23.01.1978
Sameinað þing: 37. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1459)

110. mál, innflutningur á áfengi og tóbaki

Ráðuneytið leitaði eftir svari hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands við fyrirspurninni og er það svo hljóðandi:

Seðlabanki Íslands

Reykjavík, 13. des. 1977.

Viðskiptaráðuneytið

Arnarhvoli

Í bréfi ráðuneytisins til Seðlabanka Íslands, gjaldeyriseftirlitsins, dags. 8. desember s.l., er óskað svara við spurningum varðandi umboðslaun íslenskra erindreka erlendra áfengis- og tóbakssala.

Í þessu sambandi vill gjaldeyriseftirlitið taka fram eftirfarandi:

1) Gjaldeyriseftirlitið flokkar ekki umboðslaunatekjur eftir eðli eða af hvers konar innflutningi þau eru tilkomin. Vér höfum tekið saman umboðslaunatekjur 17 helstu aðila, sem m.a. hafa umboð fyrir áfengi og tóbak, og reyndust þær vera um 200 millj. kr. á árinu 1976. Flestir umboðsmennirnir eru jafnframt með umboð fyrir aðrar vörur og fær gjaldeyriseftirlitið einu sinni á ári skýrslur þeirra um heildarumboðslaunatekjur. Í þessu sambandi hefur gjaldeyriseftirlitið bréflega samband við á milli 1 og 2 þúsund aðila árlega.

2) Að mati gjaldeyriseftirlitsins er á engan hátt tryggt, að greiðslur, sem þessir umboðsmenn fá, skili sér í íslenska gjaldeyrisbanka. Ekki hefur verið komið auga á leiðir, sem geri það tryggt að þessar tekjur komi að fullu til skila.

3) Af sömu ástæðum og greint er frá í lið 1) liggja ekki fyrir upplýsingar varðandi þessa spurningu.

4) Á árinu 1963 var opnuð sú leið fyrir innflytjendur almennt, að þeim var beimilað að verja umboðslaunum til kaupa á frílistavörum. Heildarskil gjaldeyris í þessu formi á s.l. ári námu 301 millj. króna. Að auki námu skil umboðslauna í erlendum gjaldeyri til bankanna 2216 millj. kr. á sama ári.

Gjaldeyriseftirlitið vill benda á, að upplýsingar varðandi 1. og 3. spurningu er hugsanlega hægt að fá hjá Skattstofunni í Reykjavík, en á s.l. vetri mun hún hafa gengist fyrir sérstakri athugun á umboðslaunatekjum vegna innflutnings á áfengi og tóbaki.

Virðingarfyllst,

SEÐLABANKI ÍSLANDS

Gjaldeyriseftirlitið

Bj. Tryggvason

S. Jóhannesson

Vegna niðurlags bréfs gjaldeyriseftirlitsins, var spurst fyrir um það í fjármálaráðuneytinu, hvort hugsanlegt væri, að skattayfirvöld gætu veitt svar við fyrirspurn háttvirts þingmanns.

Svar fjármála ráðuneytisins er svo hljóðandi:

Fjármálaráðuneytið

Reykjavík, 9. janúar 1978

Viðskiptaráðuneytið

Reykjavík Vísað er til bréfs viðskiptaráðuneytisins, dags. 14. des. 1977.

Ekki hefur af hálfu skattayfirvalda verið unnin heildarskrá er flokki framteljendur í öllu landinu eftir því hvort þeir hafa tekjur af umboðsstarfsemi og því eigi hvernig skipa skuli þeim í röð eftir upphæð slíkra tekna. Skattstofan í Reykjavík hefur hins vegar borið saman innflutt magn áfengis og tóbaks og framtaldar umboðslaunatekjur þeirra framteljenda sem búsettir eru í Reykjavík og skráðir eru umboðsmenn.

F. h. r.

Höskuldur Jónsson

Þessu til viðbótar tel ég rétt að benda á ákvæði 49. gr. laga um,tekju- og eignarskatt, sem er svo hljóðandi:

„Skattstjórum, umboðsmönnum skattstjóra, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, ríkisskattanefnd og nefnd samkvæmt 6. mgr. 48. gr. er bannað, að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi mönnum frá því, er þeir komast að í sýslan sinni um tekjur og efnahag gjaldþegna.

Hið sama gildir um þá, er veita aðilum samkvæmt 1. mgr. aðstoð við starf þeirra eða á annan hátt fjalla um framtalsskýrslur manna.“

Undanþágur frá þessum ákvæðum eru í 44. gr. að því er snertir upplýsingar til Hagstofu Íslands og gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands samkv. nýsettum lögum að því er varðar upplýsingar, sem nauðsynlegar eru til eftirlits með gjaldeyrismálum. Þá hefur Þjóðhagsstofnun undanþágu líka.

Ég tel að frekari tilraunir af hálfu viðskiptaráðuneytisins til að afla upplýsinga um efni fyrirspurnarinnar séu ekki líklegar til að bera árangur.