26.01.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

108. mál, rekstrar- og afurðalán til bænda

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög, þó að það væri á margan hátt gaman að halda þessum umr. áfram og býsna fróðlegt, finnst mér.

Ég vil þá fyrst svara fsp. sem beint var til mín frá hv, þm. Jóni Helgasyni, 4, þm. Suðurl. Hann spurði mig um það, hvort ég hefði beitt mér fyrir því sem viðskrh. á árunum 1971–1974, að afurða- eða rekstrarlán landbúnaðarins yrðu hækkuð. Já, það væri býsna fróðlegt að rifja upp þau mál. Það vildi nefnilega svo til, að í þeirri frægu stefnuyfirlýsingu, sem vinstri stjórnin gaf út á sínum tíma, voru ákveðin fyrirheit í þessum efnum í sambandi við rekstrar- og afurðalán. Eðli málsins samkv. féll undir mig sem sjútvrh. aðeins einn partur af þessu máli, og eftir að ég hafði fengið samþykki ríkisstj, fyrir því, gerði ég það sem þeir háu herrar í Seðlabankanum höfðu aldrei heyrt dæmi um áður að nokkrir væru svo ósvífnir að gera, að ég skrifaði þeim bréf í nafni ríkisstj. og fól þeim að gera ákveðnar breytingar, hækka afurðalánin, sem Seðlabankinn veitti, og lækka vextina. Þetta var bæði í samræmi við það, sem ríkisstj. hafði lofað í stefnuyfirlýsingu sinni, og einnig það, sem ríkisstj. hafði samþykkt á fundi. Síðan var þetta framkvæmt. Ég hafði hins vegar ekki, heldur landbrh. Halldór E. Sigurðsson, með þau mál að gera sem sneru að landbúnaðinum. Ég innti landbrh. oftar en einu sinni eftir því, hvort hann ætlaði ekki að fylgja sínum hlut eftir, af því að samþykktin á ríkisstjórnarfundi var ekki aðeins fyrir sjávarútveginn, heldur okkur alla sem þarna áttum hlut að máli. Landbrh. valdi sinar leiðir, eins og ég veit að hv. þm. Jón Helgason þekkir. Hann hélt sig á þeirri braut, sem hefur verið haldið áfram á, að kría út smábreytingar hjá þeim í Seðlabankanum, eftir að það var búið að ganga mikið á eftir þeim háu herrum, en ekki að velgja þeim með bréfi. Og út úr þessu hefur komið það sem við þekkjum í dag, að það er ekki aðeins um rekstrarlán að ræða, sem eru allt of lág, og afurðalán, sem eru allt of lág, heldur voru svo komin ótal nöfn á viðbótarlánum: uppgjörslán, ábyrgðarlán, fóðurbætislán og eitthvert sérstakt lán o.s.frv., og allt þetta til samans átti alltaf að vera að bæta stöðuna. Í rauninni hefur þetta orðið til þess, að málið er orðið svo flókið að það er næstum enginn maður í landinu sem veit hvernig þessi mál raunverulega standa.

Ég hef hins vegar sett upp þetta dæmi sem ég hef rætt hér, að ég vil hafa þetta á hreinu. Það eru fordæmi fyrir því annars staðar frá að veita bændum, t.d. sem stunda sauðfjárrækt, rekstrarlán meðan á rekstrartímanum stendur og síðan komi eins og í öðrum greinum afurðasölufélögin. Þegar þau taka við á að veita þeim afurðalán út á birgðir. Þetta er ofureinfalt, og ég get nú huggað hv. þm. Pál Pétursson með því, að það er enginn vandi að koma þessu fyrir, enda er þetta viðurkennt af bankamönnum sjálfum, þeir hafi ekki áhyggjur af þessu, það væri einfalt að koma þessu fyrir. Eðli málsins samkv. gerðist þetta upp á þann hátt, að þegar bændur legðu inn afurðir sinar á haustnóttum, þá gættu þeir að mestu kvittað sína rekstrarlánareikninga, en þá hins vegar færu afurðalánin í topp hjá afurðasölufélögunum, af því að hér er raunverulega verið að lána út á það sama á þennan hátt. Þetta er þekkt fyrirbæri úr þessu framleiðslukerfi annars staðar. Ég hef haft þessa skoðun allan tímann, að það þyrfti að breyta þessum lánum, og ég reikna með því, að það þurfi að hækka þessi heildarlán til landbúnaðarins, svo að hægt sé að koma bændunum úr því innskriftar- og milliskriftarfyrirkomulagi sem ég hef bent hér á. Ég álít að það sé nauðsynlegt að ná því marki að losa þá undan því.

Mér fannst koma fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni býsna athyglisvert atriði, þegar hann vildi kalla ræðu mína hér einkaframtaksræðu og atvinnurekendaræðu. Ég er nú orðinn býsna vanur því að heyra eitthvað af þessu tagi, en vil fá svolítið frekari útskýringar á því, hvað menn eiga við. Getur það verið, að það sé eitthvert almennt atvinnurekendasjónarmið eða eitthvað óguðlegt, skulum við segja., svo að Páll vinur minn skilji það, að standa að því að bændurnir sem framleiðendur geti fengið afurðir sinar greiddar — fengið lán út á sína framleiðslu og afurðir sínar greiddar? Er það eitthvað voðalegt? Það held ég ekki. Verði það að dæmast einkaframtaksræða að halda þessu fram, þá sit ég uppi með það. Það er mín skoðun, að þetta sé rétt form. En þetta skýrðist miklu betur hjá hv. þm. Páli Péturssyni þegar hann hélt ræðu sinni áfram. Hann sagðist auðvitað — gagnstætt atvinnurekendaræðunni — vera samhjálparmaður, samvinnumaður. Ég tel mig vera það líka. En hann skýrði þetta mál enn þá betur. Jú, bændurnir væru allir saman í sínum félögum, þar vildu þeir hjálpa hver öðrum, sumir þyrftu meira, aðrir minna, sumir kannske ekkert, og þá væri gott að færa á milli. Já, þarna erum við nefnilega komnir að hinum stóra sannleik í málinu. Það eru sumir sem þykir gott að hafa þann hátt á að geta tekið þetta allt út í einu lagi á einu nafni, og svo er einn algóður maður sem sér um að stjórna þessari millifærslu. Hann heitir í flestum tilfellum kaupfélagsstjóri. Hann veit að þessi maður er fátækur og hann þarf meira, það þarf að gera vel við hann. Hinn getur vel komist af með minna. Þeir eru svo góðir í þessu samhjálparfélagi, að þeir ætla með milligöngu kaupfélagsstjóra, sem einn hefur valdið, að færa þarna á milli, gera góðverk.

Nú tek ég alveg undir það, mér er það alveg ljóst, að bændur landsins standa ekki allir jafnfætis frekar en t.d. okkar fjölmörgu útvegsmenn eða verkamenn eða launþegar, þeir standa ekki allir eins að vígi. Sumir eiga erfitt með rekstur. Aðrir bændur í landinu, þó að meðaltalið komi ekki vel út, eru býsna vel settir. Þessi breytileiki á sér stað alls staðar í okkar rekstri og reyndar í öllum launamálum líka. En ég álít að í þessum tilfellum eins og öðrum verði það rétta að koma hreint fram. Hver fær það sem hann á í þessum efnum, eftir þar til sektum reglum. Ef okkur finnst að einhverjir séu í þessu rekstrarkerfi sem ekki sé ástæða til að veita eins mikil rekstrarlán og hinum, þá skulum við mynda um það reglur, og þá verða lán til þeirra stýfð eftir almennum reglum, en ekki eftir dyntum einhvers kaupfélagsstjóra, því að ég er ekki öruggur um það, þó að þeir séu sumir góðir, að þeir geri allir alltaf rétt þegar verið er að færa þarna á milli. Ég álít að það sé eðlilegt, ef einhver er þannig staddur, að hann hefur ekki nægilegt út úr kaupinu sínu, ekki nægilegt út úr sínum rekstri, að þá beri að gera þjóðfélagslegar ráðstafanir til að bæta hans hag, horfast í augu við þann vanda. Ef kaupfélag, sem rekur t.d. almennan samvinnurekstur, getur veitt lán til viðbótar því sem menn eiga, þá getur það gert það eftir sem áður. Við því er ekkert að segja, ef verslunin er þannig rekin að hún geti þetta. En ég mundi ekki sætta mig við það — og má hver sem vill kalla það atvinnurekstrarsjónarmið — að standa þannig að rekstri, t.d. í sambandi við frystihúsin í landinu eða fiskiskipaflotann, að þar kæmi bara eitt samvinnufélag, eins og við höfum á Norðfirði, og það tæki lán út á allan flotann og svo væri einn góður maður sem miðlaði til manna eftir því sem þeim ágæta manni þætti hæfilegt, og menn yrðu að sætta sig við það af því að þetta væri hvort sem er allt í innskrift fram og til baka. Ég mundi ekki sætta mig við það fyrirkomulag og tel það óæskilegt. Hitt á að vera opið mönnum, hvort þeir geta fengið til viðbótar við það, sem þeir geta fengið með eðlilegum hætti, viðbótarlán í sinni verslun eða í sínum félagssamtökum eða þá í sínum banka. Ef það dugar ekki, þá eiga vitanlega að koma þarna til þjóðfélagslegar ráðstafanir.

Ég held að það yrði bændastéttinni fyrir bestu, að hver og einn bóndi fengi í þessum efnum að finna og að sjá hvernig hans staða rekstrarlega er. Og ég held líka að það fengist miklu réttlátara fyrirkomulag á þessar lánveitingar í heild ef þessi dæmi lægju rétt fyrir, en ekki á þann hátt sem þau liggja fyrir í dag. Nú er t.d. algengast að talað sé um það, hvort eigi að auka lánin til Sambandsins eða auka lánin til kaupfélaganna. Menn geta sagt þetta með nokkrum sanni, ef það er meiningin að taka lánin á þennan hátt og ráðstafa þeim svona.

Það er ekki lögmál frumskógarins að menn fái sína vinnu greidda án þess að það þurfi að vera einhvers konar milliskriftarfyrirkomulag. Það á að reyna að koma málunum þannig fyrir, að það sé hægt. Hvernig fer önnur framleiðsla að þessu í okkar þjóðfélagi? Hvernig fer t.d. iðnaðarframleiðslan að því að borga starfsfólki sínu út svo að segja jafnharðan kaup, þó að iðnaðurinn sé að framleiða vöru á lager til nokkurs tíma, þar til hún síðan selst og peningarnir koma inn aftur? Þessi starfsgrein fær ákveðna fjármálalega fyrirgreiðslu til þess að hægt sé að halda uppi þessum rekstri á þann hátt að launin séu greidd. Vitanlega verður að horfast í augu við það sama varðandi landbúnaðinn. Þarna er um rekstur að ræða sem við viljum halda uppi og ætlum okkur að halda uppi, og verður að standa að þeirri framleiðslu á svipaðan hátt og annarri. Það verður að gera það kleift að borga út laun til þeirra sem stunda þessa framleiðslu, á meðan þeir eru að framleiða vöruna, og það sé hægt að láta þá fá þá fjármuni sem þarf til að standa undir beinum rekstrargjöldum. Auðvitað er það svo, að þetta er líka gert núna. Í fyrsta lagi er það gert með því að veita einhver rekstrarlán í gegnum þessa aðila, og þau koma til skila svona og svona. Svo er það gert með því, að þessi félög bændanna, samvinnufélögin, eru að veita einhver lán eftir sinni getu. Þau hafa kannske innlánsdeildir og eru að veita lán þannig. í þriðja lagi verða bændurnir að mynda einhvers staðar skuldahala fyrir afganginum. Einhver verður að standa undir þeim upphæðum. Það er því ekki mikil breyting í sjálfu sér, nema að formi til, að koma þessu einu sinni í það lag, að þessi framleiðsla fái hliðstæða meðferð og aðrar framleiðslugreinar og þessu sé komið á hreint.

Ég trúi því ekki, að hv. þm. Páll Pétursson og fleiri átti sig ekki á því við nánari athugun, að með breyttu fyrirkomulagi í þessum efnum er ekki verið að vinna kaupfélögunum neinn skaða. Það er ekki heldur verið að hreyfa við kerfi framleiðslu- eða sölufélaganna. En það er verið að gera þessi fjármál bændastéttarinnar miklu hreinna upp en nú er gert, landbúnaðinum til hagsbóta og bændunum til aukins frjálsræðis og sjálfstæðis fjárhagslega. Samhjálp verðum við svo að hafa eftir öðrum leiðum en þeim sem hér hefur verið minnst á. Það er vitanlega sjálfsagt að jafnt samvinnufélög sem aðrir, eins og ég hef sagt, taki þátt í því eftir sinni getu. En þá er líka rétt að átta sig vel á því, að aðstaða þessara samvinnufélaga er mismunandi í þessum efnum. Sum geta varla staðið undir beinum skyldum sínum, hvað þá að þau veiti mikla viðbótarsamhjálp. Við höfum nefnilega allmörg dæmi um það, að kaupfélögum, sem annast þessa afurðasölu, gengur illa að standa undir lágmarksskuldbindingum sínum til að skila bændum því sem þau eiga að skila.

Það get ég svo sagt að lokum við hv. þm. Pál Pétursson, að ég þekki, hugsa ég, baslið alveg eins vel og hann, og líklega eigum við í Austurlandskjördæmi alveg eins marga baslara í þessum efnum og annars staðar, eða þá sem erfiðlega gengur. Við höfum fengið að sjá afkomuna hjá þeim og vitum hvernig hún er. Við eigum við þann vanda að glíma líka að eiga ýmis samvinnufélög sem verða að reyna að aðstoða bændurna og fleiri en bændurna, og þau eru þannig á sig komin að þau ráða ekki við þennan vanda. Bændur á ýmsum svæðum þar njóta ekki sama réttar eða sömu fyrirgreiðslu í þessum efnum og bændur annars staðar. Af því held ég að það sé rétt, eins og ég hef sagt áður, að hverfa að breytingu á þessu formi. En ég tel ekki nema hálfan vinning í þessu ef ætti aðeins að taka þessa takmörkuðu upphæð, sem nú er kölluð afurðalán og rekstrarlán, og borga bændunum það eitt út af fyrir sig. Hitt verður að fylgja með, að hægt sé að ná því marki sem ég hef verið að lýsa í ræðum mínum.