24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

332. mál, Ferðamálasjóður

Fyrirspyrjandi (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Á s.l. ári bar ég fram á þskj. 107 er svo hljóðar:

„Hvaða ráðstafanir hyggjast stjórnvöld gera til að rétta við fjárhag Ferðamálasjóðs?“ Ferðamálasjóður var stofnaður með lögum um ferðamál frá 1964. Hlutverk hans var og er að stuðla að byggingu gisti- og veitingahúsa í landinu og bæta þannig skilyrði til að veita innlendu og erlendu ferðafólki sem bestar móttökur og aðbúð. Nú eru ákvæði um Ferðamálasjóð í V. kafla laga nr. 64 frá 1976. Segir þar að Ferðamálasjóður sé stofnlánasjóður þeirra starfsgreina sem ferðaþjónusta einkum byggist á. Sjóðnum ber að stuðla að þróun íslenskra ferðamála með lánveitingum. Framlag ríkissjóðs til Ferðamálasjóðs var í fyrstu ákveðið eigi lægra en 1 millj. kr. á ári. Nú er það ákveðið eigi lægra en 44 millj. kr. Á s.l. ári mun það þó aðeins hafa numið 25 millj. samkv. bráðabirgðaákvæði í lögunum frá 1976. Auk þess eru lántökuheimildir í lögunum að fengnu samþykki ríkisstj.

Undanfarin ár hefur fjárhagur Ferðamálasjóðs verið mjög bágborinn. Hvort tveggja er, að ráðstöfunarfé sjóðsins hefur verið af mjög skornum skammti miðað við þörf og eftirspurn og hann hefur neyðst til að lána það viðskiptamönnum sínum með mjög óhagstæðum lánakjörum og fullri verðtryggingu. Hafa lántakendur því af þeim sökum lent í óbærilegum vanskilum við sjóðinn og málefni þeirra og hans því öll lent á hverfanda hveli. Brýn þörf er að greiða úr þessum vanda nú þegar ef sjóðurinn á að verða fær um að sinna hlutverki sínu sem eini stofnlánasjóður stöðugt vaxandi atvinnugreinar. Því er spurt: Hvaða ráðstafanir hyggjast stjórnvöld gera til að rétta við fjárhag Ferðamálasjóðs?“