26.01.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

108. mál, rekstrar- og afurðalán til bænda

Flm. (Eyjólfur H. Jónsson):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs fyrst og fremst til þess að þakka öllum hv. þm., sem til máls hafa tekið, fyrir góðar undirtektir og skemmtilegan og heiðarlegan málflutning. Ég vil aðeins víkja örfáum orðum að máli hvers einstaks þeirra, án þess að það sé margt sem ég hafi út á það að setja sem þeir sögðu.

Hv. þm. Ingi Tryggvason kvað það æðioft koma fyrir, að afurðasölufyrirtæki lánuðu bændum fyrir fram og greiddu jafnvel féð út til þeirra, bæði rekstrar- og afurðalán, löngu áður en viðkomandi fyrirtæki fengju það sem greiðslur frá bankakerfinu. Vef má vera að dæmi megi finna til þessa. En það breytir auðvitað engu um það, að það eru þá ekki afurðasölufyrirtæki sem eingöngu stunda afurðasölu, heldur fyrirtæki sem samhliða eru verslunarfyrirtæki. Við vitum auðvitað að ýmis kaupfélög og önnur verslunarfyrirtæki úti um land lána bændum oft og tíðum. Það sama gerist auðvitað í þéttbýli líka. T.d. lána byggingarvöruverslanir húsbyggjendum tíðum og fá þá kannske ávísað lánum frá húsnæðismálastjórn o.s.frv. En þegar um hrein afurðasölufyrirtæki er að ræða, þá get ég ekki ímyndað mér að þau hafi eigið fé aflögu í stórum stíl til þess að greiða út verð afurða áður en þau fá afurðalánin. Ég held að það hljóti að byggjast á einhverjum misskilningi.

Hv. þm. hélt því fram, að bændur stjórnuðu afurðasölufyrirtækjum í aðalatriðum, held ég að hann hafi sagt orðrétt. Þetta er auðvitað rétt að því er varðar fyrirtækin úti um land. Hins vegar held ég að það sé hæpið að halda því fram, að bændur stjórni t.d. búvörudeild Sambands ísl. samvinnufélaga. En ég skal ekki fara neitt lengra út í þá sálma. Bændur hafa sjálfir óskað eftir að fá meiri áhrif á stjórn þess fyrirtækis. Vonandi verður gerð þar á einhver skipulagsbreyting, þannig að þeir fái þar meiri áhrif. En að þeir stjórni því fyrirtæki í aðalatriðum er auðvitað ekki rétt.

Hv. þm. gat þess líka, að nokkuð erfitt gæti verið um allan samanburð í þessu efni. Það er út af fyrir sig rétt, Menn fá ekki að vita nákvæmlega t.d. hvenær afurðalán koma inn til afurðasölufyrirtækja og hvenær þau síðan eru greidd aftur út. Ég held að hvorki bændur né aðrir í þessu landi viti um það fjárstreymi, þannig að fyllilega sé hægt að gera öruggan samanburð í því efni.

Ég fagna því sérstaklega, að hv. 6. þm. Norðurl. e. skyldi geta þess, að ekki væri endilega rétt að hafa sama fyrirkomulag varðandi greiðslu útflutningsbóta og verið hefði og það mætti mjög gjarnan athuga að breyta þar til. Þetta sýnir að hann er opinn fyrir nýjum hugmyndum. Hann taldi einmitt að það kæmi til greina að borga þetta fé beint til bænda, á sama hátt og ég tel að einnig eigi að fara með niðurgreiðslurnar. Það er mjög einfalt að greiða niðurgreiðslurnar beint til bændanna, ákveðna upphæð fyrir innlagðan mjólkurlítra eða innlagt kíló af kjöti, féð þurfi ekki að ganga í gegnum neina aðra aðila. Það er rétt hjá hv. ræðumanni, að sama getur gilt um útflutningsbætur og á að gilda að mínu mati. Hann taldi hins vegar að það gætu verið einhver vandkvæði á því að greiða rekstrar- og afurðalánin beint tif bænda — einhver tæknileg vandkvæði. Þetta héldu menn almennt þegar þetta máf kom upp í fyrravetur, Að sjálfsögðu gerði ég gangskör að því að athuga þetta með viðræðum bæði við Seðlabankann og viðskiptabanka, og fyrstu viðbrögð voru þau, að þetta gæti verið erfitt og kannske aukin skriffinnska. En þegar málið var skoðað nánar kom einmitt í ljós það, sem hv. 2, þm. Austurl. vék hér að, að þetta verk er unnið hvort sem er, eins og hann komst að orði, og það dregur frekar úr skriffinnsku heldur en eykur hana að hafa þennan hátt á. Ég er alveg sannfærður um að menn munu komast að raun um það þegar málið er skoðað ofan í kjölinn.

Þessar fullyrðingar og þessi — við skulum segja: andstaða gegn framkvæmdinni er því ekki á rökum reist, og vonandi láta menn þá af andstöðu gegn þessu máli, þeir sem kunna að vera því andvígir, þegar þeir sannfærast um að þessi rök eru ekki fyrir hendi, en þau eru nánast þau einu sem ég hef heyrt gegn því að fara þessa leið. Það er að vísu sagt að það liggi ekki fyrir, hvað bændur vilja í þessu efni. Það er ósköp einfalt mál að spyrja þá sjálfa, láta þá um það, hvort þeir vilja að þetta fé fari beint til þeirra eða ekki. Það er út af fyrir sig rétt, að það hefur ekki mjög verið hamrað á því í samþykktum bændafunda, að nýr háttur skyldi hafður á í þessu efni, en þó eru raddir meðal bænda núna orðnar býsna margar sem einmitt leggja á þetta áherslu, og vitnaði ég raunar til einnar í framsöguræðu minni. Og ég er alveg sannfærður um það, eins og hv. 2. þm. Austurl. raunar gat um líka, að það eru ekki margir bændur sem vilja ekki fá eigið fé beint þegar þeim býðst það.

Að því er varðar aftur á móti ummæli 3. þm. Norðurl. v., að hann skildi till. mína svo, að það ætti aðeins að greiða féð beint til sumra bænda, annarra ekki, þá er það ekki beint mín hugsun. Hitt er aftur á móti ljóst, að hver einstakur bóndi getur ávísað þessu fé fyrir fram eða um leið og hann fær það til hvaða aðila sem honum sýnist. Það gerir hann einfaldlega með yfirlýsingu sem hann þá afhendir sínu verslunarfélagi eða sínum banka og óskar eftir að féð verði greitt til þessa aðila, en ekki til sín, Það er nákvæmlega það sama og menn gera núna, t.d. þegar von er á stofnlánadeildarláni, þá ávísa þeir því gjarnan til þess aðila sem lætur þá fá efni til að byggja úr, svo að ég held að við þurfum ekki að deila neitt um þetta. Það á að skýra sig nokkurn veginn sjálft.

Hv. þm. tók þessu máli mjög vel og er ég honum þakklátur fyrir það. Hann taldi þýðingarmikið að það skyldi koma hér upp nú á tveim þingum í röð, svo að menn gætu fengið tækifæri til þess að ræða það efnislega og öfgalaust, eins og hér hefur verið gert, mér til ánægju að sjálfsögðu.

Hv. þm. vék nokkuð að rekstri mjólkurbúa. Ég gerði það raunar líka í minni framsöguræðu. Ég lagði ekki á það dóm, hvort mjólkurbú væru betur rekin en sláturhús. Ég sagði einmitt að ég teldi að þar þyrfti að fara fram athugun og ég skyldi engan dóm á það leggja fyrr en hún hefði fram farið. En ég vakti á því athygli, að það kæmi mér spánskt fyrir sjónir að ostur þyrfti að vera t.d. jafndýr og raun ber vitni, því að verulegur hluti af kostnaði þar er auðvitað vinnulaun í mjólkurbúunum sjálfum og dreifingarkostnaður, en ekki eingöngu hráefnið eða mjólkin. Ég held að það þyrfti að fara fram athugun á því, en skal sannarlega ekki fullyrða neitt í þessu efni að óathuguðu máli.

Hv. þm. Jón Helgason gat þess, að nokkuð annar háttur væri á um greiðslu afurða- og rekstrarlána á Suðurlandi en annars staðar á landinu. Þetta er að vissu leyti rétt, og að sumu leyti er framkvæmdin þar nær því, sem ég hér legg til og þessi till. miðar að, heldur en hún er sums staðar annars staðar. En einmitt að því er varðar greiðslur sumra afurðasölufélaga beint til bændanna eins og t.d. Afurðasölu Friðriks Friðrikssonar í Þykkvabæ, Slátursamlags Skagfirðinga og fleiri líkra fyrirtækja sem láta banka annast þetta, þá sýnir það auðvitað best að það eru engir annmarkar á framkvæmdinni. Þetta er gert, og bankastjórinn í útibúi Búnaðarbankans á Sauðárkróki hefur sagt mér að á þessu séu nákvæmlega engir annmarkar og síður en svo að það sé nokkur skriffinnska. Þessir reikningar liggja auðvitað fyrir frá afurðasölufyrirtækjunum, og bankinn gerir auðvitað ekkert annað en í staðinn fyrir að hann afgreiðir eina upphæð, þá færir hann hana inn á viðkomandi reikninga bændanna. Það yrði annars afurðasölufélagið sjálft að gera, svo að það er áreiðanlega ekki aukin skriffinnska, hún yrði kannske eitthvað minni en nú er.

En ég skal ekki tefja þetta frekar. Ég endurtek þakkir til allra þeirra, sem þátt hafa tekið í umr., og vona að sú n., sem málið fær til umfjöllunar, muni einnig athuga hugleiðingar mínar um að láta till. ná til útflutningsbótanna og niðurgreiðslnanna. Að því er varðar þau ummæli hv. 2. þm. Austurl., að till. gæti verið gleggri og ítarlegri, þá má það vel vera og það er síður en svo að ég mundi amast við því, að brtt. kæmu fram sem gerðu málið enn þá skýrara og tækju þá einnig til útflutningsbóta og niðurgreiðslna. Ég mundi jafnvel standa að flutningi slíkra till. eða hafa samstarf við n. um að breyta till. þannig að hún yrði víðtækari og árangursríkari en ella.