08.02.1978
Efri deild: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

166. mál, viðskiptabankar

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Þær umr., sem urðu í fyrradag hér í hv. Ed. um frv. til laga um viðskiptabanka í eigu ríkisins, urðu til þess, að mig langaði að segja fáein orð um þetta frv. Eru það meira hugleiðingar um efni þess heldur en að um beinar till. sé að ræða til breyt. við það.

Ég veitti því athygli, að þeir menn, sem ræddu um frv., voru yfirleitt sammála um viss atriði í því. Sérstaka áherslu virtist mér menn leggja yfirleitt á að það bæri að draga verulega saman starfsemi bankanna í landinu, starfsemi þeirra væri of viðamikil — mér skildist jafnvel að hún væri of víða, útibúin of mörg. Vegna þess, hvað mér fannst þetta viðhorf vera almennt, vil ég gjarnan láta það álit mitt koma fram við þessa umr., að ég tel að fara eigi varlega í að draga verulega úr þeirri þjónustustarfsemi sem bankarnir hafa innt af hendi með því að hafa afgreiðslur víðs vegar um landið. Ég hygg að sú starfsemi, sem á þann hátt er höfð í frammi af bönkunum, sé ekki sú sem eykur mest kostnað við bankastarfsemina.

Að öðru leyti sýnist mér ástæða til að staldra aðeins við þetta frv., því hér er um vissa nýskipan að ræða á bankamálum. Sú stefna, sem í frv. felst, er í fyrsta lagi sú, að fallið verði frá því, að bankarnir sérhæði sig á ákveðnu sviði atvinnulífsins, eins og tekið er fram í grg., þar sem segir eitthvað á þá leið, að benda megi á að tenging útlánaviðskipta við ákveðið svið atvinnulífsins sé ekki í samræmi við þá meginreglu öruggs bankarekstrar að dreifa útlánahættunni eins og kostur er.

Það má vel vera að þetta sé rétt, að útlánaáhættunni sé dreift meir með því að einhæfa ekki bankana eða sérhæfa þá ekki. Ég á þó ekki von á því, að það auki mjög afkomuöryggi Búnaðarbankans þó hann færi að lána verulega í útgerð. Það hefur hann að vísu gert. Hann hefur lánað til að ég hygg flestra þeirra hræringa sem eru í atvinnulífi á Íslandi, þó í misjafnlega ríkum mæli sé. Ég tel að sú reynsla, sem fengin er af þeim bönkum sem ákveðið hefur verið með lögum að styddu tilteknar atvinnugreinar bendi til þess eða starfsemi hinna ýmsu banka sem þannig eru settir, eins og Iðnaðarbanka, Búnaðarbanka, Verslunarbanka og fleiri raunar, að það væri mikils virði fyrir atvinnuvegina að hafa ákveðinn banka sem sérhæfði sig um þeirra atvinnuresktur — einhvern sérstakan banka að snúa sér að.

Ég er nokkuð í vafa um, að þeir veittu viðskiptavinum sínum bætta þjónustu þótt þeir væru settir undir einn ráðh. eins og frv. gerir ráð fyrir. Mér dettur í hug, að það gæti verið affarasælast að breyta ekki þeirri skipan sem verið hefur á bankakerfinu. Þessir sérhæfðu bankar hafa heyrt sumir hverjir undir fagráðh., og ég held að ástæða væri til þess að skoða það mál gaumgæfilega, hvort það væri til bóta eða hvort það benti til þess að til væri að breyta því. Ég vil í þessu sambandi benda á, að mér sýnist að það séu E.t.v. nokkur tormerki á því, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., að ein deild ákveðins banka heyri undir annan ráðh, heldur en bankinn sjálfur. Ég fæ ekki almennilega séð, hvernig það gæti verið eða hvernig þau tengsl við bankann ættu þá að vera. Mér finnst eðlilegt að þetta sé athugað betur og ég bendi á það þess vegna.

Hitt er annað mál, að í þessu frv. er ýmislegt sem mér sýnist að sé mjög til bóta og stefni í jákvæða átt. Á ég þá sérstaklega við kaflann um samstarfsnefndirnar sem mér list vel á og ég tel að rétt sé að koma á. Ég hygg, að einmitt þessar samstarfsnefndir mundu geta valdið miklu bæði um hagræðingu innan bankakerfisins sjálfs og um samræmingu á útlánastarfseminni og gætu verið viss tengiliður milli Seðlabankans annars vegar og viðskiptabankanna hins vegar, a.m.k. mjög heppilegur umræðuvettvangur fyrir þá aðila að mætast á. Mér finnst eðlilegt að athugað sé gaumgæfilega, hvort ekki væri um nægilega styrka stjórn á bankamálum almennt að ræða ef öflugur Seðlabanki hefði yfirstjórn þessara mála með höndum og heyrði þá að sjálfsögðu undir bankamálaráðh. eða viðskrh. Hverjir fleiri bankar þætti eðlilegt að heyrðu undir hann skal ég ekki segja. En ég á von á því, að það ætti að vera nægilega góð stjórn á bankastarfseminni í landinu ef Seðlabankinn og samstarfsnefndirnar væru sérstaklega hagnýtt til þessara hluta.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri, en það er sjálfsagt eitt og annað sem vekur til umhugsunar um það, hvort hér er verið á réttri leið í þessu efni. Ég dreg mjög í efa, að það verði til bóta að flytja alla banka undir yfirstjórn eins ráðh. Mér sýnist að sú skipan, sem höfð hefur verið á í þessum efnum, hafi ekki torveldað að hafa trausta yfirstjórn þessara mála, en hún hafi jafnvel orðið til þess, að atvinnuvegirnir hafi talið sig hafa öruggari stuðning í bankakerfinu við þessa tilhögun heldur en annars mundi vera.

Þá vil ég, áður en ég lýk máli mínu, ítreka það sem ég sagði hér áðan, að ég tel að það eigi að fara gætilega að því að draga saman þá afgreiðslustarfsemi sem bankarnir hafa haft til þjónustu við viðskiptamennina víðs vegar um landið. Ég hygg að miklu fremur þyrfti að beita kröftunum til þess að taka til rækilegrar endurskoðunar ýmislegt innra starf þessara stofnana sem bankarnir eru, einkum og sér í lagi til þess að fá færðan niður þann rekstrarkostnað sem á þeim er. Ég er ekki í neinum vafa um það, að ef samstarfsnefndin, sem hér er ætlað að koma á fót, tæki það mál t.d. til meðferðar, mundi hún geta í því efni komið til leiðar ýmissi hagræðingu sem nútímatækni gæti verið umkomin að leysa, og ætti að geta sparað vinnukraft frá því sem nú er. Manni skilst að einmitt um leið og tölvutæknin er tekin í þjónustu stofnana eins og bankanna, þá geti hún leyst stór verkefni og það, sem komi í veg fyrir að sú tækni komi að verulegu haldi í rekstri ýmissa banka og stofnanna, sé að þær rekstrareiningar, sem þessi tækni hefur verið notuð í, séu of litlar. Þess vegna ætti sameiginleg starfsemi bankanna að þessu leyti að geta orðið til þess að draga úr kostnaði.