30.01.1978
Neðri deild: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

112. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs strax við 1. umr. þessa máls til þess að lýsa því yfir, að ég styð þetta mál mjög eindregið. Ég tek undir flest af því sem fram kom í ræðu hv. frsm. og flm., Ingvars Gíslasonar, ekki síst ummæli hans um gildi gamalla húsa, bæði vegna þeirra sjálfra og eins vegna umhverfisins. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni í umr, um varðveislu gamalla bygginga, að hér að um að ræða mikil menningarverðmæti sem ekki megi glatast. Slík hús skapa vissar „tradisjónir“ í sínum byggðarlögum, setja svip á staðinn og eru þau sérkenni byggðarlaginu sem þeim, sem þar búa, finnst mest varið í. Ég tel það vera hneisu mikla, hvernig ýmis slík menningarverðmæti hafa drabbast niður, og af því tilefni að minnst er hér á Bernhöftstorfuna, þá held ég að það sé löngu tímabært að stjórnvöld taki á sig rögg og sjái til þess, að sú húsaþyrping og þau merkilegu hús fái að standa og um þau sé hugsað eins og þeim ber.

Meginmál þessa frv. er hins vegar það að auka lánveitingar til endurnýjunar og viðhalds og kaupa á gömlum húsum. Sannleikurinn er sá, að vegna lánafyrirkomulags, sem ríkjandi hefur verið hér alllengi, hefur fólk, sem hyggst stofna heimili eða hefur hugsað sér að breyta til í íbúðamálum sínum, þurft að ráðast í byggingar, og fyrir vikið hafa bæjarfélög þanist út meira heldur en góðu hófi gegnir og oftast nær valdið því, að til miklu meiri kostnaðar er stofnað heldur en ástæða er til á hverjum tíma. Hér er um að ræða mikinn kostnað fyrir viðkomandi sveitarfélög, vegna þess að það þarf að leggja í gatnagerð, í vatnslagnir og aðra þjónustu fyrir ný hverfi. Það er athyglisvert, að þrátt fyrir að íbúafjöldi hér í Reykjavík hafi staðið nokkurn veginn í stað í nokkurn tíma er enn þá mikil ásókn í lóðir og í nýtt húsnæði. Ég er í enginn vafa um það, að þetta stafar fyrst og fremst af lánapólitíkinni, að því fólki, sem þarf á nýju húsnæði að halda, eru ekki aðrir vegir færir heldur en að sækja um lóðir og byrja á byggingum. Eldri hverfi tæmast af þessum sökum, og ef farið er yfir eldri hverfin hér í Reykjavík t.d., þá sést að íbúafjöldi minnkar stöðugt og fyrir vikið eru þjónustustofnanir alls konar ekki fullnýttar og hlýtur að vera mikið óhagræði að því fyrir viðkomandi sveitarstjórn. Þá er þess að geta líka, að af þessum sökum eru miklir erfiðleikar á sölu á eldra húsnæði, ekki vegna þess að það sé ekki eftirsótt, heldur vegna þess að lánafyrirgreiðsla er ekki sú hin sama, þegar nm slíkt húsnæði er að ræða, og þegar um er að ræða nýbyggingar.

Ég leyfði mér fyrir nokkrum árum að flytja till. til bál. um ýmsar breytingar á löggjöfinni um Húsnæðismálastofnun ríkisins, þar sem ég benti á ýmis atriði sem ég taldi að betur mættu fara í þeirri löggjöf. Sú till. náði ekki fram að ganga og því miður urðu ekki miklar umr. um hana. Ég hygg að ástæðan hafi fyrst og fremst verið sú, að enda þótt menn gætu tekið undir mörg þau sjónarmið sem þar komu fram, þá sáu þeir fram á erfiðleika vegna fjármögnunar sem slíkar breytingar hefða óhjákvæmilega í för með sér. Þetta frv., sem hér er lagt fram, hefur sömuleiðis það í för með sér, að endurskoða þarf tekjuöflun Byggingarsjóðs og sjálfsagt þarf að stórauka og stækka Byggingarsjóðinn. En það er rétt, sem fram kemur hjá hv. frsm., að slík viðhorf hafa skapast nú á seinni tímum, að óhjákvæmilegt er að taka tillit til þeirra og endurskoða löggjöfina í samræmi við þau. Ég hef í þessu sambandi bent á atriði eins og það, að hverjum einstaklingi væri aðeins veitt einu sinni lán, þ.e.a.s. að sá, sem sækir um lán til íbúðarkaupa eða íbúðarbyggingar, fær því ríflegra lán en hann fær í dag og þannig kemst hann inn í þessa hringiðu, en hann á síðan að geta bjargað sér aftur eftir að þessi lánafyrirgreiðsla hefur verið veitt. Nú er það svo, að einstaklingur getur byggt með tiltölulega fárra ára fresti og fær stöðugt lán vegna slíkra húsbygginga, vegna þess að lánið er veitt út á bygginguna sjálfa, en ekki einstaklinginn sem sækir um það. Ég hef líka verið þeirrar skoðunar, að hér ætti að gera breytingu á lögum að því er víkur að yngra fólki, undir t.d. 25 ára aldri, sem er sá hópurinn sem fyrst og fremst stofnar heimili og þarf á þessari fyrirgreiðslu að halda frá hinu opinbera, það ætti að auka lánveitingar til slíks fólks og þá ekki síst til þess hóps sem hefur sýnt einhverja tilburði til þess að spara með kaupum á verðbréfum eða farið eftir reglunum um sparilán.

Það er enginn vafi á því, að ákvörðun um þessi atriði, þ.e.a.s. um hækkun lánveitinga til eldra húsnæðis, er eitt allra stærsta vandamálið og nauðsynjamálið sem blasir við á þessum vettvangi. Ég er í engum vafa um það, að með slíkri breytingu mundi fást miklu betri nýting á margvíslegri þjónustu sem sveitarfélög veita í eldri hverfum, sem búið er að byggja upp, og þar er fyrir hendi, og eins líka hitt, að það húsnæði sem hefur verið byggt og er vel nothæft, mundi nýtast miklu betur, þannig að ungt fólk með stærri fjölskyldur gæti flust þar inn. Í eldri hverfum, bæði í Reykjavík og annars staðar, er mjög algengt að eldra fólk situr barnlaust í mjög stórum húsum og íbúðum, yngra fólki er ekki mögulegt að festa kaup á slíku húsnæði og þeir, sem eiga húsnæðið. geta ekki selt það, fyrst og fremst og nær eingöngu vegna þess að lánalöggjöfin er röng hvað þetta snertir. Ég mæli því eindregið með því, að þetta mikla mál verði nú tekið til rækilegrar skoðunar. Það þarf ekki endilega að vera gert með þeim hætti, að þetta frv. sé afgreitt og samþykkt. Ég lít svo á að það sé flutt til þess að vekja athygli á þessu máli og flm. sé ljóst að þetta þurfi nokkurrar skoðunar við. Með þessu er ég ekki að segja að bað eigi að tefja málið og það eigi ekki að afgreiða. En sem sagt, hér er í mörg horn að líta, og ég held að flm. sé áreiðanlega ljóst eins og mér og flestum öðrum, að bað, sem skiptir máli hér, er fjármögnun Byggingarsjóðsins. Það mál þolir ekki mikla bið úr þessu.