31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

105. mál, síldveiðar fyrir Norðurlandi

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv, sjútvrh. fyrir fróðlega grg. um þetta mál og þá ekki síður fyrir jákvæðar undirtektir undir efni fsp.

Ég held að kjarni þessa máls sé að reknetaveiðar í hóflegum mæli gætu veitt ýmiss konar upplýsingar sem okkur eru nauðsynlegar. Það er vitað að vorgotsstofninn, sem gekk vestur fyrir land, sameinaðist oft og tíðum norsk-íslensku síldinni fyrir Norðurlandi, og það er vitað, að þessir fiskstofnar hafa talsvert blandast saman. Þannig hefur síld hér fyrir Suðurlandi bæði verið sumargotssíld og vorgotssíld, og er nauðsynlegt að átta sig sem best á samsetningu stofnanna með einhverjum tilraunaveiðum. Þá er það auðvitað staðreynd, að síldin er langfeitust að sumrinu og best að vinna hana á þeim tíma, og því ber auðvitað sérstaklega að taka þann kost inn, ef hann reynist vænlegur.

Ég þykist vita að sjómenn hafi almennt ekki áttað sig á þeim reglugerðarákvæðum sem hæstv. sjútvrh, vitnaði til, enda eru þeir með nefið ofan í öðrum hlutum en reglugerðum. Ég er sannfærður um að þeir munu fagna þeirri yfirlýsingu sjútvrh., sem hann gaf hér áðan, að hann hefði ekki í hyggju að breyta þessu ákvæði og það lægi því opið fyrir að einhverjar reknetaveiðar fari fram fyrir Norðurlandi á næsta sumri.