24.10.1977
Efri deild: 6. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

46. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. þessu fyrir hönd hæstv. fjmrh. sem bundinn er við skyldustörf. En svo háttar til, að óskað er eftir afgreiðslu þessa frv. nú í dag vegna þeirra tímafresta sem í lögum eru hvað snertir kjarasamninga og uppkvaðningu kjaradóms.

Hæstv. fjmrh. mun hafa haft samráð við forustumenn þingflokka um efnisinnihald þessa frv, og afgreiðsluhátt, og vonast ég því til að samstaða sé engu síður um málið í Ed. en var í Nd., en Nd. afgreiddi málið af sinni hálfu fyrr í dag.

Með setningu laga nr. 23 frá 1997 var gert ráð fyrir að BSRB hefði lokið sinni samningsgerð fyrir þær tímasetningar sem lögin tilgreina. Vegna þeirrar óvissu, sem nú ríkir um samninga BSRB, er hér gert ráð fyrir heimildarákvæðum um frestun uppkvaðningar Kjaradóms ef með þarf og allir aðilar samþykkja. Taki Kjaradómur afstöðu í máli BHM áður en BSRB hefur lokið samningsgerð má búast við öðru kjaradómsmáli í kjölfar dómsins á grundvelli 7. gr. laga nr. 46 frá 1973, sbr. 1. gr. laga nr. 23 frá 1977. Endurskoðun nær þó eingöngu til launastigans, en ekki annarra kjaraatriða sem nú eru óljós.

Þótt þessar sérstöku ástæður valdi því, að slíkrar lagabreytingar sem þessarar þykir þörf einmitt nú, er fullljóst, að eins og nú háttar er lögunum ábótavant að því leyti, að þau gera ekki ráð fyrir að unnt sé að fresta uppkvaðningu kjaradóma, enda þótt allir málsaðilar æski þess. Því þykir eðlilegra að sú heimild, sem hér er lagt til að veitt verði, sé ekki eingöngu háð þeim kjarasamningum, sem nú standa yfir, heldur komi að fullu inn í lögin sem varanleg heimild samkv. því sem hér hefur verið sagt. Í grg. með frv. er frekar skýrt innihald 1. og 2. gr. frv. og ákvæðis til bráðabirgða.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að gera það að till. minni, að frv. þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til fjh: og viðskn. og 2. umr.