25.10.1977
Sameinað þing: 8. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

316. mál, ráðstöfun húsakynna að Staðarfelli

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég fagna þeim upplýsingum sem hafa komið fram hér um notkun Staðarfellsskólans til sérkennslu barna í Vesturlandskjördæmi og á Vestfjörðum. Mér var raunar kunnugt um þetta áður, og mér var líka kunnugt um það sem ég hlýt að vísu að harma, að ekki skyldi verða hægt að framkvæma áætlun menntmrn. um að hefja kennslu nú þegar á þessu hausti. Ég vona og ég tek undir orð síðasta ræðumanns, hv. 5. þm. Vesturl., að Alþ. muni taka það fjármagn, sem til þarf, á fjárlög 1978. Hér er mjög mikið og aðkallandi nauðsynjamál á ferð.

Þó er ekki fyrir að synja, að í framtíðinni hljótum við auðvitað að stefna að því að hafa þess konar sérkennslustofnun í hverjum landsfjórðungi. Það er óendanlega mikið fengið með því að þurfa ekki að senda þroskaheft börn allt of langt frá foreldrahúsum og heimili. Ég hygg þó og við, sem höfum sérstakar áhyggjur í þessu efni út af Vestfjörðum, að þetta sé eftir öllum aðstæðum að dæma góð lausn. Á það ber að líta, að mjög mikill skortur er á sérmenntuðu fólki, þannig að hæpið er, jafnvel þótt húsakostur væri fyrir hendi, að kennslukraftar væru fáanlegir.

Ég skil að vissu marki trega Vestlendingsins hv. 4. þm. Ingibergs Hannessonar, að húsmæðraskólinn skuli lagður niður. En eins og hann sagði, þetta er þróun tímans. Húsmæðrafræðslan er að færast inn í gagnfræðaskólana og inn í grunnskólann meira og meira, og mér hefur raunar fundist oft, þegar á undanförnum árum hefur verið hnýtt ómaklega í húsmæðraskólana, að þá sé það í nokkurri þversögn við þá almennu skoðun, að verknámi eigi að sýna meiri rækt og heiður en verið hefur, þannig að þarna hefur verið um beina þversögn að ræða.

En tími minn er búinn. Ég vona að okkur takist að koma þessu áleiðis á næsta ári, og ég vil fagna því einnig, að nú loks er komin frá menntmrn, reglugerð um sérkennslu, þar sem þessum málum er loksins fundinn staður, a.m.k. á blaði, í menntakerfinu.