08.02.1978
Efri deild: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2038 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

166. mál, viðskiptabankar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. bankamálaráðh. fyrir svör hans við spurningu minni um væntanleg gjaldeyrisviðskipti Búnaðarbankans. Ég vissi að sjálfsögðu eins og allir aðrir, að Seðlabankinn hefur heimild til að veita Búnaðarbanka Íslands og öðrum lánastofnunum gjaldeyrisréttindi. En það er ekki það sem ég var að leita eftir. Ég held að úr því að fyrir liggur frv. til laga um viðskiptabanka í eigu ríkisins, þá sé ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir því, að sömu reglur, sömu skyldur og kvaðir almennt hvíli á öllum ríkisviðskiptabönkunum, einn banki sé ekki dreginn undan hvað gjaldeyrisviðskipti snertir t.d. Ég tel óeðlilegt, úr því að verið er að setja lög um ríkisbankana, að Seðlabankinn ákveði hvaða bankar skuli hafa gjaldeyrisréttindi og hvaða bankar skuli ekki hafa gjaldeyrisréttindi. Ég tel eðlilegt að lög um viðskiptabanka í eigu ríkisins taki af öll tvímæli um þjónustuhlutverk þeirra, en hlutverk Seðlabankans verði meira eftirlitshlutverk. Ég vil sem sagt taka þetta vald undan Seðlabankanum og breyta þá lögum um Seðlabanka Íslands í samræmi við það, ef nauðsynlegt er, ef samþykkt á þessum lögum gerir það ekki sjálfkrafa.

Hvað viðvíkur þeim eftirlitsmanni sem ég gerði að umræðuefni hér og nefndur er í 2. mgr. 9. gr., þá vil ég leyfa mér að gera orð hv. 7. landsk. þm. að mínum, — að vísu var þeim hvíslað að mér í sætinu, — að þessi eftirlitsmaður ætti að vera þefvís, hann ætti að ráða eftir þefvísi. Þetta eru ummæli bankaráðsmanns Búnaðarbanka Íslands. Ég vil túlka það þannig, að hér sé um njósnara að ræða. Hann á að vera með nefið niðri í gerðum annarra — og hverra þá? Þeirra sem stjórna bankanum, þeirra sem eru ábyrgir fyrir starfsemi bankans. Í þessu frv. til laga er þetta tekið fram um stjórn bankans í II. kafla 6, gr. með leyfi hæstv. forseta: „Framkvæmdastjórn hvers ríkisviðskiptabanka er í höndum þriggja manna bankastjórnar.“ Þar til viðbótar eru þrír aðstoðarbankastjórar, þannig að þessir sex aðilar ættu að vera nægilega margir til að hafa eftirlit með rekstrinum. Til viðbótar er svo sú skylda sem hvílir á endurskoðunardeild bankans. Ég ítreka: Það er andstætt mínu eðli að samþykkja eftirlitsmann á trúnaðarmenn. Þann eftirlitsmann vil ég kalla njósnara.

Talað er um að fækka bönkunum og þá til þess að spara starfsfólk. Ég hafði gaman af þessum ummælum hæstv. bankamálaráðh. og tel þau löngu tímabær. Þau hafa oft flogið fyrir áður, en lítið verið gert. En er ekki fyllilega ástæða til að taka þá yfirstjórnina fyrst og athuga, hvort er ekki hægt að fækka starfsmönnum þar. Deild úr Landsbanka Íslands er orðin að einni stærstu bankastofnun þjóðarinnar, eftir því sem mér hefur verið tjáð, með fleiri starfsmenn en utanríkisþjónusta Íslands öll til samans, bæði hér heima og erlendis. Þetta er Seðlabankinn sjálfur, sem var deild í Landsbankanum fyrir örstuttu. Þvílík Parkinsons-þróun hefur líklega hvergi nokkurs staðar í kerfinu átt sér stað og er þó af nógu að taka.

Það er talað um að sameina bankana að öðru leyti. Það er talað um að sameina bankana til þess að bjarga bönkum eða peningastofnunum. Við vitum að til eru sparisjóðir sem raka saman peningum í milljörðum og gera meira að því að fjárfesta í ríkistryggðum skuldabréfum til að tryggja afkomu sína heldur en veita innlánsfé, sparifé íbúanna, í atvinnuvegina á stöðunum. Til að þurfa ekki að koma hér aftur í stólinn til þess að svara því, hvaða sparisjóðir það eru, þá skal ég minnast á Sparisjóðinn í Keflavík, Sparisjóðinn í Hafnarfirði og Samvinnubankann í Hafnarfirði. Aðilar þaðan, þ.e.a.s. úr útveginum í þessum sjávarplássum, koma til Reykjavíkur og fá lán hjá Útvegsbanka Íslands, svo að það er ekki nema eðlilegt að Útvegsbanki Íslands geti ekki staðið undir því sem sparifé fólksins á stöðunum á að gera. Það þarf ekkert annað en skylda þessa sparisjóði til að veita innlánsfé, sem þeir taka við, í atvinnuvegina í sínu byggðarlagi til þess að rétta við hag þeirra, og létta af Útvegsbankanum. Ég held að alveg nauðsynlegt sé að gera það.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en vil þó bæta við, að rétt getur verið að sameina banka og spara í bankakerfinu án þess að leggja þá niður. Við skulum taka Keflavík aftur, af því að hálfgert stríð hefur verið milli banka þar. Landsbankinn ætlaði að taka yfir Útvegsbankann, en viðskiptavinir Útvegsbankans vildu ekki missa sína bankastofnun og ekkert hefur orðið úr því enn þá. En það er hægt að loka öllum útibúunum nema einu og allar þessar peningastofnanir geta haft afgreiðslu í einu húsi. Á þann hátt er hægt að spara, með því að hafa einhvers konar sameiginlega þjónustu bankanna allra í einum afgreiðslusal, eins og er víða í viðskiptum. Við erum meira að segja þátttakendur í „clearing“ í sambandi við flugstarfsemina. Hægt er að gera nákvæmlega það sama á hverjum einasta stað hér innanlands og spara stórfé í rekstri, bæði í fasteignum, mannahaldi og rekstri, án þess að leggja neina bankastofnun niður. Það er hægt að gera ýmislegt annað til umbóta í bankamálum en að leggja banka niður.

Ég vil ítreka það, að ég tel, úr því að við erum að afgreiða frv. til laga um viðskiptabanka í eigu ríkisins, að þá eigi þetta frv. að veita öllum ríkisviðskiptabönkunum sömu réttindi og leggja þeim sömu kvaðir á herðar, hvort sem það er í gjaldeyrismálum eða öðrum málum, og taka það ákvörðunarvald alfarið undan Seðlabanka Íslands og gera hann eingöngu að eftirlitsstofnun með ríkisviðskiptabönkunum.