08.02.1978
Efri deild: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2044 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

167. mál, Fiskimálaráð

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það vildi nú reyndar svo til, að ég var búinn að semja fsp. um Fiskimálaráð, en í staðinn fyrir að leggja hana beint inn á skrifstofuna þegar ég kom í þingið, þá gekk ég inn í fundarsalinn og sá þá þetta frv. En af því að hæstv. ráðh. var að ljúka við að tala fyrir þessu frv, ætla ég að bera þessar spurningar hér upp og afhenda honum á eftir.

1) Hvað hefur Fiskimálaráð haldið marga fundi frá miðju ári 1974?

2) Hvað hefur starfsemi ráðsins kostað árin 1974–1977, bæði meðtalin?

3) Hvaða till. hefur ráðið gert um sjávarútvegsmál undanfarin 4 ár?

4) Hafa allir þeir aðilar, er rétt hafa til þess að tilnefna fulltrúa í ráðið, notfært sér rétt sinn, sbr. 7, gr. laga um Fiskimálaráð?

Það er svolítið merkileg tilviljun, að hæstv. ráðh. barðist fyrir því sem þm. á sínum tíma, 1967 og 1968, að koma á þessu ráði og talaði þar mikið mál og hafði um það mörg orð, hve mikið hlutverk mundi bíða þessa ráðs. Hann fékk þetta frv. samþykki eftir harða baráttu, og sjálfsagt hefur honum gengið gott eitt til að koma þessari löggjöf í gegn og verið mikil hugsjón á bak við það sem hann sagði þá. En það eru líka meinleg örlög, að hann skuli þurfa að verða til þess að afnema þannig og lífláta þau lög sem hann taldi hafa mikið gildi. Kannske er ekkert við því að segja, málin hafi þróast svona. Hann gat þess, að ýmis hagsmunasamtök hefðu ekki talið þetta það gilda stofnun að það ætti að hagnýta hana og önnur skipulagsbreyting, sem átti sér stað í sambandi við Fiskifélag Íslands, hafi raunar kálað ráðinu. Nú hafa þrír hv. alþm. verið sjútvrh. meðan þessi lög hafa haft gildi, og sjálfsagt hafa þeir ekki sýnt þessu máli mjög mikinn áhuga. En þeir aðilar, sem áttu að tilnefna menn í Fiskimálaráð, eru samkv. 7. gr.: Landssamband ísl. útvegsmanna, Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda, Sjómannasamband

Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Alþýðusamband Íslands, Félag fiskiðnfræðinga, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sjávarafurðadeild Sambands ísl. samvinnufélaga, Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, síldarútvegsnefnd, Félag ísl. fiskimjölsframleiðenda, Félag ísl. niðursuðuverksmiðja, Samlag skreiðarframleiðenda, Seðlabanki Íslands, Fiskveiðasjóður Íslands, Fiskimálasjóður, Efnahagsstofnunin, Fiskifélag Íslands. Notfæri einhver sér ekki sinn rétt, þá er ráðh. heimilt að skipa í hið auða sæti. Þetta eru allt miklar stofnanir — stofnanir sem hafa efnahagslíf Íslendinga í hendi sér, og þess vegna mátti eiga von á því að svona mikilvægt ráð gerði eitthvað. Þó man ég eftir því, að einn hv. þm., sem er nú ekki meðal okkar, því miður, taldi að hér mundi verða um fyrirmyndar–kaffi–kjaftastofnun að ræða. Kannske hefur það ekki heldur ræst. Fundir hafa verið sárafáir.

Ég vil gjarnan biðja hæstv. ráðh. að upplýsa mig eitthvað nánar um þetta. E.t.v. get ég fengið svar við þessum fsp. mínum í nefnd.

Ég er samþykkur frv. Ég harma það reyndar, að ráðið skyldi ekki verða, eins og hæstv. ráðh. talaði fyrir því á sinum tíma, kraftmikil stofnun og kraftmikill ráðgefandi aðili, vegna þess að ég var sammála ráðh. um að við þurftum á þessari samræmingu að halda. Nú hafa hann og fleiri endurskipulagt sjútvrn. og gert það virkara en það var áður. Það byrjaði ósköp rólega, raunverulega einn ráðh. og einn starfsmaður og hálf skrifstofustúlka, svo að það fór rólega af stað, en er orðið allmikil stofnun í dag. Ég veit ekki hve margir menn eru í þessu rn. í dag. En ég tel að hugmynd núv. hæstv. sjútvrh. með þessu frv. á sínum tíma hafi verið vel réttlætanleg. Hins vegar hefur það atvikast með einhverjum hætti, að þetta ráð náði aldrei að blómgast og þroskast og gera það sem því var ætlað, og ég er ekki að ásaka hæstv. ráðh. vegna þessara atriða. Sennilega hefur hann reynt það í sinni ráðherratíð, að það væri ekki hægt að framfylgja hugsjónum sínum, og þá var ekkert við því að segja annað en að lóga króganum eða láta hann lognast út af, og því vel réttlætanlegt að þetta frv. kæmi fram. En dapurleg örlög eru það út af fyrir sig.

Ég vil ekki tefja umr. um þetta frv. lengur, en tel nauðsynlegt að fá upplýsingar varðandi þessi mál og vildi þess vegna koma þessum hugmyndum eða fsp. hér á framfæri. Að öðru leyti, eins og ég segi, sé ég ekki ástæðu til að tefja frv. með langri ræðu, en mun eðlilega styðja að það nái fram að ganga.