26.01.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

108. mál, rekstrar- og afurðalán til bænda

Páll Pétursson:

Herra forseti. Hér er til umr. till. endurflutt frá síðasta þingi. Þá urðu um hana talsverðar umr. og ég hafði raunar ekki hugsað mér að taka til máls um þessa till. núna, gerði ráð fyrir, að sleppa því. En þó eru þrátt fyrir ágæta ræðu hv. síðasta ræðumanns örfá atriði sem mig langar til þess að gera ofurlítið nánar að umtalsefni.

Tillgr. sjálf er kannske ekki nákvæmlega orðuð miðað við það sem hv. flm. á við. Hann hefur hana óþarflega stutta, þessa tillgr. En mér fannst koma skýrt fram í framsögu hv. 1. flm., að hann ætlast ekki til að þetta sé greitt hverjum einasta bónda, hefur einungis þeim bændum sem þess óska. Mér hefði þótt heppilegra að geta þess í tillgr. til að forðast allan misskilning úr því þetta er skoðun flm.

Ég vil taka það fram, að ég tel að þarna sé hreyft mjög þýðingarmiklu máli, Umr. um rekstrar- og afurðalán eru gagnlegar, og afgreiðsla á þeim málum, á hvern hátt hún verður, skiptir bændur mjög miklu máli. Ég er hv. þm. þakklátur fyrir að brjóta hér upp á þessu máli þing eftir þing, þannig að menn geta velt þessum málum fyrir sér, þó að ég sé honum ekki að öllu leyti sammála um aðferðina.

Bændur hafa háð langa og harða baráttu til þess að reyna að fá þessi rekstrar- og afurðalán hækkuð, ekki einungis bændur, heldur og starfsmenn bænda. Þeir ráðh., sem farið hafa með landbúnaðarmál á hverjum tíma, hafa gert sitt besta. En margs þarf búið við, og það er sannast sagna að þessi upphæð er enn þá mjög óviðunandi þrátt fyrir það að verulegar leiðréttingar hafi verið gerðar hvað eftir annað.

Landbúnaður er hæggengur atvinnuvegur, ef svo mætti segja, þ.e.a.s. fjármagnsveltan er hæg. Áburðurinn þarf að komast á jörðina á réttum tíma, síðan þarf grasið að spretta, það þarf að afla heyjanna og þá er hægt að fóðra búpeninginn á þeim. Síðan fæðast lömbin, svo vaxa þau og verða söluvara. En ekki nóg með það, sagan er ekki búin. Bændur eða framleiðendur verða svo að bíða tímunum saman eftir því að fá þessa söluvöru greidda. Og þarna er náttúrlega rótin að því, hvers vegna bændur hafa lagt svo mikla áherslu á að fá þessi lán hækkuð, þannig að þeir gætu fengið fyrr greiðslur fyrir vinnu sína.

Verðlagsgrundvöllur landbúnaðarins er byggður upp, eins og menn vita, á vísitölubúi. Síðasti verðlagsgrundvöllur var úrskurðaður með frægum yfirnefndardómi nú fyrir hálfum öðrum mánuði eða svo. Þar segir frá því, að laun bóndans eigi að vera ákveðin upphæð, og launaliður í verðlagsgrundvellinum er rétt rúmlega helmingur af þeim kostnaði sem búið á að bera. Ef bóndinn fær ekki greitt nema kannske 70– 75% af þessu innleggi sínu þegar hann leggur inn — ég tala nú ekki um ef það fer enn neðar — þá hlýtur það að leiða til þess, að hann fær ekki greiddan helminginn af kaupi sinu. Helminginn af kaupi sínu lánar bóndinn þjóðfélaginu þar með þangað til lokauppgjör við hann fer fram, vegna þess að hann getur að sjálfsögðu ekki frestað því að greiða áburð, hann getur ekki frestað því að greiða fóðurbæti og annan rekstrarkostnað búsins, og hann getur ekki frestað því að greiða hjúum sinum. Þetta allt saman verður til þess, að málið er mjög brýnt. Það hefur verið krafa bænda og mjög eindregin ósk, að þeir gætu fengið útborgað allt að 90% við innlegg sauðfjárafurða. En þetta er nokkuð misjafnt hjá hinum einstöku kaupfélögum og einstöku sölufyrirtækjum. Sum fara nokkru nærri því að ná þessu, þar sem best gengur, svo sem í Borgarnesi, en því miður er ekki sömu sögu að segja alls staðar og þarna er talsverður munur á.

Hv. flm. drap á merkilegt atriði í ræðu sinni. Hann talaði um að gæta yrði sparnaðar í rekstri fyrirtækjanna. Bændur þurfa líka að gæta mikillar hagsýni og sparnaðar í rekstri fyrirtækja sinna heima fyrir. Ég er alveg sammála hv. alþm. Inga Tryggvasyni um það, að sölufyrirtækin eru að sjálfsögðu eign bænda og sum þeirra eru meira að segja eign bænda einna, eins og það sölufélag sem ég er í, þar sem einungis bændur eru félagar í því. Þar með eiga bændur einungis við sjálfa sig að sakast ef eitthvað fer úrskeiðis. Stjórnin er skipuð bændum — framkvæmdastjóri á reyndar sæti í stjórninni — og hún ræður starfsmenn og getur fylgst með öllum þessum rekstri eftir því sem stjórnarmenn kæra sig um.

Hv. flm. benti á það, að rekstrarkostnaður í mjólkurbúum hefur ekki verið, að því er hann telur, tiltölulega jafnhár og í sláturhúsunum. Sláturhúsin eru með fleiri en einum hætti, og það er alveg rétt hjá honum, að sum þeirra hafa átt við það að stríða að sláturkostnaður hefur verið þar geysimikill. En þetta eru okkar fullkomnustu sláturhús og beinlínis byggð með það fyrir augum að við getum flutt út kjöt og þá sérstaklega á Ameríkumarkað. Til þess að mega flytja landbúnaðarvörur út til margra landa er það beint skilyrði að hægt sé að rekja saman í sláturhúsinu hina ýmsu líkamsparta kindarinnar. Ef í ljós kemur sjúkleiki í innyflum þarf að vera hægt að finna skrokkinn. Þetta gera kaupendur sums staðar í heiminum að algjörri kröfu þess að vilja kaupa, því þeir vilja vera vissir um að fá heilbrigða og vef með farna vöru. Þetta kostar auðvitað sitt. Þetta kostar geysimikið fé, og eins og hv. þm. Ingi Tryggvason rökstuddi rækilega áðan er erfitt að fá nægilega margt og þjálfað starfsfólk á þessa vinnustaði, þar sem starfað er stuttan tíma ársins. Mjólkurbúin eru nokkuð annars eðlis. Þau starfa að sjálfsögðu allt árið, eins og hv. þm. gat um. En svo háttar til hjá okkur, að flest mjólkurbúin eru líka léttari í afskriftum, eins og stendur, heldur en sláturhúsin, vegna þess að tæknivæðing mjólkurbúa var nokkuð á undan nýbyggingu sláturhúsa. Hins vegar erum við nú að súpa seyðið af því, að við höfum ekki aðstæður í mjólkurbúum okkar til þess að framleiða þær ostategundir, sem líklegastar eru sem útflutningsvara, í nægilega miklum mæli, vegna þess að mjólkurbúin eru ekki tæknilega undir það búin. Ég tel alveg víst, að t.d. í mjólkurbúinu á Akureyri, þar sem nú er að rísa mjög fullkomið og dýrt mjólkurbú, að mér skilst, og m.a. byggt með það fyrir augum að þar sé hægt að framleiða þá vöru sem hagkvæmast er að flytja út, þar verði mikill rekstrarkostnaður. Það gefur auga leið að það verður mjög þungt í afskriftum og fjármagnskostnaður þar mikill. Auk þess hafa mjólkurframleiðendur verið svo gæfusamir að geta starfað í stærri einingum heldur en sláturhúsamenn, vegna þess að það hefur ekki verið mikil tilhneiging að setja upp smámjólkurbú, það hefur ekki verið mikil frelsisbarátta hjá mjólkurbændum. Þeir hafa séð sér hag í því að standa saman og fá einingarnar stærri og hagkvæmari í rekstri.

Hvað varðar framkvæmd þessarar till., þá get ég ekki, þrátt fyrir fullyrðingar hv. flm., annað en átt von á því, að nokkrir annmarkar séu á framkvæmd till. Ég trúi ekki öðru en að það sé meira verk að færa þetta til hinna einstöku bænda heldur en eins og nú er, þar sem þetta er í stærri einingum, og sleppi ég þá alveg spursmálinu um veðið, enda hafa því verið gerð skil í umr. áður. Það er augljóslega meiri skriffinnska við þetta, mjög aukin skriffinnska.

Hvað á þá að gera við hina smæstu framleiðendur? Þeir eiga væntanlega að fá sama rétt og væru kannske vísir til þess að nota hann.

Ég held að það sé farsælast fyrir okkur bændur að reyna að vera allir á sama báti og hjálpa hver öðrum. Ég hef verið mikill áhugamaður um lausaskuldabreytingu hjá bændum, þ.e.a.s. þeim bændum sem verst eru settir, til þess að létta undir með þeim. Og ég sé ástæðu til þess enn og aftur að ítreka að ég held að það sé ein mikilvægasta ráðstöfun fyrir bændastéttina í heild sem unnt væri að gera, þrátt fyrir að þetta kæmi ekki nema fáum bændum til góða.

En þá er að víkja að því sem hv. þm. Ingi Tryggvason sagði áðan, þar sem hann orðaði það að útflutningsbætur væru styrkur við landbúnaðinn. Ég er á gjörsamlega öndverðri skoðun við flokksbróður minn um það efni. Ég lít alls ekki svo á, að útflutningsbætur séu styrkur við landbúnaðinn. Útflutningsbæturnar eru beinlínis afleiðing af núverandi framleiðsluráðslögum sem raunar væri efni í langa ræðu. Hv. fyrrv. landbrh., Ingólfur Jónsson, gekkst fyrir því á sínum tíma, að bændum yrðu tryggðar útflutningsbætur á allt að 10% framleiðslunnar, gegn því að breyta því fyrirkomulagi sem áður hafði verið staðfest fyrir dómi, að hallanum af útflutningsverslun var jafnað niður á verði innanlands. Þetta er fjármálaráðstöfun sem er ekki að mínum dómi sérstaklega bændum til góða. Ef bændur hefðu heimild til þess að jafna þessu niður á verðið innanlands, eins og áður var, þá er það að vísu verri aðferð og óheppilegri, og að vísu mundi það hugsanlega draga úr sölu og vafalaust draga úr sölumagni. En þetta kemur öllum til góða. Það kemur öllum þeim, sem neyta landbúnaðarafurða, til góða, að þessi háttur sé hafður á.

Jafnframt er rétt að minna á það, að ríkisstj. gerði mikla lagfæringu núna fyrir jólin — og hún á þakkir skildar fyrir það — á afgreiðslu þessa útflutningsbótamáls, þar sem lagfært var útborgunarkerfi útflutningsbóta.

Það er ekki heldur lítið atriði og kemur raunar nokkuð í sama stað niður, að rekstrarlán og afurðalán berist rétt og reiðulega. Það er ákaflega mikilvægt, að ekki sé setið á þeim tímunum saman hér í bankanum, heldur berist þau til fyrirtækjanna þegar varan fellur til. Það er sem sagt bóndanum geysilega mikilvægt, að útborgunarverðið berist sem allra fyrst, og verður ekki ofsögum af því sagt. Það er skylda afurðasölufélaganna að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að stuðla að því fyrir sitt leyti. Hitt er náttúrlega hugsanleg nauðvörn, ef einhver afurðasölufélög taka upp þann hátt að standa ekki við að greiða bændum á eðlilegum tímamótum, nota t.d. fjármagnið til einhvers annars og mismunur yrði geysimikill á útborgunartíma eða útborgunarverði, að þá kynni að verða nauðsyn að taka upp eitthvað svipað fyrirkomulag og hv. fim. leggur hér til. En ég legg á það áherslu, að ég hygg að það sé ekki tímabært eins og stendur.