26.01.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

108. mál, rekstrar- og afurðalán til bænda

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er raunar ánægjulegt að hlusta á þessar umr., þ.e.a.s. að því leyti til að áhugi á því að rétta hlut bænda að þessu leyti, þ.e. að auka rekstrarlán og afurðalán, hefur komið greinilega í ljós hjá þeim ræðumönnum sem ég hef hlustað á og hafa tekið til máls í sambandi við þessa till. Því miður hef ég ekki hlustað á alla umr. En hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, talaði í raun og veru með rekstrarlánunum, en móti breytingunni á afurðalánunum. Tillgr. er þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj, að hlutast til um, að viðskiptabankar greiði rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins beint til bænda.“

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson tók margoft fram í sinni ræðu, að hann vildi láta borga rekstrarlánin beint til bændanna, en hins vegar að afurðalánin væri ekki hægt að greiða öðruvísi en til þeirra vinnslustöðva sem fengju lánin. Þetta er auðvitað laukrétt hjá hv. þm. En ég vil bara undirstrika þetta sérstaklega.

Hins vegar ræddi hv. þm. ekki, a.m.k. ekki nógu skýrt hvernig ætti að tryggja það að afurðalánin borguðu í öllum tilvikum rekstrarlánin, því að afurðalánin taka í raun og veru við af þeim. Um leið og afurðalánin eru veitt eru rekstrarlánin greidd upp. Ég held nefnilega að það sé ekki verið að ræða hér um kjarna málsins, heldur um formið á þessu, Kjarni málsins er að þetta sé aukið, hvernig sem að því er farið. Það er kjarni málsins. Hv. þm. er að ræða um að það þurfi að sjá um að bændurnir fái kaupið sitt. Þeir fá ekkert frekar kaupið sitt þó að gerð sé einhver formbreyting á þessu — alls ekki. Það þarf eitthvað annað til að koma. Með formbreytingunni einni fá þeir ekkert meira kaup eða frekar kaupið sitt greitt. Það þarf að auka þessi lán, það er málið.

Hv. þm. sagði að þetta atriði hefði ekki verið rætt á fundum bænda, þ.e.a.s. formbreytingin. Það er alveg rétt. Það er vegna þess að bændur hafa alls ekki áhuga á því að breyta þessu yfirleitt. Það er kjarni málsins. (Gripið fram í.) Á þeim fundum, sem ég hef komið á hjá bændum, hefur það komið greinilega fram. (EKJ: Alls ekki rætt og kom samt fram.) Nei, þegar maður er að tala við þá. Þeir hafa ekki neinn áhuga á þessari breytingu, enda eru ýmsir annmarkar á þessu sem ég ætla ekki að fara að ræða hér.

Hv. þm. talar um innskriftarfyrirkomulag. Það er nú svo með þann sem er í atvinnurekstri eða þarf að skulda, að það skiptir ekki miklu máli hvort hann þarf að fara til kaupfélagsstjórans eða bankastjórans, Það skiptir ekki máli hvort það þarf að skrifta fyrir bankastjóranum eða kaupfélagsstjóranum. Bankastjórinn vill sjálfsagt vita út á hvað hann er að lána, alveg eins og kaupfélagsstjórinn, og það er þýðingarlaust að vera að flækja málið á þennan hátt. Það er nú þannig, að ef menn þurfa að fá lán, hvern sem menn ganga fyrir, þá þurfa þeir að skýra málið. Það má kalla þetta innskriftarfyrirkomulag, það er út af fyrir sig ágætt orð. En margir bændur mundu fara, ef þessi formbreyting yrði, og taka lánið í bankanum og fara svo til kaupfélagsins með það og leggja það inn í reikninginn. Það yrði a.m.k. svo um ærið marga. Og hver yrði þá breytingin?

Ég held að þetta mál þurfi að ræða einmitt á fundum bænda, og það eru þeir sem eiga þá að óska eftir þessari formbreytingu. Ef þessi till. kæmi til landbn. Nd., þá yrði a.m.k. reynt að leita umsagna hjá búnaðarsamböndum og öðrum um hug þeirra, og þá kæmi það fram, og ég þarf ekki að hafa mörg orð um það hér.

Ég held að hér sé í raun og veru verið að ræða um málið frá allt annarri hlið en þyrfti að ræða það. Það er þetta: Hvernig á að fara að því að auka rekstrarlán og afurðalán til þess að bændur geti fengið kaupið sitt borgað jafnóðum eins og aðrar stéttir þjóðfélagsins? En það er ekki aðalatriðið hvernig því sé fyrir komið. Þar sem ég þekki til eru þessi afurðalán, sem nú eru, ekki nema litið brot af þeirri fyrirgreiðslu sem kaupfélögin veita ýmsum mönnum sem eru í rekstrarfjárskorti. Það er eins og hv. þm. Lúðvík Jósepsson veit fullvel, að ekki taka allir lán sem eru í sjávarútvegi. Ég þekki meira að segja vel menn sem þurfa ekki að veðsetja nema lítinn hluta af sínum afla. Þeir eru til, og þeir eru vonandi til í bændastétt sem þurfa ekki heldur á að halda a.m.k. rekstrarlánum. Þeir eru of fáir, en þeir eru til sem betur fer.

Ég vil svo að endingu segja það, að ég vona að það, sem hefur komið fram í þessum umr., mikill vilji og aukinn skilningur á þörf bænda fyrir aukin rekstrarlán og afurðalán verði til þess að eitthvað verði gert meira í þessum málum heldur en að ræða um lítilsverða hluti eins og um formbreytingu á þessum málum, það verði sem sagt rætt um kjarna málsins, en ekki um hismið.