07.02.1978
Sameinað þing: 45. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

48. mál, þjóðaratkvæði um prestkosningar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég skal reyna að hafa þetta stutt, því að það eru aðeins örfá atriði, sem komu hér fram eftir að ég flutti ræðu mína um daginn, sem ég vil koma hér inn á.

Það er ofureðlilegt að umr. um þessi mál fari út fyrir efni þessarar till. beint, og mér finnst satt að segja að umr. eigi í raun og veru að vera um það, hvort við erum með prestskosningum eða ekki. Þannig var umr. upphaflega vakin. Hitt er svo annað mál, að ég álít að það eigi að vera þeirra, sem vilja afnám prestskosninga, að flytja þetta mál þannig búið hér inn á Alþ., að það sé hægt að ræða það af fullri einurð, en ekki í stöðugum feluleik um eðli málsins og það sem þeir í raun og veru vilja.

Það kom fram í máli hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar, að Alþ. hefði daufheyrst við óskum Kirkjuþings. Þetta er alveg rétt. Það hefur gert það vegna þess að vilji þessara tveggja stofnana hefur ekki farið saman. Hvernig stendur á því, að menn furða sig þá á að Alþ. hafi daufheyrst við óskum Kirkjuþings, þegar Alþ. hefur sýnt sig í því að vera á öðru máli en Kirkjuþing varðandi þetta? Hitt er svo annað mál, að við höfum lýst því yfir, m.a. ég og fleiri af þeim sem eru með því að prestskosningar verði áfram í þeirri mynd sem þær eru núna, að við erum ekki í einu og öllu að standa með lögunum frá 1915. Við viljum ýmsar breytingar á þeim, t.d. æskilegar breytingar, svo sem utankjörstaðaatkvgr., til þess að tryggja enn meira lýðræði í þessum kosningum. Annars var því máli, um þessi lög og í raun og veru eðli allra tillagna um þetta, nema þá þessarar, lýst svo vel hér af hæstv. utanrrh. í fyrra, að þar þarf engu við að bæta

Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir sagði að það væri meira en meðalskömm, að Alþ. hefði fjallað þannig um málið eins og raun bæri vitni. Ég spyr: Hverra er þessi skömm? Ég álít að ef einhver skömm er, þá sé hún þeirra sem flytja ekki málið umbúðalaust og láta menn taka afstöðu beint til þessa máls, — vitanlega ekki okkar sem viljum þetta fyrirkomulag áfram, það er ekki okkar skömm, heldur þá hinna. Og ég tek þessi orð töluð beint til þeirra sem vilja afnám prestskosninganna.

Þegar tillagan um nefndarskipunina kom upphaflega fram, er það rétt að sú till. var tiltölulega saklaus. Það átti eftir till. að skipa n. og hún átti að kanna málið og leggja síðan niðurstöður sínar fyrir Alþ. En framsaga hv. 1. flm. þessarar till. var öll á einn veg, og hún kveikti í mönnum, m.a. mér, og ég lái hv. 1. flm., séra Ingiberg T. Hannessyni það ekkert þó að hann hafi komið, þrátt fyrir sakleysislegt orðalag till., umbúðalaust að því, sem hann vildi með henni segja, og hafi þess vegna farið rækilega í sinni framsögu þá inn á þann vilja sinn að afnema beinar prestskosningar með þeim hætti sem þær eru nú, m.a. vegna óska Kirkjuþings og m.a. vegna þess að þær hefðu miklar mannskemmdir í för með sér. Ég lái honum það alls ekki og taldi í raun og veru honum til hróss að hafa komið svo beint að efninu, þó að till. hans og meðflm. hans hefði einnig mátt vera beinskeyttari, svo menn hefðu vitað í raun og veru nákvæmlega hvað menn voru þar að fara.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um herra biskupinn yfir Íslandi og afskipti hans af þessu máli. Ég gerði það lítillega í fyrri ræðu, mjög hógværlega. Mér finnst nú að það sé ósköp svipað, þegar við erum að tala hér um orðfæri hans, og þegar hann er að tala um Alþ. á Synódus, þar sem við getum ekki svarað fyrir okkur, þegar menn eru svo að kveinka sér undan því, að biskupinn sé ekki hér til að svara fyrir sig. Ég hef ekki átt þess kost að svara biskupnum á þeim vettvangi sem hann hefur haft stærst orð, og ég hygg að það séu fæstir alþm. sem hafa getað það. Þetta er þá hreinlega kaup kaups og þarf ekki að vera að biðja afsökunar á því. (Gripið fram í.) Já, og eins og hv. þm. Lárus Jónsson sagði, samkv. Biblíunni: auga fyrir auga. Hins vegar hefði ég óskað eftir því, fundist það eðlilegt, að yfirmaður geistlegra manna á Íslandi viðhefði meiri varfærni og meiri sanngirni í orðavali heldur en við alþm. Ég ætlast meira að segja til svo mikils af herra biskupnum yfir Íslandi, að orðfæri hans sé örlítið heflaðra en okkar hér, sérstaklega þegar um er að ræða fyrir fram samdar ræður eftir vandlega íhugun í einrúmi með guði sínum.

Það var talað um að nm. væru gerðar upp skoðanir, nm. þeim sem nú starfa í n. sem hæstv. dómsmrh. skipaði til að fjalla um þessi mál. Það kann vel að vera að þeim hafi verið gerðar upp skoðanir hér af mér. Ég tók það þannig, að hv. þm. Gunnlaugur Finnsson, hv. þm. Geirþrúður Hildur Bernhöft og hv. þm. Friðjón Þórðarson hefðu öll lýst yfir töluvert skorinort afstöðu sinni í þessum málum. Og ég fagna því, að ég heyrði það í hógværri og ágætri ræðu hv. þm. Gunnlaugs Finnssonar, að n. hefur a.m.k. að einhverju leyti ekki kannske skipt um skoðun, en mildað skoðun sína, svo að ekki sé meira sagt. Mér dettur það nú í hug út frá þessari ræðu hv. þm., sem var að mínu viti ágæt í alla staði og þar sem hann lýsti síður en svo yfir þeim vilja sínum að afnema prestskosningar með þeim hætti sem þær eru nú, öfugt við það sem ég hygg að hann hafi áður gert, — mér datt í hug að þetta hafi kannske stafað af því, að hann var nýbúinn að telja atkv. í skoðanakönnun sem þessi hv. n. lét fram fara. Mig grunar meira að segja að þetta fólk, sem n. spurði og kannaði vilja hjá, hafi ekki verið æsingalýðurinn sem hér hefur verið mest talað um, þessi soralýður sem talið er að eyðileggi mannorð allra presta og guðfræðinga, heldur hygg ég að þarna hafi verið um sóknarnefndir að ræða og aðra slíka menn sem eiga að vera fulltrúar leikmanna til halds og stuðnings prestunum og hafa kynnt sér þessi mál án efa mjög gaumgæfilega. Mig grunar nefnilega að þetta fólk hafi haft yfirgnæfandi sömu afstöðu og við hér sem höfum mælt harðast gegn afnámi prestskosninga. Mig grunar það einhvern veginn eftir þessa ræðu hv. þm. Gunnlaugs Finnssonar. Og þá kem ég að því, sem var raunar aðalerindi mitt í ræðustól nú: Væri nokkur goðgá að við fengjum að vita sem allra fyrst um þessa niðurstöðu? (Gripið fram í: Bara strax.) Jafnvel strax, já. Mætti vera að þá linnti nokkuð fullyrðingum hér til og frá, því að ég hygg að n. hafi tekið hér út úr það fólk sem mætti vænta að hefði hugsað mest um þessi mál. (Gripið fram í: Og guði þóknanlegt.) Og auk þess alveg sérstaklega guði þóknanlegt. En án þess að um nokkurn slíkan innblástur væri nú að ræða hjá þeim í þeirra svörum, þá væri áreiðanlega hægt að taka á því mark, hvað þetta fólk hefði haft til málanna að leggja. Það kann að vera að þetta sé leyndarmál innan n. og megi ekki upplýsast hér, en mikið væri nú fróðlegt og skemmtilegt fyrir okkur að fá að vita hvernig úrslitin í þessari skoðanakönnun hefðu verið.