31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

337. mál, réttindi grunnskólakennara

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það gefst ekki mikill tími til umr. á tveimur mínútum, en út af þessari fyrirspurn, sem hér hefur komið fram og ég tel að hafi átt fullan rétt á sér, sé ég ásettu til að fagna því sem kom fram í máli hæstv. menntmrh. um það, að í undirbúningi sé frv. um embættisgengi kennara og að ætlunin sé að fara að opna einhverja námskeiðsleið fyrir kennara og þá í Kennaraháskólanum, þ.e.a.s. fyrir þá kennara sem hafa ekki svokölluð full réttindi. Ég sé líka ástæðu til að vekja athygli á því og fagna því, að unnið er að því að mynda samstöðu við kennarasamtökin um þetta réttlætismál hinna réttindalausu kennara. Mér skilst að þau séu nú farin að sýna þessu máli áhuga. Þess vegna sé ég ástæðu til að fagna því sem kom fram í svari menntmrh.

Hins vegar er þetta mál allt miklu stærra og yfirgripsmeira en svo, að það sé ástæða til að einskorða það við kennarasamtökin. Sannleikurinn er sá, að það er urmull af mönnum úti um allt þjóðfélagið sem vinna ýmis störf með fullum árangri, án þess þó að þeir teljist hafa þau sérstöku réttindi sem lög ákveða. Tilhneiging hefur verið ákaflega lengi, allt frá tímum gildanna á miðöldum og raunar miklu lengur, til þess að flokka menn mjög nákvæmlega á starfshópa. Persónulega hef ég nú alltaf verið nokkuð í vafa um réttmæti þessarar stífu flokkunar. Ég fagna hverju því spori sem stigið er af þjóðfélagsins hálfu til þess að gefa tækifæri mönnum sem geta ekki farið alveg nákvæmlega fyrirskrifaða leið til þess að ná réttindum.

Eins og ég segi, þá er þetta mál yfirgripsmikið og ég hef í huga ýmis dæmi sem ég hefði haft löngun til að nefna. Þetta á ekki einungis við um kennaramenntun og kennarastéttina, þetta á alveg sérstaklega við um iðnaðarstéttina, og þetta eru mál sem við þurfum að fara að taka okkur dálítið saman um að ræða á Alþ. Þegar við höfum loksins tíma til frá því að tala hér um hin svokölluðu efnahags- og fjármál, sem allir eru sérfræðingar í, en enginn finnur lausn á, þá held ég að væri mjög æskilegt að við gætum einmitt farið að snúa okkur að slíkum málum, að réttindamálum fólksins í landinu, fyrir utan kaupgjaldsmálin.

En ég vil þakka það, sem fram kom hjá hæstv. menntmrh. í þessu sambandi og undirstrika það, að þetta á ekki eingöngu við um kennaramenntunina. Þetta á mjög við um iðnaðarstéttirnar almennt, og þetta er í rauninni almennt vandamál sem við þurfum að ræða.