24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

315. mál, raforka til graskögglaframleiðslu

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð varðandi samkeppnisaðstöðuna. Það eru ekki eingöngu niðurgreiðslur Efnahagsbandalagsins sem um er að ræða í þessu efni. Það er raunverulega um tvenns konar niðurgreiðslur og erfiðleika að ræða fyrir a.m.k. þá einu einkagraskögglaverksmiðju sem til er í þessu landi. Í fyrsta lagi er það niðurgreiðsla Efnahagsbandalagsins, í öðru lagi samkeppnin við ríkisverksmiðjurnar, sem bæði fá framlög á fjárlögum og þar að auki eru skattfrjálsar. Mig langar því til að spyrjast fyrir um það, hvort í þessari athugun ríkisstj. sem nú fer fram, fælist athugun á þessu sérstaka máli, vegna þess að auðsjáanlegt er að ríkisverksmiðjurnar hafa allt aðra samkeppnisaðstöðu heldur en þessi einkaverksmiðja sem rekin er uppi á Kjalarnesi og oft hefur verið minnst á hér, Hún á í sífelldum rekstrarörðugleikum og hlýtur að hafa allmiklu meiri kostnað við sína framleiðslu heldur en ríkisverksmiðjurnar hafa, m.a. vegna þess að skattaálögur eru á annan hátt. Þessir bræður sem reka þá verksmiðju, hafa gert það af miklum myndarskap og sóma og staðið sig með prýði. En ég sé ekki annað en aðstaða þeirra sé að verða nokkurn veginn vonlaus, ekki síst í baráttunni við niðurgreiddar vörur erlendis frá, en einnig vegna þess að stöðugt kemur stuðningur ríkisins við hinar verksmiðjurnar og þeim fjölgar og framleiðsla þeirra vex mikið. Þær hafa, eins og ég gat um áður, aðra möguleika með sinn kostnað heldur en þessi einkaverksmiðja hefur.