24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

333. mál, starfsemi Hafrannsóknarstofnunar

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. er löngu ljóst, atvikaðist það svo, að á sama þskj. komu fram mjög hliðstæðar fsp, um þetta margumrædda skip, togveiðiskipið Baldur, kaup þess og kostnað við breytingar. Ég er hér með fsp. í fimm liðum sem ég ætla að lesa upp:

„a) Hvert var kaupverð togveiðiskipsins Baldurs EA-124?

b) Hvað hafa allar breytingar skipsins og viðhald kostað?

c) Hvað hefur skipið legið marga daga í höfn á þessu ári og hvar?

d) Hvað má reikna með að skipið kosti ríkissjóð á dag í höfn?

e) Hvernig er fyrirhugað að nota skipið á árinu 1978?“

Þessi fsp. kom fram fyrir nokkuð mörgum vikum og var þá reiknað með árinu 1977. Hæstv. ráðh. hefur nú svarað annarri fsp. sem snertir suma þætti þeirrar fsp. sem ég ber hér fram. En það hefur athygli fjöldamargra, að skipið er búið að liggja mjög lengi í höfn, og það kom fram núna hjá hæstv. ráðh., að loksins 1. des. var undirritaður samningur um breytingar, lagfæringar, viðbætur, nýsmíði, ýmsar tilfærslur á vindum og þar fram eftir götunum, fyrir 215 millj. kr. Þetta er svo unnið í skammdegi hér á Íslandi við hafnargerð þegar allra veðra er von í svartasta myrkrinu og við verstu skilyrði. Ég segi það alveg hiklaust, að ég tel þetta ekki æskileg vinnubrögð. Það má furða heita, svo langur aðdragandi sem var að þessari breytingu, að það skyldi ekki vera hægt að koma sér niður á fastar tölur og framkvæmd verksins fyrr. Ég tel ámælisvert að þetta hafi dregist svo. Það er ekki sagt til hæstv. ráðh., heldur til þeirra manna er gera þessar kröfur á hendur hæstv. ráðh. og Alþ. það er dálítið undarlegt, að það er búið að rífa allar vindur úr þessu skipi. Þegar við vitum að tvö systurskip þessa skip voru aflahæst á s.l. ári og hafa skilað frá upphafi ágætum afla, þá undrar mann að vindurnar í þessu skipi skuli ekki vera nothæfar eða litt nothæfar nema gerbreyta öllu. Ég er búinn að koma oft um borð í þetta skip og undrast allar þær breytingar, sem þar eru að eiga sér stað, og þær auknu kröfur fram yfir það sem yfirmenn á togurum og hásetar búa nú við, því að þarna á að hafa miklu betri aðbúnað að öllu leyti fyrir okkar vísindamenn. þeir sem sagt sætta sig engan veginn við sama aðbúnað og er á systurskipum í togaraflotanum. Það getur vel verið, að þetta sé nauðsyn, en þá á að gera Alþ. sómasamlega grein fyrir svona háum upphæðum.

Ég hringdi í hagsýslustofnunina og spurði hvað hún hefði lagt til í þessu máli. Ég held að ég brjóti engan trúnað með því að segja að hagsýslustjóri tjáði mér, að hann vissi ekki um þá upphæð, sem hér um væri að ræða, og hefði ekki fengið málið til sín. En hér er um á þriðja hundrað millj. kr. að ræða. Þetta kemur kannske í fjárlög fyrir árið — ja, ég veit ekki hvað 1979, það er varla hægt annað, eða fjáraukalög, og þá er það samþykkt 2–3 árum síðar.

Ég vona að þetta háttalag í ríkisstofnunum verði ekki neitt viðmiðunaratriði og fordæmi. Ég skil vel að hæstv. sjútvrh. á erfitt með að hafna þessum breytingum, þó að þær hafi tekið langan tíma, og ég geng út frá því, að hann hafi athugað þessi mál af kostgæfni og það hafi kannske ekki verið um annað að ræða. En tíminn er eins óheppilegur og ég tel eins undarlega að þessu staðið og verða má.