31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

329. mál, hlutur félagsheimilasjóðs af skemmtanaskatti

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það er nokkuð langt síðan þessi fsp. var fram borin. Ég sé að ég hef hér við hendina svar sem er dags. 21. 11., og það gefur bendingu um að við erum dálítið komnir út úr korti með þessa fsp: tíma. Ég ætla að reyna að svara þessu í sem allra stystu máli, en þó svo að fullnægjandi geti talist.

Fyrri spurningunni svara ég þannig: Hluti félagsheimilasjóðs af innheimtum skemmtanaskatti 1976 nam 72 324 025.

Við 2. lið verður svarið svona: Til byggingar félagsheimila voru á árinu veittar samtals 63 632 850 kr., sem skiptast þannig eftir kjördæmum: 1. Vesturlandskjördæmi 18 669 081 kr., vegna 14 félagsheimila. 2. Vestfirðir 7 077 687 kr., vegna 5 félagsheimila. 3. Norðurland vestra 3 616 621 kr., vegna 5 félagsheimila. 4. Norðurland eystra 9 163 754 kr., vegna 10 félagsheimila. 5. Austurlandskjördæmi 6 291 587 kr., vegna 5 félagsheimila. 6. Suðurlandskjördæmi 9 991 869 kr. vegna 13 félagsheimila. 7. Reykjaneskjördæmi 5 208 700 kr., vegna 9 félagsheimila. 8. Reykjavík 3 583 551 hr., vegna 7 félagsheimila. Þetta er samtals 63 632 850 kr. vegna 68 félagsheimila.

Í þessu yfirliti eru taldar styrkgreiðslur eins og þær voru samkv. úthlutun í des. 1976, án tillits til þess, hvort greiðsla fór fram fyrir eða eftir áramót, — það er stundum ofurlítið breytilegt, — og að viðbættum beinum greiðslum til hönnunaraðila á árinu 1976.

Þá er þess að geta, að samkv. lögunum skulu 10% af tekjum félagsheimilasjóðs renna í Menningarsjóð félagsheimila. Sjóðurinn þarf og að standa straum af greiðslum vegna skuldabréfa til 10 ára sem út voru gefin á árunum 1970 – 1971 vegna þáverandi skulda sjóðsins við félagsheimili.

Ég vil benda á það, að greiðslur til einstakra verkefna í tilteknum landshlutum geta að sjálfsögðu verið mjög breytilegar frá ári til árs. Þetta er nokkuð tilviljunum háð og nokkru ræður þar um þörfin og svo frumkvæði byggjenda á þessum eða hinum staðnum. En félagsheimilasjóður styður þau verk sem metin eru styrkhæf samkv. lögum og reglum, öll þau sem skylt er að styrkja, og einnig eru í nokkrum tilvíkum styrkt félagsheimili samkv. sérstöku heimildarákvæði í lögum um félagsheimili, þótt ekki sé bein lagaskylda að styðja þau, en það er þá gert að mati sjóðsstjórnar og ráðh. hverju sinni.