31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

337. mál, réttindi grunnskólakennara

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 122 að bera fram svo hljóðandi fyrirspurn til hæstv. menntmrh.:

„Er ekki í undirbúningi af hálfu menntmrn. að gefa þeim, sem kennt hafa við grunnskóla undanfarin ár án prófs frá kennaraskóla, kost á að afla sér fullra réttinda með sumarnámskeiðum, bréfaskólanámi eða námskeiði við kennaraháskólann í uppeldis- og kennslufræðum?“

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í kennarastéttinni eru nú um þessar mundir fjöldamargir sem ekki hafa aflað sér fullra réttinda til kennslu. Raunar hefur svo verið um langt skeið. Þetta veldur að sjálfsögðu ýmsum vandamálum. Annars vegar verða þessir menn að sæta því að vera allmörgum launaflokkum neðar í launastiga en kennarar með full réttindi, jafnvel þótt þeir inni sömu störf af hendi og kannske í ýmsum tilvikum ekki með lakari árangri en þeir sem full réttindi hafa. Í öðru lagi kann að vera í vissum tilvikum að skortur á menntun geti valdið vissum vandamálum, einkum og sér í lagi ef um fáa réttindamenn er að ræða í einum og sama skólanum. En staðreyndin er sú, að víða úti um land hafa hinir réttindalausu kennarar bókstaflega talað haldið uppi kennslu í heilum byggðarlögum, og er hætt við að ef þeirra hefði ekki notið við hefði lítið orðið úr kennslu í mörgum skólum víðs vegar um land. Er því fyllsta ástæða til að reyna að átta sig á því, hvernig unnt sé að ráða bót á þessum vanda og þá fyrst og fremst á þann hátt, að þessir menn geti aflað sér fullra réttinda með því viðbótarnámi sem talið er að til þurfi.

Í þessu sambandi er rétt að vitna hér til þings Kennarasambands Austurlands, en það gerði ályktun nú í sumar um þetta mál, þar sem fram koma hugmyndir af svipuðu tagi og er hér gerð grein fyrir í fyrirspurnarformi. Ég vil leyfa mér að lesa bókun um þessa ályktun, en hún var svo hljóðandi:

„Samþykkt var að styðja tillögur sem Samband ísl. barnakennara sendi menntmrh. 14. apríl 1977, þar sem gert var ráð fyrir að þeir, sem kennt hafa við grunnskóla undanfarin ár án kennaramenntunar, eigi kost á uppeldis- og kennslufræðinámi við Kennaraháskóla Íslands fram til hausts 1989. Auk bréfaskóla og sumarnámskeiða, sem nefnd eru í tillögum Sambands ísl. barnakennara, telur fundurinn rétt að boðið verði upp á ársnám við Kennaraháskóla Íslands fyrir réttindalausa kennara og verði þeim veittir styrkir til námsins og námslán. Fundurinn samþykkir einnig þá stefnumörkun, að eftirtaldir aðilar hafi rétt til náms þessa, að fengnum meðmælum skólastjórnar og skólanefndar viðkomandi skóla:

a) Fólk með háskólapróf í sérgrein.

b) Fólk sem lokið hefur stúdentsprófi, fóstrunámi, verslunar- eða samvinnuskóla-, tónlistar- eða myndlistarnámi, iðn- eða tækninámi og hefur 5 ára kennsluferil.

c) Fólk með miðskólapróf eða gagnfræðapróf með 10 ára kennsluferil að baki.

Enn fremur að nefnd, skipuð fulltrúum kennarasamtakanna, menntmrn. og Kennaraháskóla Íslands fjalli um umsóknir til náms þessa og um undanþágur frá fyrrgreindum inntökuskilyrðum. Nefndin meti námskeið og annað nám að nokkru til móts við starfsreynslu og taki afstöðu til réttindaveitinga fyrir þá sem hafa mun lengri kennsluferil en tilgreindur er í c-lið.“

Ég hef leyft mér að vitna hér til þessarar samþykktar kennara á Austurlandi, fyrst og fremst vegna þess að þar kemur fram, að menntmrn. hefur fengið í hendur tillögur frá kennarasamtökum um þessi mál, og ég held að æskilegt væri að fá svör við því, hver afstaða rn, til málsins.