26.01.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

118. mál, rekstrar- og afurðalán til bænda

Jón Helgason:

Herra forseti. Hv. flm. lét í ljós furðu sína yfir því, að ég hefði ekki lýst stuðningi við þessa till. Ég bið hann afsökunar á því, ef ég hef ekki gert það formlega. En ég held að það hafi komið fram í umr. um hina till., að ég væri samþykkur efni þessarar till. Annars finnst mér meira máli skipta, hvernig mál þokast áfram, heldur en hvort fluttar eru einhverjar till. Ég tel að það sé fyrst og fremst skylda mín að reyna að vinna að framgangi þessa máls, sem hér er flutt, frekar en vera með einhverja sýndarmennsku. Ég einmitt benti á það, að þegar væri búið fyrir atbeina hæstv. ríkisstj. að fá fram einn lið þessarar samþykktar aðalfundar Stéttarsambands bænda, þ.e.a.s. að umreikna grundvallarverðið svo að lánin breytist í samræmi við breytingar á heildsöluverði.

En viðvíkjandi því, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði um atkvgr. um till. í sambandi við afgreiðslu fjári., þá finnst mér að sú till., eins og hún var flutt af hv, þm. Alþb., einmitt styrkti það sem ég sagði um vinnubrögð þeirra, því að í hana vantaði alveg grundvöllinn, þ.e. hvernig ríkissjóður ætti að mæta því tekjutapi sem hann hlýtur að verða fyrir þegar söluskatturinn er felldur niður. (Gripið fram í.) Það var ekkert í sambandi við þessa till. Það var aðeins um að söluskatturinn ætti að falla niður. Þá hefði afleiðingin aðeins orðið sú, að þessi tala, skuldin við Seðlabankann, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. var að hneykslast á að væri orðin allt of stór, yrði enn þá stærri. Aðalatriðið er að reyna að finna einhverjar leiðir til að útvega fjármagn á móti.

Það er enn þá verið að athuga það mál hjá hæstv, ríkisstj., og ég vonast tif að þar náist einhver árangur. Ég hef sagt á fundum að það, sem skipti mestu máli fyrir bændur, væri það, að verðið fækkaði, ef það gæti eitthvað haft áhrif á aukna sölu, en hvort það heita auknar niðurgreiðslur eða niðurfelling söluskatts, það er ekki höfuðatriði.