24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

333. mál, starfsemi Hafrannsóknarstofnunar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hluti þeirra umr., sem hér hafa farið fram í sambandi við vistarverur skipshafna og vísindamanna, minna nokkuð á þær fréttir sem sagðar voru frá samningum yfirmanna á kaupskipum fyrir nokkuð mörgum árum. Þá var því haldið fram, að þeir gerðust ekki aðeins svo ósvifnir að biðja um inn í sína samninga, að þeim væru færð tvö spæld egg á hverjum morgni, heldur hefðu þeir tvö herbergi og eldhús þar að auki og helst að allir gluggar væru á móti suðri allan ársins hring. Þessu var að sjálfsögðu mótmælt.

En ég vil aðeins undirstrika það, að eðlileg og sanngjörn hljóta þau mótmæli manna að vera, sem eiga vist um borð í slíku skipi allt árið, þegar á að fara að taka af þeim hinar betri íbúðir um borð í skipum til þess að láta þær í hendur þeirra manna sem koma þarna til tiltölulega stuttrar dvalar á hverju ári, kannske aðeins í nokkrar vikur, geta svo farið á hin betri skip, því að mér skilst að þessir vísindamenn séu ekki bundnir við neitt eitt skip sérstaklega, heldur fari á milli þeirra eftir því sem ráðlegt er talið. Þetta finnst mér afskaplega eðlilegt.

Ég fæ ekki séð að það hafi endilega þurft að gera breytingar á þessu skipi í það horf sem hér hefur verið lýst af hv. þm. Jóni Árm. Héðinssyni, því að þegar við stóðum að þeirri ákvörðun hér á þingi, sem það gerðum, — og það er rétt, að það var lagt fyrir fjvn. og Alþ. að kaupa skipið, en hins vegar ekki þær breytingar sem hér hefur verið lýst, — þá var m.a. í mínum huga það, að ég vissi um þörfina á að fá gott togveiðiskip sem gæti togað á mjög djúpu vatni, sem ég vissi að þetta skip mundi geta gert, eins og hér hefur verið bent á að systurskipin geta gert. En að það hafi endilega þurft að gera allar þær breytingar sem gerðar eru á þessu skipi, ég er ekki kominn til þess að samþykkja að svo hafi verið.

Það er rétt, sem hæstv, ráðh. sagði í sinni síðustu ræðu, að mörg af þeim leiguskipum, sem hafa verið tekin á leigu, hafa reynst ákaflega vel. Ég varpaði fram spurningu af eðlilegum ástæðum í sambandi við nýbyggingu skips, þeim eðlilegu ástæðum, að annað hinna stærri og nýrri rannsóknarskipa okkar er afskaplega vanhæft í sjó að leggja, vanhæft til rannsóknarstarfa þegar veður eru vond og válynd. En vegna þess að hv, þm., konur vorar, eru hér í þingsölum vil ég ekki hafa þau orð eftir sem fyrrv, skipstjóri þessa skips, sem ég vitna til, hafði um það og taldi alla tíð að það væri ekki aðeins hættulegt áhöfn, heldur jafnvel öðrum sem nærri kæmu.