25.10.1977
Sameinað þing: 8. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

316. mál, ráðstöfun húsakynna að Staðarfelli

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ein hin mesta réttarbót, sem þroskaheftir hafa fengið hér á landi, eru ákvæði nýju grunnskólalaganna, þar sem kveðið er svo á að þeir skuli hafa jafnan rétt og aðrir til þess að stunda skólanám. Erindi mitt hingað upp var eingöngu að leggja á það áherslu, að stofnun sérskóla, sem er mjög nauðsynlegt og mikilvægt atriði, verði ekki til þess að draga úr möguleikum og áhuga á því að aðlaga grunnskóla landsins að þessu nýja verkefni, þannig að þeir geti tekið á móti þroskaheftum til náms. Á því er mikill misbrestur nú og það væri ekki spor í framfaraátt, ef framkvæmd á ákvæðum grunnskólalaganna um þetta efni yrði frestað, þannig að fleiri færu inn í sérskóla þar sem þeir fengju fræðslu. Það er ótvíræð nútímastefna að blanda þroskaheftum saman við andlega heilbrigða og kenna þeim í sömu skólum. En það þýðir að breyta þarf skólahúsnæði, það þýðir að ráða þarf viðbótarkennslukrafta við skólana, og þetta finnst mér vera meginmarkmið.