24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

93. mál, Inndjúpsáætlun

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég ber fram á þskj. 107 fsp. til hæstv. landbrh, um Inndjúpsáætlun. Fsp. er í tveimur liðum og hljóðar þannig:

„1. Hvað líður endurskoðun Inndjúpsáætlunar?

2. Hvaða rök eru fyrir því, að fjárveiting til síðasta árs áætlunarinnar er felld niður í frv. til fjári. 1978?“

Þessi fsp. kom fram allsnemma á s.l. hausti.

Upphaf Inndjúpsáætlunar má rekja til frumkvæðis bænda við Ísafjarðardjúp í byrjun þessa áratugs. Hófst áætlunartímabilið árið 1974 og skyldi standa í 5 ár, til loka ársins 1978. Gert var ráð fyrir að áætlunin yrði endurskoðað eftir því sem henni miðaði fram, en sú endurskoðun hefur ekki verið gerð og því er þessi fsp. borin fram nú. Meginmarkmið Inndjúpsáætlunar var að efla atvinnulíf svæðisins með því að stækka búin, gera þau rekstrarhæfari og treysta með því og auka búsetu á svæðinu. Byggðir Inndjúpsins höfðu goldið mikið afhroð í því fólksfækkunarfári er gekk yfir Vestfirði á áratugunum upp úr 1930. 4 byggðasvæði því, sem áætlunin nær yfir, fækkaði íbúum á árabilinu 1930–1972 úr 711 í 399 eða um 56.1%. Á sama tíma varð hlutfallsleg fækkun á Vestfjörðum 24%, en fjölgun þjóðarinnar í heild hins vegar 93.6%. Þetta mun eitt gleggsta dæmið um hina hroðalegu byggðaröskun í landinu er varð á þessu tímabili.

Það er enginn vafi á því, að Inndjúpsáætlunin hefur þegar borið mikinn og gleðilegan árangur, og ber að þakka skilning ríkisvaldsins og þá ekki hvað síst landbrh., Halldóri E. Sigurðssyni, á nauðsyn sérstakra ráðstafana til að stöðva þá óheillaþróun er þarna átti sér stað. Svipaða sögu er raunar hægt að segja um Árnesáætlun í Strandasýslu, sem hófst árið 1976 og hefur gengið mjög vel. Inndjúpsáætlun hefur glætt bjartsýni og kjark fólksins, sem þarna býr, og trú þess á að búskapur við Djúp geti verið lífvænlegur ef rétt er á haldið, þótt búskaparskilyrði séu þar að ýmsu leyti erfiðari en víðast annars staðar á landinu. En þarna eru einnig mikilvæg hlunnindi: æðarvarp og fuglatekja, seltekja, lax- og silungsveiði, jarðhiti víða og virkjanlegt vatnsafl, sem þegar hefur verið nýtt í þágu Inndjúpsbyggða. Má benda á það til gamans hér, að fámennasti hreppurinn í Inndjúpi, Snæfjallahreppur, á elstu hreppsvirkjun á landinu, Mýrarárvirkjun, sem hreppsbúar reistu af eigin rammleik og hefur nú þjónað notendum sínum í meira en 10 ár. Það má líka taka til marks um áhrif Inndjúpsáætlunar, að á 2—3 síðustu árum hafa byggst upp á svæðinu þrjú eyðibýli með ungum og áhugasömum ábúendum; í Botni í Mjóafirði, Hafnardal á Langadalsströnd og Þvervík í Ögurhreppi. Sveitabýli á þessu svæði munu nú vera 45–50 talsins, en áætlunin náði upphaflega til 42 býla, Ég tel óhætt að fullyrða að þessi fjölgun hefði ekki komið til nema af því að Inndjúpsáætlun var í gangi.

En hverja sögu verður að segja eins og hún gengur. Þótt þessi áætlun hafi tvímælalaust haft jákvæð áhrif, þá hefur gengið á ýmsu með framkvæmd hennar og ekki verið staðið sem skyldi við þau fyrirheit sem gefin voru í upphafi. Landnámi ríkisins var falið að sjá um framkvæmdina, en því hefur jafnan verið fjár vant til að geta leyst hana af hendi sem skyldi. Arið 19?5 færðist hún yfir á hendur ræktunarsambanda Djúpbænda, og nú hefur nýstofnað húsagerðarsamband ásamt með Austur-Barðstrendingum tekið að sér byggingarframkvæmdir fyrir bændur. Fé hefur skort til að standa straum af nauðsynlegri framkvæmda- og yfirstjórn og þar hefur ýmislegt verið lausara í böndunum en skyldi. Gengið var út frá því í upphafi, að Djúpbændur fengju 25% staðarupphót á afurðaverð vegna aðstöðumunar. Þessi uppbót hefur í reynd orðið hæst 14.29%, en er nú komin niður í 1%. Benda má á í þessu sambandi, og þá helst þeim mönnum sem hafa upp á síðkastið gengið berserksgang í að niða niður íslenskan landbúnað, að ýmsar nágrannaþjóðir okkar ganga sýnu lengra en við í fjölþættri aðstoð til landbúnaðar í þeim landshlutum sem standa höllum fæti í byggðalegu tilliti. Þannig er t.d. í Norður-Noregi veittur 50% hærri styrkur til framræslu lands en annars staðar í landinu og fjölmargir styrkir, mismunandi háir eftir aðstæðum, til byggingaframkvæmda, kjarnfóðurs- og áburðarkaupa o.fl. Þarna er sem sagt beitt stjórnun á þróun landbúnaðar, sem mjög hefur skort á hjá okkur.

Þá er það einnig staðreynd nú á lokaári Inndjúpsáætlunar, að ræktunarþátturinn hefur orðið allmjög út undan og horfur eru á að ræktaður verði aðeins 1/5 hluti þess sem til stóð á áætlunartímabilinu. 44% af hlöðubyggingum eru horfur á að lokið verði, 51% af fjósum og 84% af fjárhúsum. Það er því ljóst, að mikið mun vanta á að áætlunin standist, og eðlilegt, að spurt sé: Hvað tekur við árið 1979? Munu bændur á Inndjúpssvæðinu ekki njóta áfram viðbótarfyrirgreiðslu frá Byggðasjóði og Stofnlánadeild, en Stofnlánadeildin hefur verið helsti fjárhagslegur bakhjarl áætlunarinnar? Verður hér horfið frá hálfloknu verki? Nauðsynlegt er að málið verði nú athugað og endurskoðað í upphafi þessa árs til að eitthvað svigrúm sé til skynsamlegs samhengis á ákvörðunum. Almennir bændafundir við Djúp á s.l. sumri hafa ályktað mjög eindregið í þessa átt. Sérstaklega mun koma til með að vanta meira fé til að standa straum af auknum ræktunarframkvæmdum, eins og kom fram hér á undan.

Það hefur mikið verið talað um ofbeit í íslenskum sveitum og offramleiðslu landbúnaðarafurða. Þá má fullyrða að við Ísafjarðardjúp er hvorugu til að dreifa. Þvert á móti líða þéttbýlissvæðin við Ísafjarðardjúp utanvert, Ísafjörður og Bolungarvík, af stöðugum mjólkurskorti. Það er því augljóst mál að hagkvæmt er og sjálfsagt að leggja allt kapp á aukna mjólkurframleiðslu í aðliggjandi landbúnaðarhéruðum, en draga að sama skapi úr rándýrum flugflutningum á mjólkurvörum frá öðrum landsfjórðungum. Flutningsgjaldið á lítra mjólkur í flugi á s.l. ári frá Reykjavík eða Akureyri var 43.76 kr. – 43.76 kr. á hvern lítra. En á árinu 1977 voru fluttir flugleiðis 183 þús. lítrar af mjólk og rjóma til Ísafjarðar. Flutningskostnaður á mjólk með Djúpbátnum á árinu 1977 var hins vegar 4.60 kr, á litra, þ.e.a.s. úr Djúpinu til Ísafjarðar. Úr Dýrafirði og Önundarfirði er kostnaðurinn með bílaakstri og síðan Djúpbátnum 13.06 kr. á lítra. Bændur á Inndjúpssvæðinu hafa á undanförnum árum lagt vaxandi áherslu á mjólkurframleiðslu og hefur hún aukist verulega, Þannig var mjólkuraukning hjá Mjólkursamlagi Ísfirðinga á fyrstu 6 mánuðum ársins 1977 15%, en það mun vera langmesta aukning yfir landið allt. Þessa þróun verður að örva og styðja. Hagkvæmni þess liggur í augum uppi.

Um síðari lið fsp. — hvaða rök eru fyrir því, að fjárveiting til síðasta árs áætlunarinnar er felld niður í frv. til fjári. fyrir 1978? — get ég verið stuttorð. Fjárveitingin kom inn í meðförum þingsins, 7 millj., en sú upphæð óhreytt hefur verið á fjárl, undanfarin ár, 6 millj, á fyrsta ári áætlunarinnar, lækkaði þó árið 1976 niður í 6.6 millj. Þessi fjárveiting, óbreytt í verðbólguþróun undangenginna ára, hefur auðvitað ekki hrokkið til mikilla stóræða, en þó verra að missa alveg af henni.

Ég leyfi mér að vera bjartsýn um sákvæð svör hæstv. landbrh. við meginefni fsp. minnar og grg. hér að framan um endurskoðun Inndjúpsáætlunar og framlengingu hennar með einum eða öðrum hætti Mér sýnast öll rök hníga að því, að hér megi ekki láta staðar numið, og ég hlýt að benda á að hinum ýmsu félagslegu þáttum, sem áætlunin fól í sér upphaflega, hefur lítt eða ekki verið sinnt. Samgöngumálin eru þar sérkapítuli. Engu að síður vil ég endurtaka þakkir mínar fyrir það, sem hér hefur verið vel gert í þágu byggðarlags sem líklega flestum byggðarlaga fremur hefur átt í vök að verjast, en virðist nú sjá fram á nokkru bjartari tíð.