24.01.1978
Sameinað þing: 39. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

73. mál, iðnaður á Vesturlandi

Flm. (Ingiberg J. Hannesson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni till. til þál. á þskj, 85 um þróun iðnaðar á Vesturlandi. Tillgr. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hraðað verði gerð áætlana um iðnþróun á Vesturlandi til þess að treysta atvinnugrundvöll í kjördæminu, einkum þar sem atvinnuástand er ekki öruggt og þar sem iðnaður gæti fyllt upp í og skapað öryggi í atvinnu við hlið hinna hefðbundnu atvinnugreina í sjávarútvegi og fiskvinnslu, landbúnaði, verslun og hinum ýmsu þjónustugreinum.“

Í grg. með till. segir svo m.a.:

Það er alkunna, að viða um byggðir landsins er brýn þörf á því, að unnið verði skipulega að gerð áætlana um atvinnuuppbyggingu og þróun iðnaðar til þess að treysta atvinnugrundvöll og þar með afkomuöryggi fólks, sem ekki getur komist að í hinum hefðbundnu atvinnugreinum né er þess umkomið sökum heilsufars, aldurs eða af öðrum ástæðum að taka þátt í helstu framleiðsluatvinnugreinum þjóðarinnar.

Unnið hefur verið að gerð áætlana um þessi efni af Framkvæmdastofnun ríkisins — og er vonandi að þar miði í rétta átt. En þörfin er hins vegar viða brýn og aðkallandi og erfitt mörgum byggðarlögum að bíða árum saman eftir samningu áætlana um verkefni, sem hrinda þyrfti í framkvæmd hið fyrsta ef vel ætti að vera. Víða standa menn frammi fyrir þeirri staðreynd, að ungar, vinnandi hendur verða að flýja byggðarlög sín og fara annað í atvinnuleit til þess að geta skapað sér framtíðarmöguleika við sæmilegt atvinnuöryggi. Þetta gildir auðvitað fyrst og fremst um þéttbýli, þar sem vinnuaflið er mest, en einnig og í sumum tilvikum ekki síður í hinum þéttbýlli sveitum, þar sem ungt fólk getur ekki komist að við landbúnaðarstörf, en vill þó vera um kyrrt í heimabyggð sinni og taka þar til höndum við atvinnuuppbyggingu í einhverri mynd.

Víða hefur þó sem betur fer verið lyft grettistökum í þessum efnum, þar sem sett hafa verið á stofn lítil iðnfyrirtæki, sem fyllt hafa upp í skörðin og skapað viðfangsefni og veitt þjónustu í ýmsum myndum. En betur má ef duga skal í þessum efnum. Tækifærin eru mörg og margháttuð, og margvísleg eru t.a.m. þau jarðefni sem fólgin eru í jörðu, sem verða mættu grundvöllur iðnaðar í einhverri mynd. Má í því sambandi nefna í Vesturlandskjördæmi vinnslu perlusteins í Borgarfirði og á Akranesi svo og hugsanlegan iðnað byggðan á vinnslu leirs, sem mikið er til af í Dalasýslu, og svo mætti lengi áfram telja.

Hinir fjölmennari staðir kjördæmisins hafa á liðnum árum tekið stakkaskiptum og lagt mikið af mörkum til byggðaþróunar og uppbyggingar í atvinnulegu tilliti.

Sjávarplássin leggja eðlilega mesta áherslu á vinnslu sjávarafurða, þar sem aðallega er þó um að ræða frumvinnslu, en nýting og fullvinnsla þeirra afurða á enn langt í land með að vera svo sem æskilegt er og nauðsynlegt til þess að þjóna sem best í atvinnulegu og markaðslegu tilliti. Þar er að ýmsu unnið, en þó meira ógert.

Þar sem sjávarafla nýtur ekki við, er aðallega byggt á margvíslegri þjónustu við landbúnaðinn og vinnslu á þeim afurðum, sem hann gefur af sér, en þar er einnig margt óunnið, sem huga þarf að.

Á sumum þessara staða hefur svo ýmis annar iðnaður risið samhliða vinnslu aðalatvinnugreinanna, og þarf að auka þá möguleika svo sem kostur er. Hinir fámennari staðir ásamt sveitunum eru svo víðast hvar í mikilli þörf fyrir aðstöðu til uppbyggingar í þessu tilliti. Þannig þróast þessi mál smám saman samhliða útþenslu byggðarinnar og fjölgun þess fólks, sem út á vinnumarkaðinn kemur.

Þess vegna er nauðsynlegt, að opinberir aðilar geri ákveðnar till. í þessu sambandi, sem séu í samræmi við þá afkomumöguleika sem viðkomandi atvinnugreinar fælu í sér. Þess vegna er þessi þáltill. flutt — til að freista þess að ýta á þessi mál og fá fram áætlanir og hugmyndir manna, sem einbeita sér að slíkri áætlanagerð, og til að forðast mistök, sem oft eiga sér stað í þessum efnum þegar unnið er oft á tíðum meira af kappi en forsjá og oft óskipulega og fyrirtækin ekki byggð á nægilega traustum grunni frá byrjun. Hér gildir oft að fara gætilega af stað og forðast að taka stökk í stað skrefa, en undirbúa málin vel áður en hrundið er úr vör.

Íslenskt þjóðfélag er í stöðugri og hraðri mótun og hefur tekið stakkaskiptum á skömmum tíma frá tiltölulega frumstæðu bændaþjóðfélagi til iðnvædds nútímaþjóðfélags, sem byggir á vaxandi tækniþekkingu og hagræðingu á ýmsum sviðum. Því er nauðsynlegt að samfara hagnýtingu náttúruauðlinda þjóðarinnar fari skynsamleg áætlanagerð um nýtingu þeirra og uppbyggingu, sem verða mun þjóðinni til sem mestra hagsbóta þegar tímar líða.

Það, sem hér er um að ræða og till. gerir einkum ráð fyrir, er efling íslensks iðnaðar, að stuðla að því, svo sem kostur er, að auka möguleika í úrvinnslugreinum undirstöðuatvinnuveganna og skapa skilyrði til þess að hagkvæmt sé að fullvinna ýmsar sjávar- og landbúnaðarafurðir hér heima í stað þess að flytja úr landi hálfunna vöru. Hér eru margvíslegir ónotaðir möguleikar sem kanna þarf, og leiðirnar eru vafalaust margar, sem fara mætti í þessum efnum. Frumkvæði heimamanna á hverjum stað verður að sjálfsögðu að vera ríkur þáttur í slíkum iðnaði, en áætlanagerð, markaðskannanir, hagkvæmniathuganir og tækniþekkingu verður að sækja til þeirra aðila sem betur kunna.

Það er ljóst, að frumvinnsla í landbúnaði og sjávarútvegi er grundvöllur atvinnulífs á Vesturlandi, og hefur hlutdeild úrvinnslu aukist verulega síðustu áratugi svo sem víða annars staðar. En betur má ef duga skal, og það er ljóst, að treysta þarf mjög undirstöður fiskveiða og fiskiðnaðar frá því sem nú er og auka þarf til muna rannsóknir til nýtingar á hinum ýmsu möguleikum í fiskverkun og fiskiðnaði. Hið sama gildir um landbúnaðinn. Þar eru ótal möguleikar, sem þarf að kanna og nýta svo sem kostur er. En til þess að eðlilega sé að málum staðið og skynsamlega þarf til að koma áætlanagerð og í mörgum tilvíkum tilraunavinnsla, áður en út í stórfyrirtæki er ráðist, þar sem oft á tíðum er um mikið fjármagn að ræða og því eðlilegt að lánastofnanir krefjist nauðsynlegra undirbúningsathugana og að fyrir liggi áætlanir um hagkvæmnisjónarmið og jafnvel tilraunastarfsemi áður en af stað er farið. Því er nauðsynlegt að koma á fót samstarfsnefndum úr viðkomandi byggðarlögum eða sýslum til þess að vera í nánu sambandi við þá aðila á vegum iðnrn. og hjá Framkvæmdastofnun, sem vinna að áætlanagerð um iðnþróun úti um landið. Áætlanir eru því aðeins gagnlegar og nauðsynlegar að þær séu unnar í samvinnu við heimaaðila og séu byggðar á nægilega traustri þekkingu á aðstæðum og ytri möguleikum.

Ein er sú hugmynd um smáiðnað úti um landsbyggðina, að byggðir verði svonefndir iðngarðar víða um land, húsnæði þar sem ýmis smáiðnfyrirtæki gætu fengið inni fyrir starfsemi sína. Virðist þetta geta verið góð lausn víða um land, þar sem um smáiðnfyrirtæki er að ræða sem erfitt eiga með að fjárfesta í byrjun í dýrum byggingum og getur þetta fyrirkomulag áreiðanlega auðveldað að koma af stað iðnrekstri þar sem að öðru leyti væri erfitt um vik. Þess vegna tel ég að þetta gæti auðveldað iðnþróun úti á landsbyggðinni og skapað mikið atvinnuöryggi og því beri að hraða framkvæmdum í þessu sambandi og stuðla að slíkri uppbyggingu.

Ýmsar áætlanir eru í smíðum hjá byggðadeild Framkvæmdastofnunar um uppbyggingu landbúnaðar á vissum svæðum á Vesturlandi, einkum á sunnanverðu Snæfellsnesi, Mýrum og í Dölum. Þó að þessar áætlanir séu ekki samfara iðnþróun í venjulegum skilningi, eru þær þó gerðar til þess að efla byggð þar sem hún á erfiðast uppdráttar. Er það nauðsynlegt í tengslum við þá heildarstefnu í landbúnaðarmálum sem vera þarf, til þess að sá atvinnuvegur verði sem arðbærastur og þjóðinni hagkvæmastur.

Ég nefndi áður tvenns konar jarðefni, sem nota mætti til aukins iðnaðar í kjördæminu, þ.e. perlusteinn og leir. Undirbúningur undir vinnslu perlusteins er þegar hafinn, og stofnuð hafa verið hlutfélög til þeirrar vinnslu: fyrirtækin Perla hf. á Akranesi og Prestahnúkur hf. í Borgarfirði, og að þeim standa mörg sveitarfélög m.a. Milli fyrirtækjanna hefur tekist ágætt samstarf með gagnkvæmri eignaraðild. Félagið á Akranesi, sem er lengra á veg komið, hyggst taka á leigu þensluofn, sem er í eigu Iðnþróunarstofnunar og er í Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi. Vinnsla á vegum félagsins verður fyrst og fremst fólgin í þenslu perlusteins og tilraunum með ýmsa framleiðslu úr þöndum perlusteini. Má þar nefna notkun perlusteins í einangrunarefni og blöndun hans í efni til múrhúðunar. Meðal verkefna félagsins er að láta fara fram markaðskannanir og athuganir á vöruþróun, en mikil samvinna er við Iðnþróunarstofnun í þessu sambandi. Þannig er þessi starfsemi af stað farin, og er vonandi að þessi perlusteinsiðnaður eigi eftir að verða lyftistöng iðnaði og atvinnulíf í Borgarfjarðarbyggðum.

Hitt jarðefnið, sem ég vildi gera lítillega að umræðuefni í þessu sambandi, er leirinn. Við athuganir á nýtingu náttúruauðæfa landsins hefur iðulega verið staldrað við miklar leirnámur, sem finnast víða. Hefur notagildi slíks leirs verið kannað bæði innanlands og utan, einkum til leirmunagerðar og einnig til framleiðslu á hlutum til byggingariðnaðar, svo sem múrsteinum, veggflísum, þakhellum og leirrörum. Á vegum Rannsóknaráðs ríkisins, þar sem hæði hefur verið fjallað um þetta mál allar götur frá árinu 1957 til þessa dags og álits sérfróðra manna leitað, var á árinu 1975 gerð ítarleg rannsókn í Svíþjóð á sýnishornum af íslenskum leir með tilliti til framleiðslu á leirvörum, og reyndist sú rannsókn mjög jákvæð. Sýnishornin voru öll tekin nálægt Búðardal, á nokkrum stöðum, og voru 24 send til rannsóknarinnar. Leirinn í Búðardal er setleir frá nútíma og er mest rannsakaður allra leirsvæða á landinu. Samkvæmt tilraunum, sem gerðar hafa verið, er styrkleiki Búðardalsleirsins eftir brennslu tiltölulega góður og virðist lítið vera háður brennsluhitastiginu. Rannsóknir benda til þess, að með íblöndun viðeigandi leirsteintegunda megi framleiða margar tegundir grófkenndra leirmuna, eins og t.d. leirrör til byggingariðnaðar, en að hann sé síður fallinn til framleiðslu á listmunum.

Rannsóknir á leir frá Búðardal hafa nú staðið yfir æðilengi, eða í rúm 20 ár, því að árið 1957 var samþ, þáltill. um undirbúning leirverksmiðju hér á landi. Síðan hefur málið verið í athugun og frekari rannsóknir hafa verið gerðar. Svo er það árið 1970, að iðnrn. sendir Rannsóknastofnun iðnaðarins bréf, þar sem lagt var fyrir hana að annast rannsóknir þær, sem nefnd þál. gerir grein fyrir, í samvinnu við jarðkönnunardeild Orkustofnunar. Tvær skýrslur voru samdar að þessum rannsóknum loknum. Í okt. 1973 leitaði Rannsóknarstofnun iðnaðarins til Rannsóknaráðs ríkisins um fjármagn til að halda rannsóknum áfram á notagildi íslensks leirs. Framkvæmdastofnun fól Reyni Hugasyni verkfræðingi hjá Rannsóknaráði að athuga málið og gefa um það álit, og þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þrjú atriði skera úr um það, hvort vinna eigi leir á Íslandi:

1. Hvort til sé nýtanlegt hráefni.

2. Hvort hægt sé að gera úr þessu hráefni samkeppnishæfa vöru, t.d. steinapípur, flísar og rör.

3. Hvort markaðurinn á Íslandi er nægilega stór til þess bera uppi verksmiðju af hagkvæmri stærð.“

Í álitinu segir, að sennilega væri hagkvæmast að slík verksmiðja yrði sem fjölhæfust, þ.e. gæti framleitt fleira en leirsteina, vegna þess hve markaðurinn er takmarkaður. Sá leir, sem fyrir hendi er, kemur aðeins til greina til grófari iðnaðarframleiðslu eða á byggingarvörum, sem notaðar eru innanlands. Í fyrrnefndu áliti segir enn fremur, að aukin og ný notkun leiriðnaðarvarnings væri nauðsynleg til þess að bera uppi framleiðslu leirverksmiðju, og virðist þar helst koma til greina notkun leirsteina í byggingu húsa og einnig til að einangra utan á steinsteypu, einnig framleiðsla á leirrörum í stað steinsteypuröra, þar sem leirrörin eru sýruföst, en steypurör þola sýru hins vegar illa. Þá mætti einnig athuga nánar markað fyrir þakhellur, flísar og ýmsar aðrar leirvörur.

Í framhaldi af þessu er ekki óeðlilegt að spurt sé: Er ekki fullkomin ástæða til eftir 20 ára athuganir og rannsóknir að hefjast nú handa og hefja tilraunavinnslu í leiriðnaði þá væntanlega í smáum stíl til að byrja með, meðan reynsla er fengin á hagkvæmni slíkrar verksmiðju, en síðan í auknum mæli, ef vel reynist, því hráefni er nægt fyrir hendi.

Ég vænti þess, að hæstv. iðnrh., sem því miður er nú ekki hér viðstaddur, taki þetta mál til alvarlegrar athugunar í rn. sínu, þannig að mörg ár liði ekki úr þessu án þess að nokkuð sé að gert. Þetta er brýnt hagsmunamál kjördæmisins og þá ekki síst Dalamanna — og væntanlega allrar þjóðarinnar ef vel tekst til. En nægilegar rannsóknir og athuganir ættu þegar að liggja fyrir í þessu sambandi til þess að hægt sé að hefjast handa á raunhæfan hátt.

Ég læt nægja í þessari framsögu að nefna þessa þætti hugsanlegs iðnaðar í kjördæminu, en margt fleira kæmi til, bæði í vinnslu jarðefna og í fullvinnsluiðnaði landbúnaðar og sjávarútvegs, þar sem eru margvíslegir möguleikar sem huga þarf að og nýta til þess að auka atvinnumöguleika og iðnþróun í þessum landshluta.

Aukin nýting þeirrar orku, sem við eigum í iðrum jarðar, getur og verið þýðingarmikill þáttur í iðnaðaruppbyggingunni. Nú eru t.d. fyrirhugaðar miklar hitaveituframkvæmdir á Akranesi og í Borgarfirði, og mætti hugsa sér að þar fengist, þegar tímar líða, tiltölulega ódýr orka til iðnaðarframleiðslu. Alla slíka möguleika þarf að hafa í huga þegar áætlanir eru gerðar um þróun iðnaðar á hinum ýmsu stöðum á landinu.

Ef við ætlum að tryggja uppvaxandi þegnum þjóðfélagsins nægileg viðfangsefni og nauðsynleg skilyrði fyrir vaxandi búsetu úti um hinar dreifðu byggðir landsins, þá verður að vinna markvisst að því að leita þeirra möguleika í atvinnuþróun og uppbyggingu iðnaðar sem nokkur völ er á. Heilbrigt og vaxandi atvinnulíf er hornsteinn blómlegs þjóðfélags þar sem byggt er á ísl. náttúruauðæfum og treyst á íslenskar hendur til að fleyta þjóðinni áfram til betri þroska og aukinnar velmegunar.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. atvmn.