31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

102. mál, starfsemi Húsnæðismálastofnunar ríkisins

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar þessi fsp. hafði verið lögð fram á Alþ. óskaði félmrh. eftir grg, frá Húsnæðismálastofnun ríkisins um þau atriði sem fsp. fjallar um. Ég vil leyfa mér að lesa hér svar Húsnæðismála­ stofnunar ríkisins. Það hljóðar svo:

Allt frá upphafi starfsemi sinnar hefur Húsnæðismálastofnun ríkisins unnið að framgangi þeirra stefnumiða sem fram koma í 3. gr. laga um stofnunina. Stærsta átakið framan af var stofnun teiknistofn sem hannaði vandaðar íbúðarteikningar er seldar voru við vægu verði víðs vegar í landinu. Er enginn vafi á því, að þessi þjónusta hafði mjög mikið gildi fyrir landsbyggðina, bæði að því er varðar betri og fegurri íbúðarbyggingar og betri húsakost. Enn er þessi starfsemi rekin, einkum í þágu landsbyggðarinnar, með góðum árangri.

Veiting framkvæmdalána til íbúðarbygganna hvarvetna í landinu, jafnt til sveitarstjórna, stjórna verkamannabústaða, einkafyrirtækja í byggingariðnaði og dvalarheimila aldraðra, hafa oftsinnis ekki aðeins ráðið úrslitum um að slíkar byggingar komist á laggirnar, heldur hefur veiting þeirra, lagt grundvöll að festu í framkvæmdum, m.a. að því er atvinnu varðar, og gert framkvæmdaaðilum kleift að gera hagstæða samninga af margvíslegu tagi er verkað hafa til lækkunar á byggingarkostnaði. Enginn vafi er á að lánveitingar þessar hafa orðið til þess að gera margar þessara framkvæmda mun ódýrari en ella hefði orðið.

Á vegum tæknideildar stofnunarinnar starfar starfshópur sem annast fast og ákveðið eftirlit með byggingarkostnaði félagslegra byggingarframkvæmda, einkum þó vegna leiguíbúða sveitarfélaga, Vegna þessarar starfsemi hafa þessar framkvæmdir ekki orðið jafndýrar og ella hefði orðið, og er enn stefnt að því af fullri festu að halda byggingarkostnaðinum sem mest niðri án þess að það komi niður á gæðum íbúðanna.

Húsnæðismálastofnunin hefur lengst af haldið uppi nokkuð umfangsmikilli leiðbeininga- og eftirlitsþjónustu fyrir húsbyggjendur, bæði hina félagslegu byggingaraðila sem og einstaklinga er keypt hafa íbúðarteikningar hennar. Auk þess hefur hún löngum gengist fyrir fræðslufundum og ráðstefnum um húsnæðis- og byggingarmál víðast hvar í landinu. Ennfremur hefur hún lengst af gefið út leiðbeininga- og fræðslubæklinga í nokkrum mæli.

Húsnæðismálastofnunin hefur lengi veitt þó nokkurt fé, ýmist sem lán eða sem óafturkræfa styrki, til margs konar framfaramála á sviði húsbyggingarmála. Hún hefur oft styrkt Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins til kaupa í vísindatækjum vegna rannsókna í húsbyggingarmálum. Nú stendur þar yfir rannsókn á gæðum innlends og innflutts einangrunarglers, sem Húsnæðismálastofnunin hefur heitið að leggja umtalsvert fjármagn til. Hún hefur kostað umfangsmikla rannsókn á gæðum einingarhúsa, innlendra, er Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins annaðist, og hún hefur með gerð húsamats ríkisins lagt grundvöll að því, að unnt verði að gera sér miklu betri grein fyrir því en áður var, hver kostnaður er samfara húsbyggingum, áður en hafist verður handa um gerð þeirra. Er vonast til að unnt verði að taka lykil þennan í notkun á næsta ári. Hér mun átt viti árið 1978.

Þá hefur stofnunin lagt fram verulegt fjármagn sem lán til bæði iðnfyrirtækja og framleiðslufyrirtækja í byggingariðnaði. Mörg iðnfyrirtæki hafa fengið lán til kaupa á mikilvægum tækjum er hætt hafa framleiðslu þeirra og jafnframt gert hana hagstæðari. Einnig hefur stofnunin veitt framleiðslufyrirtækjum lán til að komast á legg og er svo enn. Hún hefur leitast við að styðja rækilega við bakið á innlendum húseiningaverksmiðjum og gerir það stöðugt með umtalsverðum árangri. Með góðum árangri hefur Húsnæðismálastofnunin beitt sér fyrir því, að sveitarstjórnir ráðstafi byggingarlóðum í janúarmánuði ár hvert, sem er húsbyggjendum ótvírætt til hagsbóta. Hún vinnur nú að ítarlegri athugun á húsnæðisþörfum aldraðra, og er vonast til að niðurstöður hennar geti orðið mikilvægt framlag við ákvarðanir um húsbyggingar í þeirra þágu. Loks hefur hún með lánveitingum sínum leitast við að tryggja það, að vinna við íbúðarbyggingar væri sem samfelldust árið um kring og sem jöfnust frá ári til árs, Enginn vafi er á að hún hefur haft þó nokkurn árangur sem erfiði í þeim efnum.

Um framtíðaráætlanir á þessu sviði er það helst að segja, að stefnt verður að því að efla og bæta jákvæða starfsemi stofnunarinnar á þessu sviði. Einkum verður þó lögð áhersla á að efla þá starfshætti sem geta gert henni og stjórnvöldum kleift að hafa nokkurn hemil á byggingarkostnaði. Þegar hefur náðst nokkur árangur í því efni, en mun betur má ef duga skal. Á það verður lögð höfuðáhersla.

Þá verður einnig unnið að aukinni fræðslu- og leiðbeiningastarfsemi fyrir almenning sem og iðnaðarmenn.

Væntanlega mun stuðningur við húseiningaverksmiðjur færast í aukana sem og aðra þá sem sýnt geta hagstæðan árangur í byggingarframkvæmdum sínum, Rannsóknir verða efldar og starfsemi af því tagi í öðrum stofnunum verður studd, Vænta má þess, að áfram verði stuðningur veittur iðnfyrirtækjum og framleiðslufyrirtækjum í byggingarkostnaði sem og byggingarfyrirtækjum almennt.

Þetta var svar eða umsögn framkvæmdastjóra Húsnæðismálastofnunarinnar varðandi fsp, hv. þm. Ég vil svo bæta því við, að n., sem skipuð var af ráðh., vinnur að heildarendurskoðun löggjafar um húsnæðismál, Við þá endurskoðun verður m.a. fjallað um þau atriði sem fsp. beinist að, þ.e. aukna hagkvæmni og lækkun byggingarkostnaðar.