07.02.1978
Sameinað þing: 44. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

148. mál, hollustuhættir í síldar- og fiskimjölsverksmiðjum

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á nokkrum síðustu árum hefur vaknað áhugi á því að hyggja betur að vinnustöðum fólks en gert hefur verið um áratugi, gera meiri kröfur í þessum efnum. Það hefur runnið upp fyrir fjölda manns að fólk hefur sætt sig við að eyða vinnutíma sínum dag eftir dag meginþorra ævinnar í umhverfi sem oft og tíðum er ekki aðeins óvistlegt og óhreint, heldur getur verið á margan hátt beinlínis hættulegt. Það hefur runnið upp fyrir mönnum, hversu gífurlegt ósamræmi er á milli þess, hvaða kröfur eru gerðar til vinnustaðarins annars vegar og til heimilis, skóla, samkomustaðar eða nálega hvaða íverustaðar manna hins vegar. Alþfl, hefur undanfarin ár flutt frv. og till. sem ganga í þessa átt og fengið góðar undirtektir, svo að sýnilegt er að áhugi á þessum málum er mjög víðtækur hér á landi Ég hef með þessari fsp. tekið fyrir aðeins eina íslenska atvinnugrein, þar sem mér raunar virðist ástandið í þessum efnum vera með versta móti, og er gerð tilraun til þess með fsp. að draga fram hversu mikið heilbrigðisyfirvöld hafa kynnt sér ástandið á þessu sviði og hvernig það í raun og veru er frá þeirra bæjardyrum. Fsp. er beint til hæstv. heilbrrh. og hún er um hollustuhætti í síldar- og fiskmjölsverksmiðjum. Hún er í þremur liðum, og eru þeir á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hafa verið gerðar fullnægjandi rannsóknir á hollustuháttum í síldar- og fiskimjölsverksmiðjum, svo sem hættum starfsliðs af hávaða, rykmyndun og varhugaverðum efnasamböndum, almennum óþrifnaði og ólykt?

2. Hefur heilbrrn. sett reglur um mengunarmörk og önnur skilyrði, sem þessar verksmiðjur verði að uppfylla til að fá starfsleyfi?

3. Hafa allar þær verksmiðjur, sem starfað hafa síðustu ár og nú starfa, m.a. loðnubræðslur, uppfyllt þau skilyrði og fengið starfsleyfi með eðlilegum hætti?“