24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

339. mál, könnun vegna fæðingarorlofs

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti, Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 132 fsp. til hæstv, heilbr: og trmrh., svo hljóðandi:

„Hvað líður framkvæmd þess ákvæðis til bráðabirgða, sem samþykkt var á s.l. vori um fæðingarorlof og var svo hljóðandi: Fyrir 1. jan. 1978 skal ríkisstj, kanna á hvern hátt megi veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í því skyni. Niðurstöður þessarar könnunar skal leggja fyrir Alþingi?“

Strax við fyrstu lagasetninguna um atvinnuleysistryggingar, þ.e.a.s. fæðingarorlofið, breytinguna við þau lög, kom það fram, að hér væri um hreina bráðabirgðalausn að ræða, og einmitt með þeim fyrirvara studdu ýmsir þingmenn þá lagasetningu. Á það var þá glögglega bent, að eðli fæðingarorlofs væri slíkt, að það hlyti að flokkast undir almannatryggingar, og í því sambandi bent á fordæmi annarra þjóða sem tekið hefðu upp fæðingarorlof. Öllum mun hafa verið ljóst að þetta fyrirkomulag gæti ekki gengið til frambúðar, alveg sér í lagi vegna þess að margar konur í landinu urðu og verða þar af leiðandi enn út undan. Þar voru bændakonur alveg sérstaklega tilnefndar, svo og þær konur sem ekki geta unnið úti, m.a. vegna fjölskyldustærðar og annarra félagslegra aðstæðna. Þá þegar var sett ákvæði til bráðabirgða um könnun á málinu í heild í þá átt, að það yrði leyst þannig að allar konur skyldu njóta fæðingarorlofs, og við breytingu þá, sem gerð var á lögunum á s.l. ári, var sett það ákvæði til bráðabirgða sem ég las upp áðan.

Ég bar þessa fsp, fram í desemberbyrjun, en ýmis atvik ollu því, að fsp. voru lítt á dagskrá fyrir áramót. Samkv. ákvæðinu átti þessi könnun að fara fram fyrir 1. jan. s.l. En með tilliti til þess sem segir í ákvæðinu um tímasetningu þeirrar athugunar og málsmeðferðar sem hér er um spurt, þá er enn meiri ástæða nú til að fá um það skýr svör, hvað hafi verið gert og hvað sé á döfinni, því að eftir því er beðið að vonum af þeim sem enn njóta ekki þessara réttinda og hafa ekki síður þörf fyrir fæðingarorlof eða vissar bætur vegna barnsburðar en þær konur margar sem þeirra njóta.

Ég skal ekki hér og nú í stuttum fyrirspurnatíma ræða þetta mál frekar, en aðeins víkja að því, að mjög víða er enn um vandræðatakmörk að ræða varðandi úthlutun þessara bóta. Nefndir, sem vinna að þessum málum á hverjum einstökum stað, standa enn í nokkrum vandræðum með þetta. Ég hef rætt við marga um, í jólahléum, og þeir lýsa þessu allir þannig og er ótvíræð skoðun þeirra allra, sem um þetta hafa fjallað og eru öllum málsatvikum kunnugir, að sem fyrst beri að breyta hér til og koma þessum bótum eða greiðslum inn í okkar almannatryggingakerfi, eins og ég tel að aðákvæði til bráðabirgða, sem hér er um spurt, hafi bent sterklega til.