24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

333. mál, starfsemi Hafrannsóknarstofnunar

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Auðvitað kom það fram, sem mig grunaði, að þetta mál er viðamikið og hann hefur haft það nokkuð lengi í athugun og sent það viða til athugunar, en hér er um verulega stóra upphæð að ræða. Það er ákvörðun um á hundrað millj, kr. sem endanlegur reikningur mun sýna að þessar breytingar á skipinu kosta vegna aukinna krafna í sambandi við veiðarfæratilraunir.

Hæstv. ráðh. gat þess, að það ætti að fara í rannsóknaferðir á skipinu, m. a. í botnfiskaleit og veiðarfæraleit og toghleratilraunir og þess háttar. Ég verð nú að segja það alveg hreinskilnislega, að ég hélt að skipið hefði verið hæft í slíkt, miðað við árangur systurskipa þyrfti ekki hundruð millj. í breytingar í því efni. Ef vindurnar hafa verið gallaðar, þá má spyrja, þar sem skipið var sama og ekkert notað af eiganda og var sama sem nýtt þegar það var keypt: Af hverju var ekki ábyrgð á vindunum? Það kom ekki fram í svarinu. Var ekki ábyrgð á þessu, þar sem skipið var nýtt og sama sem ónotað þegar það var keypt, og voru þessir gallar með þeim hætti, að það þyrfti að rífa allt og gerbreyta skipinu fyrir stórfé? Allt þetta er með þeim hætti, að menn, sem koma um borð í skipið og sjá þetta svona sundurflakandi, eru undrandi, og þess vegna er nauðsynlegt að gera fyrir þessu góða grein, eins og hæstv. ráðh. hefur gert, svo að menn fái að vita hvað raunverulega hefur skeð og hvers vegna.

Það var varpað fram þeirri spurningum, hvort ekki væri æskilegra að fá nýtt skip. Ég verð að segja það, þegar ég heyri þetta allt saman, að ég er á þeirri skoðun, vegna þess að það er miklu hagkvæmara fyrir þessa stofnun að gera einstakar tilraunir á leiguskipi. Ég held að s.l. ár og hitt árið líka, 1976, hafi sýnt að það er mjög árangursríkt að hafa veiðiskipin í tilraunum með viðkomandi veiðarfæri og allan útbúnað, vegna þess að það eru þó veiðiskipin sem eiga að veiða fiskinn eftir vísbendingu þessara ágætu manna. Ef við þurfum á fjölhæfu skipi að halda með aðstöðu fyrir rannsóknastofur og margt, margt annað, þá er hæpið að kaupa svona skip og bæta svo nýrri brú við brúna. Það er stór kassi framan við aðalbrúna sem allir hv. þm. geta séð með því að aka suður í Hafnarfjörð þar sem skipið liggur. Ég hélt að það væri það mikið rými fyrir áhöfn í þessu skrípi, að það þyrfti ekki að vera að minnka neina klefa til að koma fleiri mönnum um borð. Ég hélt að í áhöfn á svona skipi væru mun færri menn þegar um rannsóknir væri að ræða, a.m.k. fastir hásetar, en svo kæmu vísindamenn til viðbótar. En þeir gera sennilega miklu meiri kröfur en íslenskir sjómenn, að það þurfi að vera miklu finna og rýmra um þá.

Ég vil ekki láta hjá líða að endurtaka, að ég undrast þessar breytingar. Ég endurtek það, að ég þakka hæstv. ráðh. og ég er ekki að ásaka hann á nokkurn hátt, síður en svo. Ég tel að hann hafi haldið á þessu máli eins og æskilegt var. En ég vil gagnrýna þessa stofnun fyrir þessa ákvörðun, því að skipið var keypt með löngum aðdraganda og það var nóg svigrúm til að gera sér grein fyrir þeim breytingum sem nú er verið að gera, en ekki framkvæma þær við verstu skilyrði sem hægt er varðandi íslenska veðráttu.