30.01.1978
Neðri deild: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Ég skal ekki gera athugasemdir við það, þó að 3. dagskrármálið, frv. til l. um virkjun Blöndu, sé tekið út af dagskrá nú. En ég vil vegna meðferðar þess máls aðeins vekja athygli á því, að þetta er í þriðja sinn nú á þessu þingi sem málið er tekið af dagskrá eftir ósk sama þm., hv. 3. þm. Norðurl. v., Páls Péturssonar. Í fyrsta sinn var það nokkru fyrir jól, þegar málið var hér fyrst til 1. umr. og ég hafði flutt framsöguræðu um það. Þá hafði hv. þm. ekki nein forföll, heldur taldi sig þurfa betri tíma og lengri til undirbúnings undir ræðugerð.

Nú vil ég aðeins vekja athygli á því í þessu sambandi, að þetta sama mál lá fyrir síðasta þing og þá hafði þessi sami hv. þm. tækifæri til þess í löngu máli að gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins, sem hann er andstæður. Ég vil aðeins beina því til hæstv. forseta, að á næsta fundi þessarar hv., d. verði málið tekið fyrir til umr., því að það er ekki heppilegt að öllu lengur tefjist að þetta mál, sem var fyrst til 1. umr. fyrir jól, komist til n. til eðlilegrar meðferðar.