02.02.1978
Sameinað þing: 43. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

140. mál, vegáætlun 1977-1980

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 280 er till. til þál. til vegáætlunar fyrir árið 1978. Við afgreiðslu vegáætlunar 1977–80 29. mars 1977 gerði ég grein fyrir því, að of skammt væri gengið um fjárveitingar til vegamála á árinu 1977. Þáltill. gerði ráð fyrir að fjárveiting til vegáætlunar hækkaði úr 5650 millj. 1977 í 7000 millj. kr. 1978. Þrátt fyrir þetta var mér ljóst að of lítið var að gert með þessari hækkun fjárveitingar til vegamála á árinu 1978, m.a. vegna verðbólgu sem var áætluð um 30%. Enn fremur hnigu allar umr. hér á hv. Alþ. í þessa sömu átt. Þess vegna var það við síðari umr. um vegáætlun hér á hv. Alþ. 28. mars að ég flutti svo hljóðandi yfirlýsingu fyrir hönd ríkisstj.:

„Enda þótt vegáætlun sé gerð til fjögurra ára og endurskoðun samkvæmt vegalögum ekki ráðgerð fyrr en á Alþ. 1978–1979 hefur ríkisstj. ákveðið að láta endurskoða fjárframlög til vegamála á Alþ. þegar á næsta hausti. Mun það gert í tengslum við fjárlagagerð og lánsfjáráætlun, þannig að það fé, sem til vegamála er ætlað árið 1978, verði aukið. Ríkisstj, mun einnig beita sér fyrir því, að lög um happdrættislán vegna Norðurvegar og Austurvegar nái tilgangi sínum þó að nokkru seinna verði en ætlað var. Verða samkv. þessari yfirlýsingu vegamálin tekin á ný til afgreiðslu hér á hv. Alþ. á hausti komanda.“

Samkvæmt 10. gr. vegalaga ber að endurskoða vegáætlun er hún hefur gilt í tvö ár og bæta þá tveimur nýjum árum við. Samkvæmt þessu lagaákvæði á að endurskoða gildandi vegáætlun á haustþingi 1978. Því er till. sú, sem hér er til umr., að formi til stíluð sem breyting á gildandi vegáætlun og varðar aðeins árið 1978.

Skal nú vikið að almennum og einstökum atriðum í till. Í heild má segja að till. feli í sér mjög verulega hækkun á ráðstöfunarfé fyrir árið 1978 frá gildandi vegáætlun, hvort sem miðað er við fjárhæð eða framkvæmdamagn.

Um útgjöldin er það að segja, að heildarútgjöld samkvæmt till. eru 9300 millj. kr. á móti 5650 millj. kr. árið 1977. Hækkun í krónutölu er því 3 milljarðar 650 millj, kr. eða 65% frá árinu 1977. Magnaukning er hins vegar um 26%, ef gert er ráð fyrir að verðlag hækki um 30% á milli áranna 1977 og 1978.

Magnaukningin kemur fram á flestum liðum og hækka helstu liðir hlutfallslega sem hér segir: Viðhald að sumarlagi um 31%, að vetrarlagi um 26%, nýbyggingar vega og brúa um 18%, sýsluvegir um 100% og vegir í kaupstöðum og kauptúnum um 37%.

Heildarútgjöld í gildandi vegáætlun 1978 voru 7 milljarðar. Í þeirri tölu var við gerð vegáætlunar s.l. vetur reiknað með áætluðum verðhækkunum til ársins 1978, sbr. lið 2 á bls. 4 í aths. við till. þessa.

Skal fyrst vikið að fjáröflun, þ.e. kafla í i tillögunni:

Heildarfjáröflun samkvæmt till. er 9300 millj. kr. í stað 7000 millj. kr., eins og áður var fram tekið. Hækkunin er 2300 millj. kr. eða 33%. Mest munar þar um hækkun á mörkuðum tekjustofnum, en þeir hækka um einn og hálfan milljarð, úr 4300 millj. í 5800 millj. kr.

Bensíngjaldið er nú 36.50 kr. af lítra. Er hluti bensíngjaldsins af útsöluverði bensíns 32% og hefur aukist hlutfallslega með nýsamþykktum lögum, nr. 78/1977, um breyt. á I. um fjáröflun til vegagerðar. Lægst var þetta hlutfall um 25% á s.l. ári. Bensínsala var á s.l. ári rúmlega 114 milljónir lítra, og gert er ráð fyrir að hún aukist um 7% á þessu ári.

Ríkisframlag hækkar um 400 millj. kr., og jafngildir það söluskattstekjum af hækkun bensíngjaldsins.

Lánsfjáröflun til Norður- og Austurvegar hækkar um 300 millj. kr., í 800 millj., og önnur lánsfjáröflun um 100 millj., úr 1300 í 1400 millj. kr.

Hefur hlutdeild markaðra tekna og ríkisframlag í heildarfjáröflun aukist með þessu, og lítur samanburður síðustu ára þannig út:

Markaðar tekjur 1976 voru 54.8%, 1977 57.9%, en 1978 62.4%. Ríkisframlag var 1976 11.2%, 1971 13.8% og nú 14%. Lánsfé var 34% 1976, 28.3% 1977 og 23.6% 1978. Nánari sundurliðun er í athugasemdum við till., á bls. 3, lið 1.1 og 1.2.

Við brtt. við vegáætlun nú eru verðhækkanir til 1978 áætlaðar að nýju. Sú áætlun er sýnd í aths. við till., á bls. 4, í aths. við lið 2, og eru þær verðhækkanir áætlaðar meiri en var við gerð gildandi vegáætlunar á s.l. ári.

Til þess að ná sama framkvæmdamagni og gert var ráð fyrir að næðist með 7000 millj. kr. útgjöldum í gildandi vegáætlun þyrfti samkvæmt þessum útreikningi 8 milljarða 240 millj. kr. Magnaukning heildarútgjalda er því 1060 millj. kr. eða 13% frá því sem er í gildandi vegáætlun. Þessi magnaukning kemur nærri öll fram í tveimur liðum, þ.e. nýbyggingu vega og brúa, sem hækkar um 930 millj. kr. eða um 27%, og á vegum í kaupstöðum og kauptúnum — vegna aukinna markaðra tekna — um 96 millj. kr. eða 16%.

Um kafla 2.3, útgjöld til einstakra málaflokka, er eftirfarandi að segja:

Liðurinn Stjórn og undirbúningur hækkar einungis sem kostnaðarhækkun nemur. Í gildandi vegáætlun var gert ráð fyrir að fjölgað yrði föstum starfsmönnum á ríkiskjörum um þrjá menn: tvo tæknifræðinga og einn mælingamann, á áætlunartímabilinu 1977–1980. Í raun mun þó Vegagerð ríkisins hafa treyst því, að þessi starfsliðsfjölgun kæmi á fyrri hluta tímabilsins, þ.e. einn 1977 og tveir á árinu 1978. Kostnaðurinn mun láta nærri því að vera 10 millj. kr., og ern viðkomandi sérfræðingar starfandi lausráðnir nú þegar hluta ársins og ekki annað sjáanlegt en svo verði áfram. Á síðasta ári, við gerð vegáætlunar 1977–80, sótti Vegagerðin um 11 nýjar stöður, en samgrn. féllst aðeins á 3, svo sem fyrr er sagt. Vegna tölvuvinnslu á bókhaldsgögnum hefur ekki reynst nauðsynlegt að manna allar heimilaðar stöður á vegamálaskrifstofunni og eru þar nokkrar ómannaðar stöður nú. Ef heimild réttra aðila fæst til að færa þessar ónotuðu stöður skrifstofunnar til, þannig að tæknimenn kæmu í þeirra stað, yrði heildartalan óbreytt. Í árslok 1976 voru heimilaðar stöður 136, en ársstarfsmenn voru alls 477, að meðtöldum þeim sem taka kaup samkvæmt kjörum stéttarfélaga.

Á viðhaldi þjóðvega er hér lagt til að sú breyting verði gerð, að vegmerkingar, sem í gildandi vegáætlun eru sjálfstæður liður, verði felldar inn í sumarviðhald og viðhaldið skiptist einungis í tvennt: sumarviðhald og vetrarviðhald.

Í aths. með till. að vegáætlun 1977–80 var gerð ítarleg grein fyrir þörf á auknu fjármagni til viðhalds. Var og lögð áhersla á þetta í framsöguræðu fyrir till. Í meðferð Alþ. voru fjárveitingar til viðhalds 1977 lækkaðar um 95 millj., og þar við bætist að verðhækkanir urðu meiri en áætlað hafði verið. Olli þetta hvort tveggja því, að fjárveiting til viðhalds var að raungildi lægri en gert var ráð fyrir. í gildandi vegáætlun var gert ráð fyrir umtalsverðri hækkun viðhaldsfjár árið 1918, og er þeirri stefnu haldið við þessa endurskoðun nú, þannig að viðhaldsfé er hækkað í samræmi við breytt verðtag. Till. um fjárveitingu 1978 er 72% af því er Vegagerðin telur að þörf væri á í sambandi við viðhald vega. Er mjög brýnt að haldið verði áfram á næstu árum að auka viðhaldsféð að því marki, að halda megi vegakerfinu í sem bestu ástandi.

Um vetrarviðhald er það að segja, að nýjar snjómokstursreglur tóku gildi í ársbyrjun 1977. Var áætlað, að hinar nýju reglur hefðu í för með sér um 25% aukningu á útgjöldum til þessa liðar, og við það miðað í till. að gildandi vegáætlun fyrir 1977. í meðferð Alþ. var þessi fjárveiting lækkuð um 65 millj. kr. Raunkostnaður 1977 bendir hins vegar til þess, að upphaflega áætlunin hafi verið nærri lagi, og er í till. nú miðað við upphaflegu till. að gildandi áætlun, reiknað til verðlags 1978.

Til nýrra þjóðvega og brúa svo og fjallvega eru áætlaðar samkvæmt tillögunni 4 milljarðar 315 milljónir kr. Er það hækkun um 1368 millj. kr. eða 46% í krónutölu af fjárveitingu 1978 í gildandi vegáætlun. Sé tekið tillit til verðhækkana er magnaukningin 930 millj. kr. í þessum liðum eða 27%. Þetta viðbótarfjármagn skiptist hlutfallslega nokkuð jafnt til stofnbrauta, þjóðbrauta og brúa. Þó er hlutur brúnna drýgstur, og stafar það af því, að margar hinna eldri brúa á aðalleiðum vegakerfisins lýjast mjög undan sívaxandi þungaumferð og öryggi þeirra er stefnt í hættu.

Hin nýju ákvæði um sýsluvegi, sem samþ. voru með vegalagabreytingu nr. 113/1976, koma nú í fyrsta sinn fram í ríkisframlagi til sýsluvega. Eru þannig áætlaðar 340 millj. kr. til sýsluvega samkvæmt till. nú, en voru 129 millj. kr. 1977.

Fjárveiting til vega í kaupstöðum og kauptúnum er í till. hækkuð og verður 706 millj. kr., en var 396 millj. kr. 1977, í samræmi við markaða tekjustofna.

Halli á vegáætlun 1976 varð endanlega um 108 millj. kr., og halli 1977 er áætlaður 130 millj. Er meiri hluti hans vegna kostnaðar við vetrarviðhald umfram áætlun, eins og skýrt er frá hér að framan og í aths. við till. Heildarhalli í árslok 1977 var því 236 millj. kr. Af þessum halla er lagt til að greiða 60 millj. 1978, en yfirfærðar verði 176 millj. kr. til ársins 1979.

Í sambandi við vegamálin vil ég og geta þess, að auk þeirra útgjalda, sem koma fram í vegáætlun, greiðir ríkissjóður beint vexti og afborganir af lánum sem tekin hafa verið til vegagerðar á undanförnum árum. Áætlað er að þessar greiðslur verði 1978 sem hér segir: Vextir og verðbætur um 1046 millj. kr. og afborganir 723 millj. kr. Samtals er þetta 1769 millj. kr. Sé vöxtum og verðbótum bætt við útgjaldatölu vegáætlunar verða heildarútgjöld ríkissjóðs til vegamála 10 milljarðar 346 millj. kr. Sambærilegar tölur fyrir næstu ár á undan eru 5 milljarðar 487 millj. kr. 1976 og 7 milljarðar 340 millj. kr. 1977.

Í sambandi við vegamálin á s.l. ári er rétt að geta þess, að verulegur árangur náðist þar í nokkrum stórframkvæmdum, T.d. hafa Oddsskarðsgöng nú verið tekin í notkun. Þó að því verki sé ekki enn að fullu lokið hefur það orðið mikil samgöngubót fyrir Neskaupsstað í lok síðasta árs og það sem af er þessu ári. Gera verður ráð fyrir því í vegáætlun nú að ljúka þessu verki. Sama má segja um framkvæmdirnar á Holtavörðuheiði. Þær hafa náð vissu marki og hafa haft mikil áhrif á umferðina um heiðina á þessum vetri. Sama er að segja um Hvalnesskriður sem nú er farið að fara til þess að losna við umferð yfir Lónsheiðina. Hefur það bætt verulega úr umferð þangað austur, svo sem kunnugt er, jafnvel þó að sé um bráðabirgðarúrlausn að ræða. Þessi tvö stóru verkefni þarf einnig að taka til athugunar á þessu ári. Við Borgarfjarðarbrúna náðist verulegur árangur. Lokið var við að steypa stöplana undir brúna og byrjað að leggja bita á milli stöpla. Er stefnt að því að reyna að steypa brúna á næsta ári. Haldið var áfram með olíuborið slitlag á Austurveg, Var nú komið austur fyrir Þjórsá og náðist þar nokkur árangur. Einnig var Þingvallavegurinn lagfærður með slitlagi, svo sem kunnugt er. Ber brýna nauðsyn til að vinna að því verki áfram eins og þeim sem ég hef nefnt.

Að þessu sinni ætla ég ekki að fara út í einstök verkefni frekar en orðið er, enda verður verkefni þingsins að skipta þeim fjármunum sem hér er um að ræða, því þeim er ekki skipt á einstaka liði frekar en venja er.

Um samgöngumálin vil ég segja það, að mér er fullkomlega ljóst og engum kannske ljósara en mér, að til þeirra mála hafa ekki verið veittar fjárveitingar svo sem nauðsyn bar til á síðustu árum. Hitt held ég að sé þó jafnljóst, að það hefur unnist mjög vel úr þessu fjármagni sem Vegagerðin hefur haft handa á milli, og hefur það sést, þar sem víða í kauptúnum landsins eru nú komnar olíubornar götur sem áður voru ryk og forað.

Sama verður að segja um sýsluvegina. Er hin mesta nauðsyn að endurbæta þá vegna hinnar miklu umferðar, eftir að tankvæðingin kom í sambandi við mjólkurflutningana og keyrsla barna í skóla daglega.

Þá hefur það og komið í ljós, að auknar greiðslur vegna lána til framkvæmda fyrri ára hafa komið til á þessum árum, og hefur það að nokkru dregið úr framkvæmdum í vegagerð nú.

Ekki þarf heldur orðum að því að eyða, að hin gífurlega hækkun, sem varð á olíu, hefur haft áhrif hér á landi í sambandi við vegamálin vegna þeirra fjármuna sem hafa verið lagðir í orkumálin til þess að hraða hitaveitum og öðrum slíkum nauðsynjaframkvæmdum. Hefur Vegagerðin goldið þess. Og einnig varð bensínskatturinn henni ekki eins verðmætur og áður var vegna verðbreytinga á bensíninu sjálfu, Hitt er jafnljóst og kannske aldrei ljósara en í nútímaþjóðfélagi, að vegaframkvæmdir eru mikið hagsmunamál fyrir þjóðarheildina og fyrir okkur Íslendinga er mikill sparnaður í gjaldeyri að búa vel að okkar vegum. Ef við berum okkur í þeim efnum saman við aðrar þjóðir, þá er það mitt mat, að því litla leyti sem ég hef kynnst þeim málum, að við stöndum einna verst að vígi. Ég er alveg sannfærður um að það er mjög hagkvæmt fyrir þjóðfélagið í heild að leggja meira í vegina til þess að forðast kostnað við viðhald á bifreiðum og það mikla slit sem á þeim verður. Það er því von mín, að því átaki sem nú hefur verið gert í vegamálum, sem er verulegt, verði haldið áfram. Ef fram verður haldið þeirri sókn sem nú hefur verið hafin, þá munu þessi mál breytast mjög til batnaðar á næstunni, og ég tel allt mæla með því að svo verði gert.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess við þessa umr. að gera frekari grein fyrir þáltill. þessari, enda fylgir henni ítarleg grg. Ég legg því til að að lokinni þessari fyrri umr. verði till. vísað til síðari umr, og hv, fjvn.