24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (1470)

331. mál, landshafnir

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Mér komu ekki á óvart ummæli hans um að þessi mál hefðu lengi verið í ítarlegri athugun. Mér var í rauninni kunnugt um það, en vildi með fsp. minni heldur herða á því, að þarna yrði tekin lokaákvörðun og þá í þá veru sem fsp, gefur tilefni til að verði gerð, þ.e.a.s. að þessi lög, sérlög um landshafnir, verði afnumin. Ég vil enn einu sinni leggja áherslu á það, að ég mælist undan því að ég sé með þessum aths. mínum að gera mig seka um einhverja öfund eða ríg í garð þeirra byggðarlaga sem þarna eiga í hlut. Eins og ég sagði áðan, veit ég að þarna var þörfin sérstaklega mikil og allar aðstæður þannig að sérstaks átaks var þörf. En maður hefur oft spurt sjálfan sig að því, hvort þetta landshafnafyrirkomulag gæti ekki það sem við á slæmu máli köllum „róterað“, að það yrðu teknar fyrir ákveðnar hafnir, sem erfiðast eiga, og ríkið gerði þar sérstakt átak, álíka og gert hefur verið í þessum þremur landshöfnum.

Nú eru náttúruskilyrði hafna ákaflega misjöfn, og mér sýnist að furðulitið tillit hafi verið tekið til þess í fjárveitingum til almennu hafnanna. Það er sagt, að því er mér sýnist, í skýrslu Gylfa Ísakssonar um fjárhag og gjaldskrá hafna, sem var lögð fram á síðasta fundi Hafnasambands sveitarfélaga, að hagur almennra íslenskra hafna færi heldur batnandi, og er það vissulega gleðiefni. Þó staðhæfir hann að um aðeins 10 almennar hafnir af um 60 höfnum hafi nokkurn greiðsluafgang sem geti gengið til viðhalds og endurbóta á mannvirkjum. Hinar eru allar annaðhvort nokkurn veginn sléttar eða með skuldabagga á herðunum sem hafa verið viðkomandi sveitarfélögum ákaflega þungbærir.

Tölur þær, sem hæstv. ráðh. gaf upp í svari við 2. og 3. lið fsp. minnar, koma ekki heldur á óvart. Ég hafði svona upp á eindæmi reynt að afla mér nokkurra upplýsinga um það, og kemur það heim og saman að sjálfsögðu við það sem hæstv. ráðh. segir um landshafnirnar. Þó er sú tala, sem ég fékk frá Hafnamálastofnun, heldur lægri. Ég hef þar 2138 millj., en ráðh. talaði um 2300 millj. til landshafna frá upphafi. En sú tala, sem mér var gefin upp um framlag til almennu hafnanna, 50–60 talsins, á móti 3 höfnum, er hins vegar 4 milljarðar 24 millj., þ.e.a.s. framlög á þessu ákveðna tímabili til þriggja landshafna eru meira en helmingur af framlögum til allra hinna hafnanna samanlagt. Þetta er óneitanlega dálítið kyndug útkoma, þó að ég viti að ef við förum í landshafnirnar þrjár og sjáum þær, þá þarf engan að undra þó að mikið fé hafi farið til þeirra, því þetta eru vegleg mannvirki.

Ég kemst ekki hjá því að nefna í þessu sambandi Þorlákshöfn, sem ég var svo heppin að fá að vera við vígslu á fyrir tveim árum. Þar var, þegar vígslan fór fram, ofboðlítið skarð í varnargarð sem var áætlað að mundi kosta um 100—150 millj., að mig minnir, Ég bið afsökunar ef ég man töluna rangt, og varnargarðurinn bak við hafnargarðinn kom á næsta ári. Vestur á Bolungarvík er brimbrjótur við eina erfiðustu höfn landsins. Norðvestanstormarnir ég brimin þar gefa örugglega ekki eftir brimunum í Þorlákshöfn. Sá hafnargarður er búinn að standa óvarinn frá upphafi, og Bolvíkingar segjast ekki einu sinni minnast á að það sé gert, því það er svo margt annað í höfninni sem þarf að sitja fyrir. En í norðvestanveðrum er mannhættulegt að vera á ferli á þessum hafnargarði og skip að sjálfsögðu, sem liggja þar við höfnina, eru í stórkostlegri hættu. En svona er nú þetta. Ég tek þetta dæmi ekki endilega af því að það er í mínu kjördæmi, heldur af því að ég veit að margar almennu fiskihafnirnar, sem skapa okkar aðalþjóðarverðmæti, eiga í vök að verjast vegna ófullkominna aðstæðna. Þess vegna er það, að maður bíður eftir því nokkuð langeygur, að fé á við það, sem veitt hefur verið til landshafnanna í svo stórum stíl, renni í framtíðinni í meira mæli til almennra hafnargerða úti um landið.