31.01.1978
Sameinað þing: 42. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1854 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

48. mál, þjóðaratkvæði um prestkosningar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það er kannske að bera í bakkafullan lækinn að fara enn þá að ræða um þetta eitt uppáhaldsmál okkar þings n!í og á undanförnum þingum. Það er nú ekki aldeilis að menn hafi þagað hér þunnu hljóði og ekki sýnt þjóðkirkjunni og fulltrúum hennar nægan sóma, því að fá mál hafa verið meir hér til umr. en einmitt þetta mál, og menn tala um það að mínu viti af meiri alvöru og meiri ákveðni heldur en um flest önnur mál, sem hér hafa verið rædd, vil ég segja.

Þessi till., sem hér er komin fram um þjóðaratkv., leiðir auðvitað til umr. almennt um þetta mál. Framsaga hv. 1. flm. till. var, eins og vænta mátti af hans hálfu, hógvær og skynsamleg í þá átt, að þarna væri reynt að finna lausn á þessu máli. Og ég get út af fyrir sig skilið það, að þeir, sem hafa áhuga á því að finna þarna aðra lausn jafnvel en þá sem við búum við nú, eitthvað í átt við það, sem Kirkjuþing og klerkar hafa verið að tala um, vilji gjarnan! fá að skjóta því máli undir dóm þjóðarinnar. Við því er ekkert að segja út af fyrir sig. Ég segi það hins vegar og tek undir það með hv. þm. Jónasi Árnasyni, að ég get út af fyrir sig stutt þjóðaratkv- um mál. Ég tel að það verði þá að vera mikil stórmál, þar sem um tvísýn úrslit er að ræða meðal þjóðarinnar, hvernig mál fari, og það stór, að þau varði þjóðina veruleika miklu, t.d. eins og sjálfsforræði hennar eða eitthvað því um líkt. Þrátt fyrir það að ég telji ástæðulaust að vera að efna til þjóðaratkvgr. um þetta mál út af fyrir sig, þá tel ég þó mikinn mun á þessu og hann gífurlegan hjá því sem var lagt til hér í till. fyrir jólin, að fyrsta þjóðaratkvgr. okkar frá stofnun lýðveldisins væri um það, hvort menn vildu bæta ofan á áfengisvandamál Íslendinga eða ekki. Þetta er auðvitað tvennt ólíkt og ólíkt skaplegra mál þó til að fara með undir þjóðaratkv. heldur en það mál.

Hv. þm. séra Ingiberg Hannesson minntist á það áðan, að þarna yrðu vandkvæði á varðandi þessi 8% sem væru ekki innan þjóðkirkjunnar. Það kann vel að vera, að þarna sé um nokkuð vandamál að ræða, og hv. þm. varð nokkuð tíðrætt um þessi 8% sem gætu kannske haft hér úrslitaáhrif á. En ég vil þá gjarnan að hv. þm. upplýsti prósentutöluna sem hefur verið að krefjast breytinga á því fyrirkomulagi sem við höfum núna. Hvað ætli sú prósentutala sé há? Er það ekki þetta margrómaða Kirkjuþing og lítið meira en það? Það væri fróðlegt að fá að sjá prósentuna á móti þessum 8%, sem var svo mikil hætta á að hefðu úrslitaáhrif. Hitt kann vel að vera, að það séu margir orðnir þreyttir á prestskosningum einmitt út af því, hvernig klerkastéttin hefur látið öllum illum látum út af þessu nú síðustu árin. Menn eru orðnir nokkuð þreyttir á því. Þeir eru orðnir þreyttir t.d. á því að heyra ungan guðfræðing lýsa baráttu sinni í prestskosningum þannig, að ég hef varla nokkurn tíma heyrt annað eins, og ég efast um að maðurinn fari með rétt mál í því efni, þar sem hann lýsir því fjálglega og óskaplega, vil ég segja, fyrir hverju hann hafi orðið í prestskosningum hér í Reykjavík. Ég neita að trúa því, að Reykvíkingar séu svo gerspilltur lýður eins og þessi guðfræðingur lýsir Reykvíkingum. Ég neita alveg að trúa því. Ég þekki a.m.k. ekki þennan lýð, sem betur fer, í mínu byggðarlagi eða neins staðar þar í kring, og ég vona að það sé ekki rétt, að svona lýður sé til hér, og það sérstaklega lýður sem hefur alveg sérstakan áhuga á prestskosningum og beitir sér alveg sérstaklega í prestskosningunni. Ég vona bara að guðfræðingurinn hafi fengið rangar upplýsingar í sambandi við þessa lýsingu sína, þetta sé ekki rétt, það hafi einhverjir gert þarna úlfalda úr mýflugu.

Ég þarf auðvitað ekki að endurtaka neitt varðandi afstöðu mína í þessu máli. Ég hef verið alveg fullkomlega á því, að við ættum að halda okkur við það fyrirkomulag sem við höfum haft á prestskosningum, en vera tilbúnir auðvitað til þess að laga þá agnúa sem á þeim eru í dag varðandi t.d. utankjörstaðaatkvgr. og annað því um líkt, færa það til nútímalegra horfs. Það tel ég sjálfsagt. Það er eiginlega það brýnasta sem ég tel í þessum efnum.

Ég veit ekki hvort almenningur furðar sig á því, að Alþ. skuli ekki afgreiða Þetta mál frá sér. Breytingin hefur ekki komið fram alveg beint á síðustu þingum. Till. til þál. um n. til að endurskoða lög um veitingu prestakalla fól auðvitað ekki í sér neina endanlega lausn eða afgreiðslu Alþingis á málinu. Það var margtekið fram einmitt og algerlega réttilega af hv. þm. séra Ingiberg Hannessyni, þegar hann flutti framsögu fyrir því máli. Það er hins vegar rétt, að ég held, að skoðun alþm. hafi komið nokkuð vel í ljós. Till. um að fella niður prestskosningar og breyta þá í það horf, að sóknarnefndir, fámennur hópur, kysu presta, eða þá að skipa menn beint í embætti, — ég held að sú breyting eigi ekki meirihlutafylgi hér á Alþ. Í því efni breytir auðvitað engu hvað sá ágæti maður, biskupinn, er að segja, að hann furði sig á því að menn skuli ekki bara hlýða hans raust og hans félaga. Það breytir vitanlega engu í þessu efni. Sem betur fer taka menn afstöðu í þessu máli út frá eigin sjónarmiðum, en fara ekki algerlega eftir einhverju ritúali.

Ég vil taka það fram í sambandi við öll þessi mál, að ég skil blátt áfram ekki þetta sem maður heyrir æ ofan í æ, að þessar kosningar séu óhemjulega miklu verri og meira mannskemmandi en aðrar kosningar. Ég neita að trúa því. Ég hef sjálfur tekið þátt í prestskosningum, gerði það á s.l. vori síðast. Ég varð ekki var við nokkurt slíkt. Þar voru tveir menn í framboði til prests. Það var töluverður hiti í mönnum með hvorum umsækjanda um sig, og menn ræddu um það, hvorn menn vildu heldur fá sem sálusorgara sinn. En ég heyrði ekki nokkurn skapaðan hlut mannskemmandi eða meiðandi í því sambandi. En ég heyrði annað og það get ég staðfest og vil koma hér að og segja mjög ákveðið, að bað voru ótrúlega margir sem sögðu þá, að nú hefði verið ljótt ef það hefði verið búið að taka af þeim þennan rétt að velja sér prest. Þeir voru ótrúlega margir og yfirgnæfandi meiri hluti ábyggilega í þessum söfnuði. Og það voru margar áskoranir sem mér bárust a.m.k. þá um að láta ekki bilbug á mér finna varðandi það að standa fast á skoðun minni í þessu efni og halda áfram að vera á móti þessari breytingu. Fólk var hins vegar sárt yfir því t.d., af því að það var fjarverandi, að mega ekki njóta síns eðlilega réttar og kjósa sér prest. Það er ekki hægt samkv. núgildandi lögum. Utankjörstaðaatkvgr. er þar ekki leyfð. Ég held að það sé auðvelt úr því að bæta.

Ég sem sagt álít að þessi till. sé gerð til sátta í þessu máli og til að koma þessu máli á þann veg, að allir geti um þetta fjallað við ákveðna þjóðaratkvgr. En ég er henni andvígur. Ég get ekki séð að til þessa sé nein ástæða, Ég gæti hins vegar stutt hana út af fyrir sig af þeim ástæðum, að ég er ekki hræddur við úrslit þessarar atkvgr., ég er sannfærður um hvernig hún fer — nema þá að Reykjavík sé orðin eins óskapleg og menn hafa verið að lýsa henni, að þar sé kominn upp einhver meiri hluti sem vill losna við þetta og láta taka þennan kaleik frá sér ef nokkur kostur væri. Það kann að vera.

En það er annað atriði, sem mér kom í hug í sambandi við þetta, og það er að nú starfar n. að þessum málum. Þrír nm. sitja hér í salnum, allt mætustu menn og ágætustu. Þessi n. var skipuð af dómsmrh. í sumar sem leið, að ég hygg, og hefur starfað vel og ég hygg skynsamlega að málum. En mér þótti galli á gjöf Njarðar varðandi þessa nefndarskipun, varðandi t.d. okkar þinglið, — þá tel ég hv. þm. Geirþrúði Hildi Bernhöft náttúrlega í þeim hópi, — að þrír menn skyldu úr þingliði skipaðir allir á sömu skoðun, yfirlýstri skoðun hér á Alþ. um þetta mál. Það hefði verið svolítið viðkunnanlegra hjá hæstv. dómsmrh., en hann er ekki hér viðstaddur og ekki hægt að fara nánar út í það, að hann hefði leyft einhverju öðru sjónarmiði hér á þinginu að komast inn í þessa n. Það kann að vera að það sjónarmið komi annaðhvort frá prestsfrúnni blessaðri, sem þarna er eða prestinum, þeim mæta manni, sem var sóknarprestur minn áður og er hinn ágætasti maður. Það kann vel að vera að þau sjónarmið hafi komið þar, en þau komu ekki úr þingliðinu, það er áreiðanlegt. Það er, að ég best veit, einlit hjörð, nema svo blessunarlega vilji til að einhver af þessum aðilum hafi skipt um skoðun.

Ég ætla aðeins að segja þetta núna, því að þetta er margrætt mál frá minni hálfu og skoðun minni verður ekki í þessu haggað. Ég tel afstöðu þess fólks, sem ég ræddi við í sumar og var að kjósa sér prest há, fullt eins marktæka og Kirkjuþings og jafnvel herra biskupsins yfir Íslandi. Og é,g hef ekki orðið var við í mínu nágrenni annað en að skoðanir Kirkjuþings ættu vægast sagt mjög litlu fylgi að fagna, enda þekkjum við Austfirðingar blessunarlega ekki, a.m.k. nú síðan ég fór að fylgjast með, — við þekkjum ekki dæmi um þennan hryllilega sora sem kemur inn í málin um leið og prestar birtast á vettvangi, að eigin sögn, til þess að láta velja um sig.