31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

337. mál, réttindi grunnskólakennara

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það hafa orðið nokkrar umr. um það atriði, hvenær ætti að leggja í það að setja reglur um að bæta úr því ástandi sem við höfum allir, hver á fætur öðrum, verið að fordæma hér. Ég vil taka undir með hæstv. menntmrh. um það, að auðvitað er nauðsynlegt að setja lög um þetta. Ef við förum út í það, sem vonandi verður, þá er alveg nauðsynlegt að þetta hafi stoð í lögum. Og ég álít að við hljótum að hafa biðlund til þess að bíða eftir frv. um embættisgengi kennara, ef það er í burðarliðnum.

Það hefur aðeins verið komið hér inn á Kennaraháskólann. Ég hygg að það hafi verið hv. þm. Helgi Seljan sem aðeins kom inn á það. Ég held að það væri óheppilegt fyrir okkur, ef skilja mætti umr. hér sem einhverja fordæmingu á Kennaraháskólanum. Ég held að það sé mjög óheppilegt, og þrátt fyrir það, sem ég hef sagt hér um þetta, vil ég ekki taka þátt í neinum þess háttar fordæmingaryfirlýsingum. Ég átti sæti á Alþ. þegar fjallað var um Kennaraháskólann, og mér var ljóst að það var hafður á of mikill hraði um það mál, það hefði átt að fara sér miklu hægar og líta á fleiri atriði. En hitt held ég að sé staðreynd, að það hafi verið eðlileg þróun að Kennaraháskólinn félli inn í þetta form sem hann hefur. En okkur var það öllum ljóst, þegar við fjölluðum um þetta mál hér á Alþingi fyrir nokkrum árum, að það yrði að endurskoða þetta mál, og það er verið að því. Ég hefði gjarnan viljað koma að ýmsum hugmyndum í sambandi við Kennaraháskólann. Ég held að það sé m.a. mjög nauðsynlegt, að skólinn sé sæmilega rúmur og að í starfsemi hans sé svigrúm. Sú hugmynd hefur t.d. lengi verið uppi að halda uppi kennaramenntun við Menntaskólann á Akureyri eða á Akureyri í tengslum við Menntaskólann, og ég held að það hafi verið mikill skaði að ekki var farið inn á þá braut þegar fjallað var um lög um Kennaraháskólann. Ég held að það sé nauðsynlegt og eðlilegt, að þeirri hugmynd sé haldið á loft, að enn verði að því stefnt og fundin leið til þess að halda uppi kennslu fyrir kennaraefni á Akureyri. Ég held að það yrði til stórra bóta fyrir dreifbýlið. Og ég er alveg sannfærður um að það yrði auðvelt mál að halda uppi fullkominni kennaramenntun á Akureyri.