08.02.1978
Neðri deild: 51. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

175. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Virðulegi forseti. Í dag hefur ríkisstj. fallist á till. Seðlabankans, að meðalgengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðli verði lækkað um 13% frá því gengi sem gilti 3. febr. s.l. Þetta jafngildir 74.9% meðalhækkun erlends gjaldeyris. Gengisskráning, sem felld var niður frá mánudagsmorgni 6. þ.m. mun þó ekki verða tekin upp að nýju fyrr en að lokinni afgreiðslu þess frv. sem hér er á dagskrá.

Frv. þetta er flutt vegna þessarar ákvörðunar. Það hefur að geyma ákvæði um tollmeðferð innflutnings og myndun gengismunarsjóðs af útflutningsvörubirgðum og ógreiddum útflutningi sjávarafurða og ráðstöfun fjár úr sjóðnum. Ákvæði frv. eru svipuð þeim sem áður hafa verið sett í lög vegna breytinga á gengi krónunnar.

Gengisákvörðun sú, sem er tilefni þessa frv., er einn liður í fjölþættum ráðstöfunum sem ríkisstj. beitir sér nú fyrir til þess að tryggja fulla atvinnu, hamla gegn verðbólgu og treysta stöðu þjóðarbúsins út á við.

Eftir þá launasamninga, sem gerðir voru á síðasta ári, var fljótlega ljóst, að þróun efnahagsmála hér á landi hefði að ýmsu leyti tekið óheillavænlega stefnu. Verðbólgan, sem hafði farið smám saman minnkandi undanfarin tvö ár, fór nú ört vaxandi á ný og afleiðingarnar létu ekki á sér standa í vaxandi rekstrarörðugleikum atvinnuveganna og auknum innflutningi. Ríkisstj. var fljótlega ljóst, eins og fram kom í stefnuræðu minni á Alþ. í upphafi þings, að við þessi nýju vandamál yrði ekki ráðið nema gripið yrði til víðtækra ráðstafana í efnahagsmálum er drægju úr verðbólgu, treystu stöðu atvinnuveganna og héldu útgjöldum þjóðarbúsins innan við framleiðslugetu þess. Til þess að stuðla að þessu var við afgreiðslu fjárl. og lánsfjáráætlunar stefnt að því að halda rekstrarútgjöldum ríkissjóðs í skefjum og draga úr opinberri fjárfestingu, og var það markmið m.a. sett fyrir árið 1978 að stöðva frekari aukningu erlendra skulda.

Að því er varðar aðra þætti efnahagsmála hefur á vegum ríkisstj. farið fram víðtæk athugun á þeim leiðum sem um væri að velja í stjórn efnahagsmála, ef ná ætti þeim markmiðum sem ég hef þegar lýst. Hafa athuganir í þessum efnum m.a. farið fram á vettvangi verðbólgunefndar sem nú hefur lokið störfum og mun væntanlega skila áliti sínu til ríkisstj, þessa dagana. Hefur ríkisstj. markað stefnu sína í þessum málum á grundvelli þessara athugana allra.

Á föstudaginn kemur verður tekið til umr. á þingi frv. til l. um efnahagsráðstafanir í framhaldi af gengisbreytingunni, og mun ég þar gera nánari grein fyrir almennum viðhorfum í efnahagsmálum og heildarstefnu ríkisstj, til lausnar þeim margvíslega vanda sem nú er við að etja. Hins vegar hefur það verið samdóma álit allra, sem best þekkja til, að ekki væri nú annars úrkosta en að breyta genginu nokkuð til lækkunar, hvaða leiðir sem ella yrðu valdar í efnahagsmálum.

Ljóst hefur verið um nokkurt skeið, að gengi íslensku krónunnar var orðið óraunhæft vegna sívaxandi misræmis framleiðslukostnaðar og verðlags hér á landi og í helstu viðskiptalöndum okkar. Gengissig hefur ekki nægt til að jafna þessi met.

Hin mikla hækkun á kostnaði innanlands umfram hækkun framleiðslutekna að undanförnu hefur valdið því, að afkoma útflutningsatvinnuveganna hefur farið hríðversnandi og eru að óbreyttri gengisskráningu engin tök á að standa undir því viðmiðunarverði sem Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins hefur nýlega ákveðið. Í útflutningsiðnaði er við mikla rekstrarörðugleika að etja og raunar einnig í þeim iðngreinum sem selja framleiðslu sína á innlendum markaði í samkeppni við innflutning. Hækkun innlends kostnaðar veldur meiri erfiðleikum þegar búið er við óraunhæft gengi og þar með hlutfallslega lágt verð á innflutningi. Stóraukinn kaupmáttur og eftirspurn innanlands að undanförnu hefur valdið óhóflegri eftirspurn eftir innfluttum vörum. Ef ekkert væri að gert, blasti því við vaxandi halli í vöruskiptunum við útlönd, Við þessum horfum er snúist með gengislækkun. Við þennan vanda bætist svo að gengi Bandaríkjadollarans hefur lækkað töluvert gagnvart öðrum gjaldmiðli síðasta missirið, en verulegur hluti gjaldeyristekna Íslendinga er í dollurum.

Þótt gengisbreytingin hafi ráðist af þessum sjónarmiðum hefur hún verið höfð eins lítil og fært er talið til þess að verðáhrif hennar yrðu sem minnst. Hefur í þessum efnum einnig verið tekið mið af þeim ráðstöfunum til þess að hemja víxlhækkanir launa og verðlags sem ríkisstj, hefur ákveðið að leggja fyrir Alþ. og kynntar verða á föstudag. En án slíkra ráðstafana er gengisbreytingin ein sér skammgóður vermir.

Einnig er rétt að taka það fram, að með þessari nýju gengisákvörðun er ætlunin að víkja frá þeirri stefnu í gengismálum, sem fylgt hefur verið síðustu þrjú árin, en á því tímabili hefur verið reynt að varðveita samkeppnisaðstöðu atvinnuveganna með hægfara breytingum á gengisskráningunni er nægðu til þess að jafna samkeppnisaðstöðu fyrirtækja hér á landi og í helstu viðskiptalöndum okkar, þar sem verðbólgan hefur verið miklu minni. Þótt þessi stefna hafi að ýmsu leyti reynst vel, hefur hún óneitanlega haft þann ókost að draga úr aðhaldi um verðlagsog launaþróun hér á landi. Hún hefur ekki heldur reynst þess megnug að jafna metin, þegar stórfelldar breytingar verða á innlendum kostnaði, eins og átti sér stað á s.l. ári. Hefur því nú verið horfið að því ráði að leiðrétta þá skekkju, sem auðsjáanlega er orðin í gengisskráningunni, með því að leiðrétta gengið í einu skrefi. Jafnframt er ætlun ríkisstj. að stöðva frekara gengissig, þar sem hún telur að stöðugt gengi geti við núverandi aðstæður og í samhengi við aðrar ráðstafanir orðið til þess að draga verulega úr þeirri verðbólguþróun, sem nú hefur náð tökum á hagkerfinu.

Mun ég nú víkja að einstökum atriðum í því frv. sem hér liggur fyrir.

Meginatriði þess er, að gert er ráð fyrir að gengismun af útflutningsbirgðum sjávarafurða verði varið til lausnar sérstakra fjárhagsvandamála innan sjávarútvegsins. Fyrst og fremst er talið mikilvægt að efla fjárhag Verðjöfnunarsjóðs, en einnig að ætla nokkurt fé til þess að greiða fyrir hagræðingu í fiskiðnaði og létta stofnfjárkostnaðarbyrði fiskiskipa. Þörfin fyrir hið síðast nefnda er þó ekki jafnmikil og oftast áður, vegna þess að hagur fiskveiða er nú allgóður. Hins vegar eru gengistryggðar skuldir flotans miklar að vöxtum. Þörfin fyrir hagræðingu í fiskiðnaði er brýn, ekki síst þar sem gengisákvörðun og aðrar tekjuákvarðanir í sjávarútvegi sníða fiskiðnaðinum það þröngan stakk, að leita þarf allra leiða til þess að bæta skipulag um framleiðni í greininni.

Lauslega áætlað er talið að alls gætu komið um 2100 millj. kr. í gengismunarsjóðinn, og er þá ekki reiknað með tekjum at skreið eða ógreiddum saltfiski, sem seldur var til Zaire, og einnig dregið frá það sem greitt skal samkv. 2. gr. frv, til ríkissjóðs vegna Verðjöfnunarsjóðs.

Fé þetta mun skiptast í aðalatriðum þannig, að í fyrsta lagi fengi Verðjöfnunarsjóður um 1300 millj. kr., í öðru lagi færu til að létta stofnfjárkostnað fiskiskipa um 450 millj. kr., og í þriðja lagi færu til hagræðingar í fiskiðnaði um 350 millj, kr., eða samtals 2100 millj. kr.

Það skal tekið skýrt fram, að það fé, 350 millj. kr, að varkáru mati, sem ætlað er til að stuðla að hagræðingu í fiskiðnaði, mun koma til viðbótar þeim 500 millj. kr, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir að verði til reiðu sem sérstakt lánsfé frá Byggðasjóði á þessu ári til að bæta fjárhag og skipulag fiskvinnslufyrirtækja, sem átt hafa í rekstrarerfiðleikum. Jafnframt vil ég láta þess getið, að túlka verður orðalagið til hagræðingar í fiskiðnaði í þessu sambandi rúmt. Það getur falið í sér endurbætur á lausafjárstöðu fiskvinnslufyrirtækja. En þau lán eiga á hverjum stað að miða að betri nýtingu hráefnis, fjármagns og starfskrafta, en ekki aukningu afkastagetu. Möguleikarnir til að leysa vanda fiskvinnslunnar hafa því batnað að mun, og er það einnig nauðsynlegt, þar sem aðstaða fiskvinnslufyrirtækja er mjög mismunandi í landinu.

Ég mun nú gera grein fyrir einstökum gr. frv.

Í 1. gr. eru, svo sem venja hefur verið við gengisbreytingar, settir frestir um tollafgreiðslu, en að öðru leyti gilda almenn ákvæði tollskrárlaga um tollmeðferð skjala eftir að hið nýja gengi tekur gildi.

Samkvæmt 2, grein er gert ráð fyrir að taka gengismun af þeim birgðum sjávarafurða, sem framleiddar hafa verið fyrir 1. janúar 1978 en ekki fluttar út eða verið greiddar áður en hið nýja gengi tók gildi. Er það ákveðinn hundraðshluti, sem nemur þeirri breytingu, sem gerð var á gengi íslensku krónunnar í dag. Rétt þykir að undanþiggja þær afurðir, sem framleiddar voru frá og með 1. janúar 1978, þar sem þær efnahagsráðstafanir, sem nú eru gerðar, eiga að tryggja grundvöll framleiðslunnar frá upphafi ársins og m.a. fiskverð gilti frá sama tíma. Þessar afurðir verða því greiddar með nýja genginu. Sjávarútvegurinn hefur að því leyti nokkra sérstöðu meðal atvinnuvega landsmanna, að nánast öll hans framleiðsla er flutt út. Oft eru birgðir sjávarafurða allmiklar og er svo einnig nú, en skiptast misjafnt eftir afurðum, þar sem framleiðsla vissra afurða er árstíðabundin, Er því nokkur hending hvernig birgðir skiptast. Hins vegar er það eins nú og oft áður að afkoma hinna ýmsu greina sjávarútvegsins er bæði ærið misjöfn og breytileg. Það hefur því verið venja um allmörg undanfarin ár, að við gengisbreytingar hefur gengismunur af sjávarafurðum verið látinn renna í sérstakan sjóð, sem varið hefur verið á mismunandi hátt í þágu hinna ýmsu greina sjávarútvegsins. Er það einnig gert nú.

Áður en kemur til ráðstöfunar á því fé, sem rennur til gengismunarsjóðs hefur þó þótt rétt að greiða af óskiptu þær hækkanir á flutningskostnaði og öðrum sambærilegum kostnaði við útflutning vegna þeirra afurða sem framleiddar hafa verið fyrir áramót, en ekki fluttar út fyrr en eftir gengisbreytinguna. Enn fremur þykir eðlilegt að greitt verði af gengismun áður en honum er ráðstafað það sem ríkissjóður hefur vegna framleiðslu ársins 1976 greitt til Verðjöfnunarsjóðs. Er hér um að ræða 174 millj kr.

Í 3. gr. er fjallað um ráðstöfun á gengismunasjóði. Nokkur óvissa ríkir um það, hversu mikið fé hér verður um að ræða, þar sem miklar birgðir eru af óseldri skreið og alger óvissa ríkir um, hvernig kunni að seljast eða hvenær. Sama máli gegnir um verkaðan saltfisk, sem sendur var til Zaire og ekki hefur fengist greiddur enn. Ekki er þó ólíklegt að heildarverðmæti birgða og þess, sem ógreitt er, en þegar flutt út, geti numið nm 18 milljörðum kr. og er þá hvorugt þess, sem hér var nefnt, talið með sakir óvissu. Enn fremur eru ákvæði um ráðstöfun á gengismunarsjóði.

Gert er ráð fyrir að 65% af því fé, sem kemur í sjóðinn af verðjöfnunarafurðum, renni til viðkomandi deilda Verðjöfnunarsjóðs. Mikil þörf er á að efla sjóðinn, sem á undanförnum árum hefur orðið að taka á sig skuldbindingar sem hafa verið bein afleiðing af kostnaðarhækkunum framleiðslunnar innanlands. Er því eðlilegt að þegar genginu er breytt til að vega upp á móti innlendum kostnaðarhækkunum renni hluti af þeim gengismun, sem til verður, til Verðjöfnunarsjóðs. Einnig virðist eðlilegt að stofnuð verði sérstök deild við Verðjöfnunarsjóð fyrir saltsíld, þar sem framleiðsla hennar virðist nú komin á öruggan grundvöll og fer vaxandi. Gert er ráð fyrir að hluti af gengismun vegna saltsíldar renni í þessa nýju deild sem stofnframlag.

Því fé, sem þá er eftir í gengismunarsjóði, ásamt því, sem til fellur af öðrum sjávarafurðum, skal síðan að hluta varið til að létta stofnkostnaðarbyrði eigenda fiskiskipa sem orðið hafa fyrir gengistapi vegna erlendra og gengistryggðra skulda. Við fyrri gengislækkanir hefur hluta gengismunar einnig verið ráðstafað á þennan hátt, og þykir ekki óeðlilegt, að eigendum fiskiskipa verði bættur að nokkru sá útgjaldaauki sem af gengislækkuninni leiðir, þar sem skuldir þeirra eru að mestu gengistryggðar.

Að hluta verður þessu fé síðan ráðstafað til að greiða fyrir hagræðingu í fiskiðnaði. Enda þótt miklum fjármunum hafi á undanförnum árum verið varið til endurbóta í fiskiðnaði, er brýnt að auka hagræðingu og bæta framleiðni á ýmsum sviðum. Gert er ráð fyrir að sjútvrn. setji nánari reglur um notkun þessa hluta gengismunarsjóðs.

Ekki þykir ástæða til að setja hliðstæð ákvæði vegna annarra útflutningsgreina, einkum af því að þar er ekki um að ræða sömu forsendur um skiptingu framleiðslunnar á tvö stig, veiðar og vinnslu, þar sem annað stigið, vinnslan, nýtur að óbreyttu alfarið gengismunar, né heldur er þar um að ræða jöfnunarkerfi af því tagi sem Verðjöfnunarsjóður er.

Í landbúnaði verður gengisbreytingin tekin beint til þess að lækka þörfina fyrir útflutningsbætur og verður ekki varið betur. Þar er ekki þörf fyrir sjóðmyndun.

Virðulegi forseti. Að svo mæltu vil ég leyfa mér að leggja til, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn.