24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

315. mál, raforka til graskögglaframleiðslu

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Vegna þess að það féll niður hjá mér áðan að geta um skýrslu um rannsóknir, sem hafa verið gerðar í sambandi við fóðuröflun á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, vil ég taka fram, að svar þar að lútandi fékk ég einnig í haust, en mér líkaði það ekki og endursendi og bað um fyllri skýrslu. Það er ástæðan fyrir því, að ég var ekki undir þetta búinn sem skyldi, að ég hef hana ekki í höndum. Ég skal gera ráðstafanir til að fá hana og láta hv. fyrirspyrjanda hana í té, og ef þess er óskað skal ég líka gera grein fyrir henni hér í þinginu. En mér fannst ekki tekin þar þau atriði sem ég hafði óskað eftir og þess vegna var beðið um að fá þessa skýrslu yfirfarna. Því miður hafði ég ekki hugsað um að reka á eftir því nú síðustu dagana.

Út af því, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Reykn., þá er það rétt, að það er ekki um minna vandamál að ræða við grasmjölsverksmiðjuna á Kjalarnesi heldur en hinar. Raunverulega er það ein þeirra sem stendur langbest að vígi. Það er sú elsta, sem er búin að koma sínum málum vel fyrir, verksmiðjan í Gunnarsholti. Allar aðrar eiga í miklum erfiðleikum, því að þó fjárframlög komi frá ríkinu hafa þau verið mjög takmörkuð. Þess vegna er nú stefnt að því að setja um þetta heildarlöggjöf og reyna að koma í veg fyrir að þessi atvinnurekstur þurfi að bíða hnekki. Það er alveg ljóst, að ganga verður frá þessum málum, eins og frekast er hægt, þannig að atvinnureksturinn sem slíkur geti borið sig. Það hefur jafnan verið mín skoðun, að ekki ætti að binda þetta við ríkið, heldur almennan atvinnurekstur, gætu verið einstaklingar og félagssamtök, og ég tel brýna nauðsyn bera til að einmitt bændasamtök, eins og búnaðarfélögin eða samvinnufélögin og þess háttar, verði aðilar að þessum ríkisverksmiðjum. Skoðun mín er sú, að eftir að sölumálin fara að verða verulegur þáttur, og þau verða meiri eftir því sem verksmiðjunum fjölgar þá þurfi að ganga betur frá en hefur verið gert. Ég skil vel og veit vel af erfiðleikum í þessum verksmiðjum almennt, það er alveg ljóst, og það er ekki hægt að una því, að erlendir fóðurbætir eyðileggi þennan iðnað. Það er líka reynsla, að þetta er hið besta fóður og mun standast að því leyti fullkomlega samkeppni.