07.02.1978
Sameinað þing: 45. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

48. mál, þjóðaratkvæði um prestkosningar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Mig hryggði mjög ræða jafnágæts og sanngjarns þm. og hv. 5. þm. Reykv., Ragnhildar Helgadóttur. Hún taldi okkur hv. þm. Jónas Árnason tæpast mega hér um tala, flokkur okkar væri tæpast það kristilegur eða áhugi á kirkju eða kristni þar það mikil og við því án efa ekki kristilega þenkjandi. Mér þykir leitt ef inn í þetta á að fara að blanda því, hverjir flokkar séu þóknanlegir guði og hverjir ekki. Ég held nefnilega að hér sé um mismun að ræða að vísu, en hann sé mjög einstaklingsbundinn. Og ég fullyrði það, að trúað fólk er í öllum flokkum, og ég veit ekki til þess, að það sé neitt sérlega í einum flokki en öðrum.

Ég t.d. fer hvergi dult með það, að kenningar meistarans frá Nazaret eru mér einkar kærar og ég gæti varla hugsað mér neitt annað betra en að ég gæti í einhverju fetað eftir þeim kenningum á lífsbrautinni, þó ég sé í Alþb. — eða kannske öllu fremur vegna þess að ég er í Alþb. En látum það vera.

En út frá öllum þessum umr. og því, sem út frá þeim hefur spunnist, þá auðvitað fer ekki hjá því að menn taka kristni og kirkju misjafnlega, og ég vil harma það, ef okkar frjálslynda og víðsýna kirkja er í einhverju að fara í átt til aukinnar þröngsýni, aukins ofstækis eða trúarkreppu. Mér dettur þá í hug það fólk gjarnan, sem er með guðsorð á vörum, en lítið meira, og ég tel síst kristilegra en það sem sjaldan hefur kristni á vörum, en sýnir það þá E.t.v. betur í verki, að kristið siðgæði sé þess aðalsmerki. En ég fer ekkert dult með það og skal endurtaka það hér, vegna þess að um það var mjög rætt á sínum tíma, þegar umr. fór fyrst fram um þessi mál, að trúarkreddur og trúarofstæki eru mér víðs fjarri, ef það er einhver andkristilegur hugsunarháttur, eins og mér var þá borið á brýn. Og í raun er það fólk, sem er haldið slíku ofstæki, það er mér hrein andstyggð og ber vissulega að fagna því, að slíkt fólk erum við blessunarlega laus við hér á Alþ., því það væri ljót uppákoma að hafa eitthvað af því fólki hér inni.

Ég kann að hafa orðað þetta heldur ógætilega í ræðu hér fyrir tveim árum, og ég skal þá aðeins bæta um betur, því ég er enn á móti slíku ofstæki og harma það, ef það á vaxandi fylgi innan okkar kirkju. Og svo langt gengur hetta ofstæki oft, að mér dettur meira að segja í hug vísa Jóns Helgasonar, sem verður mér af því tilefni gjarnan íhugunarefni, með leyfi forseta:

„Ef allt þetta fólk fær í gullsölum himnanna gist,

sem gerir sér mat úr að nugga sér utan í Krist,

þá hlýtur sú spurning að vakna hvort mikils sé misst,

ef maður að síðustu lendir í annarri vist.“