08.02.1978
Efri deild: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2029 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

166. mál, viðskiptabankar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. 6. þm. Suðurl., sem var að ljúka máli sínu, um nauðsyn þess að þjónusta bankanna sé sem viðast um landið. Þó er hins vegar auðvitað spurning um það, hversu hún skal af hendi innt og hvort miklar og dýrar byggingar þarf að reisa hvarvetna eða hafa óeðlilegan starfsmannafjölda. Ég þekki dæmi um það, sem ég kalla allgóða þjónustu banka, í litlu herbergi með einni stúlku sem vinnur tvo tíma á dag, þó að aðalverkið sé svo að sjálfsögðu unnið í útibúinu sjálfu hvað allar færslur og bókhald snertir, Þetta frv. og eins hitt, sem hefur verið gert hér að umtalsefni og flutt hefur verið í Nd., hvorugt þessara frv. gerir ráð fyrir að þjónustan verði dregin saman úti um landið. Ég fékk einmitt mjög ákveðið bréf um þetta frá glöggum bónda austur á landi, þar sem hann taldi að bæði þessi frv. fælu það á sér að þjónustan við landsbyggðina yrði minni, þar yrði fækkað útibúum og það dregið saman. Ég lít ekki svo á, heldur að þarna sé um misskilning að ræða, Í frv. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, stjfrv. frá vinstristjórnarárunum, kemur heldur ekkert fram um það, aðeins gert ráð fyrir fækkun útibúa á hverjum stað þar sem fleiri en eitt útibú eru.

Það var aðeins eitt atriði sem ég vildi hér og nú gera að umtalsefni eða spyrja hæstv. ráðh. um. Að vísu kom hv. 6. þm. Suðurl. inn á það mál. Um uppstokkun bankakerfisins og nauðsyn aukinnar skipulagningar og aðhalds þar ætla ég ekki að ræða. Ég hlýt þó að telja að frv. þetta sé til bóta, svo langt sem það nær, en það nær allt of skammt, það er allt of skammt gengið í því sem mestu máli skiptir. Auðvitað ber það frv., sem lagt hefur verið fram í Nd., af hvað það snertir, og hefur það verið undirstrikað rækilega hér, m.a. af hv. 5. þm. Norðurl. v. og eins af hv. 2. þm. Vestf. Bankastofnanir eru of margar hér á landi, að því er ég tel, og fólksfrekar af þeirri ástæðu einni og einföldun hlýtur að vera möguleg. En af því að ég á sæti í bankaráði Búnaðarbankans, sem ég reikna með að fái þetta frv. til umsagnar, svo og frv. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, þá læt ég allar almennar athugasemdir bíða þess tíma. En það atriði, sem ég vildi nánar forvitnast um, er varðandi Búnaðarbankann og Stofnlánadeild landbúnaðarins.

Nú er í þessu frv. svo ráð fyrir gert, að Búnaðarbankinn heyri undir bankamálaráðh., en Stofnlánadeildin áfram undir landbrh. Ég tek það skýrt fram, að breyting á yfirstjórn Búnaðarbankans hvað ráðh. snertir er að mínu mati ósköp eðlileg og ég vona að í kjölfar þess fylgi það, að hið sama verði látið gilda um þann einkabanka sem nú heyrir undir iðnrh. En nú segir í lögum um Búnaðarbankann og í lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, að Stofnlánadeildin sé deild í bankanum. Stofnlánadeild landbúnaðarins er deild í Búnaðarbanka Íslands. Þá er spurningin, eins og hv. 6. þm. Suðurl. kom inn á, hvort ein deild banka geti heyrt undir annan ráðh, en bankinn sjálfur. Þarf þá ekki að breyta lögum um Búnaðarbankann eða um Stofnlánadeild landbúnaðarins þannig, að þetta ákvæði um deild falli niður? Það vekur svo aftur þá spurningu sem án efa verður umdeilt svar við, hvort slíta eigi tengsl Stofnlánadeildar við Búnaðarbankann eða með hvaða hætti skuli skipa málum þar. Ég skal fúslega játa, að ég sé enga höfuðnauðsyn á tengingu Búnaðarbanka Íslands og Stofnlánadeildar þann veg sem nú er. Á því má áreiðanlega verða einhver breyting, jafnvel fullkomin skil þar á milli, svo sjálfstæð er Stofnlánadeildin og á að vera að sjálfsögðu.

Það kann að vera að ég hafi ekki lesið þetta nægilega vel yfir og ekki áttað mig nægilega vel á þessu, en mér finnst, og sú er skoðun fleiri, m.a. þeirra sem málefnum Stofnlánadeildar ráða, að ekki sé unnt að hafa lögin um Stofnlánadeildina óbreytt eftir þá breytingu sem hér er lögð til, ef af henni verður. Ég vildi því gjarnan fá upplýsingar hjá hæstv. ráðh. um það, hvað fyrirhugað væri í þessum efnum.