24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

93. mál, Inndjúpsáætlun

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj, 107 er fsp. frá hv. 9. landsk. um Inndjúpsáætlun og fyrri liðurinn: Hvað líður endurskoðun Inndjúpsáætlunar? því er til að svara, að landbúnaðarmálin eru nú í endurskoðun í heild. Ekki er því mögulegt að taka út úr einstaka liði. Fleiri svæði, sem má telja líkt ástatt um og Inndjúpið og e.t.v. verr, þurfa að koma til skoðunar samhliða Inndjúpsáætluninni. Þegar er búið að gera mikið átak í skipulagsmálum í landbúnaði með framkvæmdum í Inndjúpi og Árneshreppi á Ströndum. En til viðbótar þessu hafa verið tekin ný svæði og í því sambandi vil ég nefna vestursvæði Mýrasýslu, meginhluta Hnappadalssýslu, enn fremur hreppa í Dalasýslu, Norður-Þingeyjarsýslu og víðar, sem hafa verið teknir inn í heildaráætlun um þessi mál. Að því er nú unnið og er nú langt komið að skila skýrslu um þessi svæði og hugsanlegum leiðum þar til úrbóta. Árneshreppur á Ströndum var með í þessu og er sá fyrsti sem hefur verið afgreiddur. Enn fremur er hreppur í Vestur-Húnavatnssýslu sem ég man eftir í bili. Þess vegna er hægt að svara þessu með því, að að þessari endurskoðun er unnið ásamt gerð byggðaáætlunar fyrir fleiri svæði en Inndjúpið.

2. liður svaraði sér nokkurn veginn sjálfur, en þar er spurt, hvernig standi á því að niður hafi verið felld í frv, til fjárl. fyrir 1978 fjárveiting til Inndjúpsáætlunar. Um það mál er það að segja, að í till. landbrn. var gert ráð fyrir 7 millj. kr. vegna Inndjúpsáætlunar. Í meðferð fjmrn. og hagsýslunnar við undirbúning fjárlagafrv. var þetta skorið niður í 3 millj. 256 þús. kr. til sérstakra verkefna. Þar undir átti að vera Hólsfjallaáætlun, sem er einnig í gangi og var farið fram á 9 millj. vegna hennar. Í meðferð fjvn. Alþ. var þessi fjárhæð til Inndjúpsáætlunar hækkuð í 7 millj. kr, og er ég n. þakklátur fyrir það. Ég held að hún hafi einnig litið til þess að greiða á einhvern hátt úr Hólsfjallaáætlun, og vonast ég til að það komi til framkvæmda á þessu ári. Um frekari fjárveitingar var ekki að ræða að þessu sinni og hef ég því ekki meira um málið að segja.