25.10.1977
Sameinað þing: 8. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

316. mál, ráðstöfun húsakynna að Staðarfelli

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er hefur á undanförnum árum dregið úr aðsókna nemenda að húsmæðraskólum landsins. Staðarfell er einn þeirra. Aðeins tveir skólar eru nú reknir á sama hátt og áður. Nokkrir skólanna hafa verið fullnýttir eða svo gott sem til námskeiðahalds í heimilisfræðum, bæði fyrir eldri og yngri nemendur, og þessi námskeið hafa verið með mjög misjafnri tímalengd, allt frá vikunámskeiði og allt upp í 4–5 mánaða námskeið. En á tveimur hinna gömlu húsmæðraskóla, að Laugalandi í Eyjafirði og Staðarfelli í Dölum, hefur kennsla fallið niður í bili.

Varðandi húsmæðraskólann á Staðarfelli hefur menntmrn. í hyggju í fullu samráði við heimaaðila, skólanefndina sérstaklega, að koma á fót sérkennslu að Staðarfelli fyrir þá sem þroskaheftir eru. Ætlunin var að hefja slíka starfsemi þegar í haust. Það var gerð starfs- og kostnaðaráætlun á fyrri hluta þessa árs og í sumar sótt um aukafjárveitingu í þessu skyni. En fjmrn. taldi það ekki unnt, þar sem hér var um verulegar fjárhæðir að ræða, að taka þessa fjárveitingu upp utan fjárl. Fjárveiting til þessarar fyrirhuguðu starfsemi er ekki heldur tekin upp í fjárlagafrv. fyrir 1918, en erindi um þetta liggur fyrir og verður tekið til meðferðar í fjvn. og á Alþ. með venjulegum hætti.

Ég geri mér vonir um það, að Alþ. verði við beiðni um fjárveitingu til þess að hefja á ný skólahald á Staðarfelli. Þar eru allmikil og að mörgu leyti ágæt húsakynni, og það virðist fráleitt að hugsa sér annað en nýta þau á einhvern þann hátt sem hagkvæmastur þykir.

Þörfin fyrir þá kennslu eða þá starfsemi, sem ég hef nú getið um að fyrirhuguð er af hálfu rn., er alveg ótvíræð. Það er ætlunin að þessi starfsemi verði í nánum tengslum og að nokkru leyti í umsjá eða undir handleiðslu Öskjuhlíðarskólans í Reykjavík, sem er aðalskólastofnun ríkisins á þessu sviði. Hér yrði um nýjung að ræða — tilraun mætti líka segja — sem við bindum miklar vonir við. Og ég vil benda á það, að einmitt með þessari tilhögun, að tengja starfsemina sérstaklega aðalskólanum hér í Reykjavík, þá ætti hún að geta þjónað bæði svæðunum í kring, byggðarlögunum, og svo landinu í heild í vissum tilvikum a.m.k.

Nýlega ráðinn sérkennslufulltrúi menntmrn., Magnús Magnússon, fyrrv. skólastjóri við Öskjuhlíðarskólann, hefur haft forustu um að vinna að slíkri áætlun um rekstur að Staðarfelli. Og ég legg áherslu á það, að hér er fyrirhuguð skóla-og fræðslustarfsemi. Það verður stefnt að því að hjálpa þeim, sem að Staðarfelli leita, til þess að komast sem fyrst til náms og starfa á hinum almennu kennslu- og vinnustöðum. Það er m.ö.o. ekki stefnt að því, að væntanlegir nemendur dveljist langtímum saman á Staðarfelli. Hér yrði um hæfingarstofnun að ræða, en ekki dvalarheimili og því síður geymslustað.

Það hefur verið menntmrn. mikill stuðningur og jafnvel hvatning fyrir þessa áætlanagerð, hversu velviljuð skólanefnd Staðarfellaskóla hefur verið þessum hugmyndum og áhugasöm um það, að Staðarfell gæti á ný tekið til starfa í þágu uppeldismálanna, þótt í breyttu formi væri. Einnig hafa tveir hv. þm. Vestlendinga, þeir Ásgeir Bjarnason og Friðjón Þórðarson, lagt þessu máli lið.

Ný og breytt viðhorf í skólamálum, í byggingarmálum skólanna, skólaskipan og innri gerð skólanna, afleiðing breyttra hátta á ýmsum sviðum í raun og veru, hafa valdið því, að verkefni einstakra skóla hafa raskast, og það verður eitt af mörgum viðfangsefnum við setningu nýrrar löggjafar um framhaldsskólastigið og framkvæmd nýrrar skipunar að skipuleggja skólastarfið í landinu þannig að þau skólamannvirki, sem fyrir eru, verði nýtt á sem haganlegastan hátt.