31.01.1978
Sameinað þing: 42. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

48. mál, þjóðaratkvæði um prestkosningar

Ingiberg J. Hannesson:

Herra forseti. till. sú til þál., sem hér er á dagskrá, er nú endurflutt af hæstv, forsetum þingsins, og því mætti ætla að mikið lægi við að leiða til lykta þýðingarmikið mál. Því skal ekki neitað, að málið er mikilvægt, þar sem um er að ráða veitingu prestakalla og stjórnun kirkjunnar á þeim embættum sem henni heyra til. Um þetta mál hefur verið fjallað allmikið hér á Alþ., og þess vegna er ekki í þessu sambandi þörf á að tjá sig um það mál út af fyrir sig, a.m.k. tel ég að skoðun mín á málinu sé hv. þm, ljós, og skal ég því ekki eyða dýrmætum tíma þingsins í umr. um efnisatriði málsins, enda snýst þessi till, fremur um málsmeðferð en efnisatriði. Því vil ég fara nokkrum orðum um þá málsmeðferð sem hér er lagt til að gerði viðhöfð við afgreiðslu þessa máls.

Það hlýtur að vekja furðu almennings, svo að ekki sé meira sagt, að hv. Alþ., löggjafarsamkunda þjóðarinnar, skuli ekki sjá sér fært að afgreiða eins einfalt og augljóst mál og þetta, hvort kjósa skuli presta áfram til embættis í almennum prestskosningum eða skipa þá eftir þeim leiðum sem almennt ríkja um skipun hliðstæðra opinberra embættismanna. Ég neita því, að sérstaða prestsembættisins krefjist þess, að þyrlað sé upp moldviðri og stofnað til úlfúðar og sundurlyndis þótt veita skuli prestsembætti, svo einfalt mál sem það ætti að vera og auðvelt í framkvæmd ef rétt er að staðið.

Það hlýtur að fara að verða hv. þm. ljóst, ef það er ekki nú þegar, að almenningsálitið er orðið í vaxandi mæli á móti prestskosningum í núverandi mynd. Fólk skilur æ betur þann skrípaleik, sem þar fer tíðum fram, og frábiður sér þátttöku í slíku. Þess vegna má segja að þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, sé tilraun til að hreyta þessari skipan með því að láta fara fram þjóðaratkv. um þetta mál.

Nú efast ég ekki um góðan vilja hv. flm. till. að afgreiða þetta mál úr sölum þingsins í eitt skipti fyrir öll með þjóðaratkv. En hvers vegna á þennan veg? Hvers vegna getur þetta mál ekki fengið þinglega meðferð og afgreiðslu á löggjafarsamkomu þjóðarinnar? Er málið virkilega svo viðkvæmt að leita verði eftir þjóðaratkv. til að leysa það? Hvað þá um hin stærri málin? Er ekki rétt að leggja þau líka undir þjóðaratkv.? kannske fáum við að kjósa samhliða næstu alþingiskosningum bæði um prestskosningar og bjór og e.t.v. sitthvað fleira. Ég held að þá væri kominn tími til að hv, þm, hölluðu sér á eyrað og létu þjóðina skera úr um stærstu málin.

En hvar er þá komið þessari margumtöluðu virðingu og sóma Alþ., sem nú tíðkast mjög að ræða um, ef þarf að vísa frá sér máli eins og þessu? Nei, ég fæ ekki skilið hvernig á því stendur, að till. sem þessi kemur fram. Við verðum að hafa þrek til að ræða þessi mál hér á hv. Alþ. eins og önnur mál, og ég vænti þess, að n. sú, sem hæstv, kirkjumálaráðherra skipaði s.l. sumar til að fjalla um þetta, þ.e. veitingu prestsembætta, hraði störfum og skili áliti sem allra fyrst, Á grundvelli álits hennar er svo hægt að ræða málið hér í þingsölum og afgreiða það svo sem sóma og virðingu Alþ. sæmir og svo sem vilji hv, þm. stendur til.

Í till, þessari er gert ráð fyrir þjóðaratkvgr., og mér hefur skilist að ætlunin sé að þar fái allir þeir, sem á kjörskrá eru til alþingiskosninga, að greiða atkv. án tillits til þess, hvort þeir eru meðlimir þjóðkirkjunnar eða ekki. Nú er það vitað mál, að um 92% þjóðarinnar tilheyra þjóðkirkjunni. Eiga þá þessi 8% eða þar um bil, sem tilheyra ýmsum trúflokkum eða eru utan trúfélaga, að fá að hafa áhrif á skipan mála þjóðkirkjunnar og e.t.v. úrslitaáhrif? Á maður, sem er hatrammur á móti þjóðkirkjunni og hefur sagt sig úr lögum við hana, að fá að ráða því, hvernig málum hennar er skipað? Á vottur Jehóva eða Bahai að fá að hlutast til um málefni trúfélags sem þeir eru ekki meðlimir í og eru e.t.v. á móti svo að ég taki dæmi? Eða ætla hv. flm. að hlutast til um að gerð verði sérstök kjörshrá í þessu sambandi? Og hvað skeður svo, ef þessi till, verður samþykkt og ef þjóðaratkv. færi svo, að það yrði samþykkt að leggja niður prestskosningar? Hvað á þá að taka við? Hvernig á að veita prestsembættin? Þeirri spurningu er líka ósvarað, Ætli karpið héldi þá ekki áfram hér í þingsölum um málið?

Yfirmaður íslensku kirkjunnar hefur lýst yfir undrun sinni og raunar stórri furðu yfir þessum tillöguflutningi, en hann segir svo í synodusræðu sinni á liðnu sumri, með leyfi hæstv. forseta:

„Eitt mál Kirkjuþings vil ég nefna hér. Þetta nýkjörna þing með mörgum nýjum fulltrúum lýsti algerri samstöðu um að vilja afnema prestskosningar í núverandi mynd og fá prestaköll veitt með þeim hætti sem kirkjuþing hefur lagt til margsinnis, lengstum nær samhljóða. Nefnd var kosin á þinginu til þess að fylgja þessu eftir við Alþ., og var enn reynt að þoka einhverju áleiðis þar með því að endurflytja till. til þál. um að Alþ. hlutaðist til um nefndarskipun til athugunar á málinu. En þá var brugðið á næsta dýrt ráð til þess að koma í veg fyrir að Alþ. sýndi þó þetta tillit. Mun það vera einstakt frægðardæmi í sögu vestræns þingræðis, að þrír þingforsetar verði samstíga í svo snörpu hástökki af slíku tilefni.“

Þetta voru orð biskups. Samt er þessi till. endurflutt í óþökk yfirstjórnar kirkjunnar og undrun fjölmargra þeirra sem um þessi mál hugsa í einhverri alvöru.

Ég hef þessi orð ekki fleiri að sinni. Ég óttast, verði þessi till, samþykkt, að hægt verði að henda þessu máli í hálfkæringi á milli manna í hita almennrar kosningabaráttu um almenn þjóðmál, og hætt er þá við að það fái ekki þá meðferð né þá afgreiðslu sem það verðskuldar. Þess vegna vona ég að hv, Alþ. sjái nú loks sóma sinn í því að afgreiða þetta mál á þinglegan hátt á þessu þingi, fyrir væntanlegar þingkosningar, því að nóg eru dægurmálin til að þrasa um í hita þeirrar baráttu, þó að menn hafi þar ekki prestskosningar í flimtingum.