, að Alþ. reyni að ná sem viðtækustu samkomulagi um till. af þessu tagi. Hins vegar vil ég geta þess, að ég ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds gerði till. um það á nefndarfundi menntmn., að fjölgað skyldi í heiðurslaunaflokki. Sú till. mætti andstöðu meiri hl. En við hv. þm. Ragnar Arnalds störfuðum eftir sem áður í n. og tókum þar fullan þátt í því að gera till. um listamenn í heiðurslaunaflokki, og sú till. liggur hér fyrir. Við það samkomulag stend ég að sjálfsögðu sem einn nm. Vegna þess, sem ég hef rakið, mun ég ekki taka þátt í afgreiðslu um þessa till., ég mun sitja hjá og er því afstaða mín ekki bundin mati mínu á verðleikum þeirra listamanna sem hér er gerð till. um.