08.02.1978
Neðri deild: 51. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2061 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

175. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þetta frv. er venjulegur og hefðbundinn fylgifiskur ákvörðunar um gengislækkun. Þetta frv. er fyrsta kynning á þeirri heildarstefnu í efnahagsmálum, sem ríkisstj. væntanlega hefur mótað og mun kynna Alþ. og þjóðinni nú á næstunni. Við í þingflokki Alþfl. erum andvígir þessari heildarstefnu hæstv. ríkisstj. og þess vegna hljótum við að vera andvígir þessu frv. Hitt er annað mál, að fyrst ákvörðun um gengisbreytingu hefur verið tekin og engin gjaldeyrissala á sér nú stað, er auðvitað nauðsynlegt að eðlileg viðskipti geti aftur hafist sem fyrst. Þess vegna mun þingflokkur Alþfl. stuðla að því, að Alþ. geti afgreitt þetta frv. í dag og á morgun, til þess að eðlileg gjaldeyrisviðskipti geti hafist að morgni föstudags, en án slíkra ráðstafana og þeirra sem felast í frv. er ekki hægt að hefja eðlileg gjaldeyrisviðskipti að nýju.

En fyrst boðskapur þessa frv, er fyrsti kapítulinn í þeim róman í efnahagsmálum, þeirri hrollvekju í efnahagsmálum, sem ríkisstj. mun kynna Alþ. og alþjóð á næstunni, þá tel ég ekki annað fært en að fara örfáum orðum um þessa stefnu, þó ég muni láta ítarlegar umr. um bana bíða þangað til heildarmyndin liggur fyrir Alþ. af hálfu hæstv. ríkisstj.

Þeir voru margir sem spáðu illa fyrir hæstv. ríkisstj. þegar hún tók völdin. Ekki var vinstri stjórnin góð stjórn og þess vegna hefði átt að vera lítill vandi að gera betur. En þessi stjórn hefur bara ekki gert betur. Hún hefur brugðist í bókstaflega öllum skilningi. Og hvað er til marks um þetta? Þetta er harður dómur, stór orð. En skyldi ekki vera hægt að finna því stað, að ríkisstj. hafi haldið illa á málum, að hún hafi brugðist?

Í þessu sambandi vil ég fyrst benda á, að þegar ríkisstj. tók við völdum var eitt af hennar aðalfyrirheitum að lækka verðbólguna niður í um það bil 15%. Hver var verðbólgan í fyrra, þegar ríkisstj, hafði setið þrjú ár að völdum? Hún var 30–35%, meira en helmingi hærri en ríkisstj. kvað sig ætla að láta bana verða á valdatíma sínum. Og hver yrði verðbólgan í ár, ef ekkert yrði að gert, ef stefna stjórnarinnar héldist óbreytt? Þá mundi hún verða 35–40%, þrisvar sinnum meiri en stjórnin gaf fyrirheit um að hún mundi verða á valdatíma hennar.

Þetta hefur svo auðvitað leitt til þess, að stórkostlegur halli hefur orðið í atvinnurekstri landsmanna, sérstaklega í útflutningsatvinnuvegunum. Hvernig skilur ríkisstj. við aðalatvinnuveg landsmanna, sjávarútveginn, eftir nær fjögurra ára valdaferil? Hvernig er staða sjávarútvegsins í dag? Sérfræðingar telja að halli hans á einu ári mundi við núverandi aðstæður verða 12 milljarðar kr. M.ö.o.: ríkisstj. hefur með stefnu sinni leikið aðalatvinnuveg landsmanna þannig, að hann er rekinn í dag með 12 milljarða kr, halla á ársgrundvelli.

Og hvað er að segja um landbúnaðinn? Nú koma bændur aldrei saman til fundar, hvergi á landinu, án þess að gera ályktanir um það, að ástand í landbúnaði hafi aldrei verið verra en nú. Nú krefjast bændur gerbreyttrar stefnu í landbúnaðarmálum. Þegar ég fyrir 10–15, jafnvel 20 árum hóf umr. um að nauðsyn væri að breyta um stefnu í landbúnaðarmálum, þá var það kallað fjandskapur við bændur og vanmat á íslenskum landbúnaði. Hvorugt hafði mér nokkurn tíma dottið í hug, hvorki fjandskapur við bændur né heldur vanmat á landbúnaði. En ég og aðrir, sem töluðu og hugsuðu eins og ég, töluðum lengi fyrir daufum eyrum. Í fyrra, á því herrans ári 1977, komu bændur ekki svo saman til mannfundar að þeir gerðu ekki ályktun um að stefnan í landbúnaðarmálum hefði verið alröng og henni þyrfti að gerbreyta.

Hvað er að segja um þriðja aðalatvinnuveg landsmanna, iðnaðinn? Nákvæmlega sama er að segja um hann. Ef samtök iðnaðarins gera ályktanir um sín mál felst í þeim hörð gagnrýni á þá stefnu sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt varðandi þessa mikilvægu iðngrein.

Versluninni var í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. heitið nýrri verðlagslöggjöf. Auðvitað hefur ríkisstj. svíkið þetta loforð gagnvart versluninni eins og öll sín loforð gagnvart öllum öðrum atvinnugreinum. Ekkert slíkt frv. hefur séð dagsins ljós á nær fjögurra ára starfsferli hæstv. ríkisstj.

E.t.v. kemur efnahagsóstjórn ríkisstj. gleggst fram í því, að enn skuli vera um að ræða gífurlegan halla í viðskiptum þjóðarinnar við útlönd. Hafa menn það á hraðbergi, hvað viðskiptahallinn var í fyrra, árið 1977? Hann var 9 milljarðar kr. Hann nam 9 milljörðum kr. í fyrra, viðskiptahallinn við útlönd. Það á auðvitað sinn þátt í því, ásamt viðskiptahalla fyrri ára, að skuldir þjóðarinnar um s.l. áramót voru orðnar hærri en nokkru sinni fyrr í íslenskri sögu. Skuldir þjóðarinnar við útlönd voru um s.l. áramót 129 milljarðar eða því sem næst 600 þús. kr. á hvert einasta mannsbarn í landinu, ungt og gamalt. M.ö.o.: ríkisstj. hefur hagað stefnu sinni þannig, að safnast hafa allt að því 600 þús. kr. skuldir á hvern einasta Íslending. Auðvitað er þetta óbærilegur baggi.

Ekki hefur ríkisstj. tekist betur að stjórna eigin búi, þ.e.a.s. ríkissjóði, heldur en þjóðarbúinu í heild, þrátt fyrir öll orðin um nauðsyn þess, að ríkisbúskapurinn væri hallalaus, þegar ríkisstj. tók við völdum. Í fyrra var ríkissjóður rekinn með halla sem nam tveim milljörðum kr. Þetta er til viðbótar við halla fyrri ára, sem fyrst og fremst hefur verið greiddur með skuldasöfnun í Seðlabankanum, greiddur með þeim einfalda hætti að segja Seðlabankanum að prenta fleiri seðla og lána ríkissjóði. Þessi stefna, þessi aftaða ríkisstj. til Seðlabankans, þessi misnotkun á húsbóndavaldi ríkisstj. yfir Seðlabankanum hefur leitt til þess, að um s.l. áramót var skuld ríkissjóðs við Seðlabankann hvorki meira né minna en 15 milljarðar kr. og hefur aldrei í sögunni verið hærri.

Ég held að ekki þurfi að fara fleiri orðum í tilefni af fyrsta kapítula þeirrar hrollvekju, sem við eigum í vændum að hlusta á, en að nefna þessar staðreyndir til þess að sýna fram á hversu gersamlega ríkisstj. hefur mistekist það ætlunarverk sem hún setti sér í upphafi. Þetta taldi ég nauðsynlegt að kæmi fram þegar við 1. umr. þessa máls en heildarstefna ríkisstj. mun að sjálfsögðu verða rædd nánar af hálfu okkar í Alþfl. þegar hún hefur lagt hana í heild fyrir hið háa Alþingi.

Ég endurtek að flokkur minn mun greiða fyrir því, að þetta frv. geti fengið afgreiðslu í Alþ. í dag og á morgun, þannig að eðlileg viðskipti geti hafist aftur á föstudagsmorgun.