07.02.1978
Sameinað þing: 44. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (1633)

336. mál, framkvæmdir á Hrafnseyri til minningar um Jón Sigurðsson

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að gera fyrirspurn til forsrh, um framkvæmdir á Hrafnseyri til minningar um Jón Sigurðsson. Ég þarf ekki að hafa langan formála að þessari fyrir spurn. Það vita allir, hvers vegna Hrafnseyri er staður sem vert er að minnast þegar minnst er Jóns Sigurðssonar. Það er ekki nýtt að þessi staður sé þjóðinni hugstæður sem fæðingarstaður Jóns Sigurðssonar. Á 100 ára afmæli Jóns Sigurðssonar var þess minnst á þann veg, að þá var reistur veglegur bautasteinn um Jón Sigurðsson að Hrafnseyri, og þótti öllum sjálfsagt og vel við eigandi.

Þegar kemur að lýðveldisstofnuninni árið 1944 vaknar sú spurning, hvort ekki sé rétt í því sambandi að gera eitthvað á Hrafnseyri til minningar um Jón Sigurðsson, sem svo mjög er tengdur lýðveldisstofnuninni og sjálfstæði þjóðarinnar. Á þessari hugsun byggðist það, að árið 1944 lögðu fjórir alþm., Ásgeir Ásgeirsson, Einar Olgeirsson, Gunnar Thoroddsen og Bjarni Ásgeirsson, fram till. á Alþingi til þál, á þessa leið:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj, að fela n. þeirri, er skipuð verði til að undirbúa hátíðarhöld vegna lýðveldisstofnunar á Íslandi, að rannsaka og gera till. um nauðsynlegar framkvæmdir á Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar.“

Í upphafi grg. með þessari till. segir: „Flm. þykir það tilhlýðilegt, að fæðingarstað Jóns Sigurðssonar sé nokkur sómi sýndur í sambandi við lýðveldisstofnun á Íslandi.“

Þessi þáltill. var samþ. 10. mars 1944, og þá gerist það næst, að lýðveldisnefnd snýr sér að þessum málum, fer til Hrafnseyrar og ræðir við ýmsa aðila um hvað gera skuli. Í framhaldi af þessu er lögð fram þáltill. á þinginu 1944–1945 af sömu flm. og áður, nema Gunnari Thoroddsen, en nú er flutningsmaður í hans stað Gísli Jónsson. Þessi þáltill. gerði ráð fyrir að ríkisstj, skipaði n. til að stýra framkvæmdum á Hrafnseyri við Arnarfjörð í minningu Jóns Sigurðssonar. Till. var samþ. 16. jan. 1945.

Í grg. með þessari till. benda flm. á ýmis atriði sem til greina geta komið varðandi farmkvæmdir á Hrafnseyri, og er þar m.a. talað um að þar sé kirkjustaður og eigi að vera prestssetur. Það er rætt um barnafræðslu í Auðkúluhreppi. Það er rætt um skógrækt. Og það er vikið að samgöngum varðandi Hrafnseyri og bent á að þær séu ekki góðar um þær mundir. En síðan þetta var sagt hefur margt skeð og ýmislegt verið gert á Hrafnseyri, en að því er virðist brostnar forsendur fyrir sumu sem ætlað var, en að mínu viti og ég hygg fleiri minna gert í öðrum efnum sem vert hefði verið að gera.

Nú er það svo, að með tilliti til þessa er ekki óeðlilegt að sú spurning vakni, hvort eitthvað verði nú gert til að betrumbæta í þessum efnum í sambandi við merkisár sem nú er framundan, þar sem er hundraðasta ártíð Jóns Sigurðssonar árið 1979.

Með tilliti til þessa alls hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fyrirspurn til hæstv. forsrh.:

„1. Eru fyrirhugaðar frekari framkvæmdir á Hrafnseyri til að efla staðinn í minningu Jóns Sigurðssonar?

2. Er ætlunin að minnast hundruðustu ártíðar Jóns Sigurðssonar árið 1979 með sérstökum framkvæmdum á Hrafnseyri?

3. Hvert er hlutverk Hrafnseyrarnefndar?“