26.01.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

118. mál, rekstrar- og afurðalán til bænda

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég hef því miður ekki fylgst nægilega með þessum umr., en hér kemur fram að Alþ. skuli álykta að fela ríkisstj. að gera ráðstafanir til að tryggja bændum viðunandi rekstrar- og afurðalán. Þetta er gífurlega stórt mál, því þetta er ekki aðeins vandamál í sambandi við bændur, heldur atvinnulífi í heild, hvernig atvinnulífinu og þar með bændastéttinni verði útvegað nægilegt rekstrarfjármagn.

Menn hafa stefnt að því að hækka þessi afurðalán. Hins vegar verða menn að viðurkenna það, að við stöndum frammi fyrir því vandamáli að fjármagn til þess hefur farið minnkandi vegna þess að sparnaður landsmanna hefur minnkað. Þannig voru afurðalán til atvinnuveganna í lok nóv. s.l. tæpum 5 milljörðum hærri en svokallaðri bindiskyldu innlánsstofnana nam. Þetta fjármagn, sem þarna er fram yfir, fæst ekki öðruvísi en með aukinni seðlaprentun eða auknum erlendum lánum. Og þetta er grundvallarvandamál. Ef við viljum laga þessa stöðu, sem er út af fyrir sig forsenda þess að lagfæra afurðalánastöðuna almennt, þá getum við það með því að lagfæra stöðu ríkissjóðs, sem skuldar nú um það bil 15 milljarða í Seðlabankanum, og það þýðir aukna skattheimtu. Einnig mætti auka svigrúm annarra stofnana, m.a. viðskiptabankanna, til þess að lána meira og minnka þá bindiskyldu þeirra til Framkvæmdasjóðs. Þetta var m.a. eitt að því, sem gert var við afgreiðslu síðustu lánsfjáráætlunar, og væntanlega ein af þeim ráðstöfunum sem ríkisstj. gæti gert í þessu sambandi. En við skulum átta okkur á því, að slíkar ráðstafanir sem þessar mega ekki felast í aukinni seðlaprentun, heldur í einhverjum raunhæfum ráðstöfunum til þess að fá meira fjármagn til útlána.

Ég vil aðeins upplýsa það, að þrátt fyrir þessi vandamál, sem við getum ekki horft fram hjá, hafa afurðalán, t.d. til landbúnaðar, hækkað gífurlega mikið á s.l. ári að krónutölu. Þau voru í des. 1976, að því er ég best man, tæpir 5,9 milljarðar kr., en voru í lok des. s.l. einhvers staðar á bilinu 9.7–9.8 milljarðar, höfðu hækkað um tæp 65%. Ég held að það sé ekki nokkur vafi á því, að afurðalánin til landbúnaðarins hafa batnað á s.l. ári, þau hafa aukist, því að þrátt fyrir miklar verðhækkanir hafa verðhækkanir ekki numið 65%.

En ég ætlaði ekki að hafa fleiri orð um þetta. Mál eins og þetta hlýtur óhjákvæmilega að tengjast efnahagsmálunum og efnahagsstefnunni almennt. Ég hygg ekki að hér sé út af fyrir sig verið að leggja til að prenta meiri peninga frekar en að ná inn meira fjármagni til þess að geta leyst þessi mál hefur.