07.02.1978
Sameinað þing: 45. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

48. mál, þjóðaratkvæði um prestkosningar

Ingiberg J. Hannesson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka aftur til máls við þessa umr., þar sem ég taldi að ég hefði sett fram mín sjónarmið í ræðu um daginn um þessi efni. En vegna tilefna, sem komið hafa fram í ræðum manna, sé ég ástæðu til að segja nokkur orð nú.

Þessi umr., sem átt hefur sér stað hér um þetta mál, sýnir raunar í hnotskurn, að þegar ræða skal um þetta mál hér á Alþ. er eins og hv. þm., sumir hverjir a.m.k., umhverfist og ræði þá um atriði sem í raun og veru eru ekki til umr. Ég hélt nefnilega að hér væri verið að ræða spurninguna um það, hvort við ættum að láta þetta mál undir þjóðaratkv., en ekki hitt, hvort við ættum að halda áfram að kjósa presta eða ekki, því að það hlýtur að koma að því, að það verði rætt síðar, ef þessi till. um þjóðaratkvgr. verður samþ. og þjóðaratkvgr. fer á þann veg að það þyrfti um það að fjalla nánar. Þaðan af síður hefði ég haldið að við værum að ræða hér um biskupskjör og önnur þau atriði í skipulagi kirkjunnar sem mætti vissulega ræða hér á Alþ. við tækifæri. En ég tel þau mál ekki vera hér til umr. að þessu sinni. Eins og ég gat um í síðustu ræðu minni, tel ég hér vera um málsmeðferð að ræða, en ekki efnisatriði.

Það hefur verið vitnað hér í ummæli biskups, bæði af ræðumönnum nú í dag og eins fyrir nokkrum dögum við þessa umr. og sjálfur vitnaði ég í opinber ummæli hans í synodusræðu. Og ég vil taka það fram strax út af ummælum hv. þm. Þorvalds Garðars Kristjánssonar, forseta Ed. Alþ., þar sem hann segir, að ég hafi teflt fram á ósmekklegan hátt ummælum biskups, að ég get ekki tekið undir það, því að ég sé ekkert ósmekklegt við að vitna í opinbera ræðu yfirmanns kirkjunnar í sambandi við þetta mál, því að hér er um að ræða eitt af skipulagsatriðum sem varða kirkjuna og þess vegna hljótum við að taka tillit til þess sem yfirmaður hennar segir um málið. Þm. hafa svo að sjálfsögðu leyfi til að hafa sína skoðun. En ég tel ekki ósmekklegt að vísa til þessara ummæla. Hitt tel ég miklu frekar ósmekklegt, að kasta steini að þessum embættismanni á þann hátt sem sumir ræðumenn hafa hér gert að honum fjarverandi, þar sem hann hefur ekki möguleika til þess að verja sig á þessum vettvangi. Það tel ég miklu frekar ósmekklegt heldur en að vitna til þessara orða sem eiga beinlínis við um þetta mál.

Í fyrri ræðu minni spurði ég hvort mönnum þætti sanngjarnt og eðlilegt að þau 8% þjóðarinnar, sem ekki eru í þjóðkirkjunni, fengju að segja álit sitt við þjóðaratkvgr., þar sem mér skilst að sama kjörskrá eigi að gilda í slíkri þjóðaratkvgr. og við alþingiskosningarnar sjálfar. Það hefur verið vitnað til þessara orða minna og ég hef verið spurður að því, — ég má segja að það hafi verið hv. þm. Helgi Seljan sem það gerði, — hver sú prósenta væri innan þjóðkirkjunnar sem krefðist þess, að þetta mál væri tekið fyrir, þ.e.a.s. afnám prestskosninga. Nú hlýtur hv. þm. að vera það ljóst, að það hlýtur að vera ærið erfitt fyrir mig að gefa upp prósentutölu í þessu sambandi, vegna þess að það er engin „statistík“ til yfir það. Enda er það nú það, sem um er spurt í raun og veru, hversu mikill hluti þjóðarinnar er þessu máli fylgjandi, og þess vegna get ég engar tölur gefið um það. Þessi till. gerir ráð fyrir að kannaður sé vilji þjóðarinnar í þessu sambandi — og til hvers er verið að því ef einhver veit fyrir fram hver hann er?

Hins vegar get ég sagt það, að í störfum mínum innan kirkjunnar, bæði sem sóknarprestur og prófastur, hef ég ekki komist hjá því að finna hver væri vilji fólks í þessu sambandi. Ég orðaði það, að ég held, í fyrri ræðu minni þannig, að það væri vaxandi skilningur fólks í landinu á því, að prestskosningar væru ekki heppileg aðferð til þess að velja prest. Ég hef aldrei sagt neitt um það, hvort það væri meiri hl, eða minni hl. meðal þjóðarinnar sem væri þessu fylgjandi. Það væri að vísu mjög fróðlegt að fá það upplýst. Ef sú þáltill. verður samþykki sem hér er rætt um, þá kemur það í ljós og þá geta menn séð hvernig þjóðin stendur í því efni. En ég hef fullyrt að það væri ósanngjarnt að þessi 8%, sem væru sennilega meðlimir ýmissa sértrúarflokka eða utan trúflokka, gætu hugsanlega haft úrslitaáhrif í slíkri þjóðaratkvgr. Ég held að það sé ekki sanngjarnt að hafa slíka þjóðaratkvgr., nema kjörskrá væri þá samin beinlínis í því sambandi. (SvH: Af biskupi?) Ja, ég býst nú ekki við, að biskup semji slíkar kjörskrár. Sennilega er það frekar Hagstofan sem það mundi gera, og væntanlega veit hv. þm. eins vel um það og ég, hverjir gera slíkt. Ég held t.d. að ef við vitnum til þess fyrirbrigðis sem undanfarið hefur átt sér stað meðal stjórnmálaflokka, til svokallaðra prófkjara, þar sem menn eru sums staðar hræddir um að fólk úr öðrum flokkum geti haft úrslitaáhrif í prófkjöri um að velja væntanlega þm. fyrir ákveðinn flokk, ef við lítum aðeins á þetta mál frá því sjónarhorni, þá sjáum við að þarna gæti hugsanlega gerst svipað, að menn, sem væri alveg sama um kirkjuna og starfsemi hennar, gætu haft áhrif í þessu sambandi til úrslita. Það tel ég ekki heppilegt.

Ég minntist á það í síðustu ræðu minni, að það er fullkomlega Ljóst, að flm. þessarar till. vilja vel með henni og vilja leiða málið út úr þingsölum með þessum hætti, og að því leyti á hún fullkominn rétt á sér. Hins vegar stöndum við eftir sem áður, ef verður samþykkt að leggja niður prestskosningar, í rauninni í sömu sporunum. Þá þarf Alþ. að fara að ræða það mál, hvernig eigi þá að veita prestsembætti, og þá höldum við áfram þessari sömu umr. og þá kannske næstu áratugina í sölum Alþ. Þeir þm. sumir, sem töluðu við fyrri hluta þessarar umr., lýstu því yfir og fullyrtu mjög um vilja Alþ. í þessu sambandi og töldu að það væri víst, að Alþ. væri á móti afnámi prestskosninga. Ég er ekki sammála þessu, fyrst og fremst vegna þess, að það hefur ávallt verið mín skoðun, að það þyrfti að koma í ljós hver væri vilji þingsins í þessu efni. Undir það verða menn svo að beygja sig. En það þyrfti að reyna á það hvað Alþ. vill.

Hv. þm. Jónas Árnason talaði mikið um lýðræði í sambandi við þetta mál og taldi að það mætti ekki skerða lýðræðið með því að afnema prestskosningar. Ég hef nú komið inn á þá skoðun mína áður, að ég tel það lítið lýðræði að kjósa prest ævilangt og geta svo ekki með nokkru móti losnað við hann ef hann reynist ekki hæfur starfsmaður, og að því leyti til er ég sammála hv. þm., að það kæmi vel til greina að kjósa hvort sem það eru prestar eða biskup til ákveðins tíma. Það hefur verið skoðun mín áður, og ég er fyllilega sammála því, að það kæmi til athugunar, og þá raunar miklu fleiri embættismenn í kerfinu, því að það sýnir sig, að það er vissulega ástæða til að veita aðhald á mörgum sviðum í því sambandi. En lýðræði, eins og það kemur fram í prestskosningum oft og tíðum, er, held ég, ekki það lýðræði sem er æskilegt, og ég má segja að ég nefndi það við umr, hér fyrr, að ég kallaði þetta skrípamynd af lýðræði, eins og það kemur oft fram við prestskosningar, þar sem búið er oft og tíðum að ráðstafa embættinu áður en vitað er hverjir eru umsækjendurnir, því að mörg eru nú dæmin um slíkt og þetta er eitt tilbrigði af mörgum.

Þetta mál er mikið rætt hér á Alþ., og það sýnir að menn hafa gaman af að ræða þessi mál. Þess vegna ætti að vera vilji þm. til þess að leiða þau til farsælla lykta. Og ég vona satt að segja að það verði fyrr en síðar. En úr því sem komið er held ég að Alþ. ætti að bíða eftir álitsgerð þeirrar n. sem hæstv. kirkjumálaráðh. skipaði á liðnu sumri, og þá gefst auðvitað tækifæri til að fjalla nánar um málið, eftir að álit þeirrar n. liggur fyrir, hvert svo sem það verður.

Ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri að sinni, en vænti þess, að þetta mál fái farsæla lausn, þó að ég búist ekki við því að sú lausn felist í því að þjóðaratkvgr. skeri úr um málið.