08.02.1978
Efri deild: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

166. mál, viðskiptabankar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það var aðeins varðandi þau ummæli sem hér féllu um starfsemi sparisjóða. Það er nú sannast að segja þannig, að það þarf að lána til fleira í þessum héruðum, sem á var minnst, heldur en til útgerðar. Ég held, að það sé alger misskilningur að þessir sparisjóðir, sem á var minnst, liggi með milljarða í ríkistryggðum skuldabréfum sem þeir geyma, heldur hafi þeir veitt mjög verðmæta þjónustu í þessum héruðum til þess að byggja upp ýmiss konar iðnað, lánað til húsbygginga, og enn fremur held ég að báðir hafi í einhverjum mæli hjálpað útgerðarfyrirtækjum þegar á þurfti að halda.

Vandamál Útvegsbankans munu ekki stafa af þessum orsökum fyrst og fremst, heldur vegna þess að fyrir hann var lagt með lagafyrirmælum um langan tíma að lána útgerðinni fé með „negatívum“ vöxtum, þannig að það var ekki von að vel færi í þeim efnum. Að hluta til byggist þetta einnig á því, að á þessum stöðum er stórfyrirtækjum, sem þarna starfa, gert að skyldu að flytja sína peninga jafnharðan inn í Seðlabanka Íslands, þannig að þeir stöðvast alls ekki á viðkomandi stöðum.

Þetta vildi ég aðeins upplýsa vegna þeirra ummæla sem hér féllu.