08.02.1978
Efri deild: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

166. mál, viðskiptabankar

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Mig langar að leggja hér örfá orð í belg í sambandi við þessa bankamálaumr. Það hefur að sjálfsögðu margt verið sagt hér sem er athyglisvert. Sumu af því er ég sammála og öðru ekki.

Ég er enn þá eindregið þeirrar skoðunar, að það sé fásinna og fjarstæða að ríkið reki bankastarfsemi sína í þrennu lagi. Það má vera, að það þyki of róttæk breyting að gera ríkisbankann einn, hafa einn ríkisbanka, hann verði of mikið stórveldi. Það er sjónarmið út af fyrir sig, en tveir ættu þó a.m.k. að setja undir þann leka og vera nægilegir til þ•ess að annast þá þjónustustarfsemi sem ríkið ætlar sér í bankaviðskiptum þjóðarinnar.

Það er talað um það hér sem algert sáluhjálparatriði að fjölga gjaldeyrisafgreiðslum. Ég get ekki séð neina þörf á því. Ég tel að þær gjaldeyrisafgreiðslur, sem starfa hér í tvennu lagi, séu fyllilega færar um að anna þeim viðskiptum sem þar fara fram. Og ef það telst nauðsyn á að fjölga gjaldeyrisafgreiðslum, væri þá ekki til athugunar að sú afgreiðsla yrði einhvers staðar annars staðar en við hliðina á hinum tveimur í Austurstræti í Reykjavík. Kæmi þá ekki til athugunar að afgreiða gjaldeyrisyfirfærslur — við skulum segja á Akureyri eða Ísafirði eða öðrum ámóta merkum stöðum annars staðar á landinu?

Bankaráðsmaður Búnaðarbankans lét þess getið, að Búnaðarbankinn hefði fámennara starfslið en sumir aðrir bankar, og það mun vera rétt. Það kom einnig fram í máli hæstv. bankamálaráðh. að svo væri. En mætti ekki ímynda sér í leiðinni að það væri vegna þess að hann hefur ekki gjaldeyrisdeild, hann þarf ekki að hafa deild sem sér um gjaldeyrisafgreiðslu fyrir viðskiptavini sína? Þeir fara í næsta hús og fá þar þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda í þessu efni. Það er nefnilega ekki bara ávinningur að hafa gjaldeyrisdeild. Það þarf vissa stærð af banka til þess að slíkt geti borið sig. Hún kostar mikið, og með þeim ákvæðum, sem nú eru í lögum, að 60% af tekjum af gjaldeyrissölu ganga ekki til viðkomandi banka, þá þarf þó nokkra umsetningu til þess að standa undir þeirri þjónustu sem gjaldeyrisdeild krefst. Ég held að menn ættu að skoða þessi mál í víðara samhengi, þegar verið er að tala um bankamálin.

Ég get ekki séð neina ástæðu til þess að bankarnir heyri undir marga ráðh. Þetta er ein grein af starfsemi í þjóðfélaginu sem fer fram í bönkunum, nauðsynleg þjónustustarfsemi. Hún á samkv. öllum eðlilegum reglum að heyra undir einn ráðh., alveg eins og sjávarútvegsmálin heyra undir einn ráðh. og engum dettur annað í hug og landbúnaðarmálin undir landbrh. og þannig mætti lengi telja.

Ég held að það hafi verið rétt ráðið fyrir 15 árum eða svo, þegar Alþ. fór inn á þá braut að heimila starfsgreinum að setja upp eigin bankastofnanir. Ég veit vel af hverju talið var nauðsynlegt af þessum starfsgreinum að eignast eigin bankastofnanir. Það var vegna þess að þær fengu ekki nægilega fyrirgreiðslu í þeim bankastofnunum sem fyrir voru. Nú má vel vera að þetta sé breytt, og ég er ekki frá því að þetta sé breytt, að stefna ríkisbankanna sé nú orðin sú, að þeir eigi einnig að lána til þeirrar starfsemi sem einkabankar voru stofnaðir til að sjá um. En það skyldi þó ekki vera, að þessi stefnubreyting væri vegna þess að komnir voru bankar, sem ætluðu sér að sjá um þessa starfsemi án hjálpar hinna bankanna, og það gat verið hagur að því fyrir þá að hafa a.m.k. sumt af þessari starfsemi innan sinna veggja?

Ég skal ekki að orðlengja þetta hér. Ég tek undir það og treysti því fyllilega, að hv. d. sé fær um það að setja það bankalagafrv. og það skipulag á bankamál sem hún vill hafa og er ekki bundin af því, þó að stjfrv. hafi verið lagt fram, sem bendir á eina ákveðna leið.

Ég skal aðeins endurtaka það að lokum, að ég tel að við þurfum á öðru að halda, eins og ástatt er nú, heldur en frekari útþenslu í bankakerfinu. Þess vegna er ég fylgjandi sameiningu og að bankamálin eigi eins og aðrir málaflokkar að heyra undir einn ráðh.