23.01.1978
Sameinað þing: 37. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í B-deild Alþingistíðinda. (1458)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. ráðh, undirtektir hans. Hann hefur, hæstv, ráðh., heitið því að gefa okkur alþm. og þar með þjóðinni allri skýrslu um þetta mál. Ég tel að sjálfsögðu eðlilegt og nauðsynlegt að hæstv. ráðh. hafi um það samráð við þá sem rannsaka málið, hvað verður sagt, en ég fagna þessum undirtektum hæstv. ráðh, og tel að þetta séu vinnubrögð, sem eigi að hafa undir svona kringumstæðum og raunar sé kominn tími til þess að með einhverju móti leggi Alþ. meiri áherslu á eftirlitshlutverk sitt heldur en það hefur gert að undanförnu.

Ég vil aðeins taka það fram, að Alþýðubankamálið tók ég aðeins sem dæmi, tilfærði það sem dæmi um hvernig ég teldi að ekki ætti að standa að rannsókn máls, hvað því viðvíkur hver hraði hefur verið á þeirri rannsókn. Ég tel það ekki æskilegt, hvorki fyrir einstakling né stofnun, að mjög lengi dragist að leiða til lykta rannsókn á meintu misferli af því tagi sem þar var um að ræða.

Ég hef ekki fleira um þetta að segja, herra forseti, en leyfi mér að þakka hæstv. ráðh. enn og aftur fyrir undirtektir hans.